Icesave – rugl í umræðunni allt til loka

Sigurður Már Jónssoncropped-Sigurður-Már-Jónsson-lítil.jpg

Icesave málinu er lokið. Líklega er óhætt að fullyrða það núna þegar ekki eru eftirlifandi neinar kröfur á íslensk stjórnvöld og íslenskir skattgreiðendur ættu því loksins að getað andað léttar. Og jafnvel þeim örfáu sem leiðist umræðuefnið, ja þeir ættu líka að ná að slaka á, líklega fer að sjá fyrir endann á þessari umræðu. En þessi lokaandtök málsins sýna líka glögglega það sem hefur verið að trufla upplýsandi umræðu um Icesave allan tíma, umræðan hefur því miður oftar en ekki byggst á ruglingi og rangfærslum fólks sem frá upphafi hefur afflutt málið. Hvað veldur er erfitt að segja en hugsanlega hefur alla tíð vakað fyrir einhverjum að láta skattgreiðendur borga þessa kröfu, svo að unnt sé að kenna kapítalismanum eða bara jafnvel hugmyndinni um frjáls viðskipti um. Í það minnsta er augljóst að það voru vinstri menn sem hvað harðast börðust fyrir því að skattgreiðendur tækju á sig þessar óheyrilegu skuldir. Höfum hugfast að sjö ára „skjól” Svavars-samningsins væri nú senn að renna út og íslenskir skattgreiðendur stæðu uppi með um 250 milljarða króna kröfu á sínum herðum. Buchheit-samningurinn var miklu ásættanlegri en eigi að síður væri skuld skattgreiðenda vegna hans nú um 67 milljarðar króna að því er sérfræðingar Vísindavefsins hafa reiknað út.

En rangfærslunum lýkur seint og blekkingaleikurinn heldur áfram. Sá er þetta skrifar hefur haft fyrir því að halda úti umræðusíðu á Facebook allt síðan bók mín, Icesave samningarnir – Afleikur aldarinnar kom  út 2011. Þar hefur samviskusamlega verið haldið til haga því sem um málið hefur verið sagt. Þar kennir margra grasa.

Við borgum og semjum!

Pólitískur trúnaðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, skrifaði fyrir stuttu enn eina villugreinina undir fyrirsögninni: „Icesave: Við borgum og semjum og borgum…” Látalætin eru alger eins og vanalega úr þeim ranni og spurningunum, sem þarna er varpað fram, hefur augljóslega verið svarað áður, að því leyti sem þær skipta yfir höfuð máli. En allt er þetta gert til að snúa útúr og villa um fyrir fólki, til þess eins að fá einhverja til að trúa því að skattgreiðendur séu samt að  borga. Og þetta var ekki í fyrsta skipti sem varaformaður VG reyndi að rugla umræðuna. Marga rak í rogastans þegar þeir sáu eftirfarandi færslu á heimasíðu hans í desember 2014: „Núverandi stjórnarflokkar nýttu sér upplausnarástandið í samfélaginu í kjölfar Hrunsins til að fægja ásjónu sína gagnvart Icesave reikningunum. Það gerði forsetinn sömuleiðis. Saman tókst þeim með lýðskrumi, ópum og köllum að telja almenningi trú um að hægt væri að ýta vandamálinu út af borðinu. Nú er komið í ljós það sem flestir reyndar vissu að það var og er ekki hægt.“ Tilefni þessarar klausu var að Gamli Lands­bank­inn (LBI) hafði þá greitt breska rík­inu 1,36 millj­arða punda, rúma 268 millj­arða króna, af Ices­a­ve skuld bank­ans við breska skatt­greiðend­ur sem áttu Ices­a­ve-reikn­inga hjá bank­an­um eins og lesa má hér.

Annað dæmi af líkum toga, heldur eldra, sást þegar Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifaði pistil í desember síðastliðnum sem bar heitið: „Við greiðum Icesave – með bros á vör”. Tilefni pistils prófessorsins var tilkynning breskra stjórnvalda um að þau hefðu endurheimt um 85% að kröfum sínum í þrotabú Landsbankans, vegna Icesave reikninganna. Bresk stjórnvöld minntust hins vegar ekki einu orði á að um væri að ræða skuld íslensku þjóðarinnar í tilkynningu sinni. Það gerir prófessorinn hins vegar og ræddi blákalt um „skuld Íslendinga”. Stefán var einn þeirra sem hvöttu Íslendinga ítrekað til að undirgangast ábyrgðina á skuldum Landsbankans. Þannig skrifaði hann í Fréttablaðið 17. ágúst 2009 að það væri fráleitt að fara með málið fyrir dóm til að útkljá ábyrgðina. „Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð,“ sagði prófessorinn. Fleiri háskólamenn töluðu á þessum nótum. Vegna slíkra skrifa var þessi meinloka lífseig en að sjálfsögðu var Icesave krafan aldrei skuld íslensku þjóðarinnar. Ekki frekar en að erlendar skuldir Actavis eða annarra stórfyrirtækja eru skuldir Íslendinga. Skuld og krafa í þrotabú er heldur ekki sami hluturinn eins og kom fram í ágætri svargrein ungs hagfræðings við rangfærslum prófessorsins.

Krafa en ekki skuld

Fjölmiðlar hafa oftar en ekki reynst ófærir um að koma málinu óbrjáluðu til skila. Minnistætt er þegarFréttablaðið sá tilefni til þess aftur og aftur árið 2012 að halda því á lofti hvernig allt gæti farið á versta veg ef málið tapaðist fyrir EFTA dómstólnum. Gott ef þúsund milljarðar voru ekki undir. Það þýddi hins vegar ekki að málið væri metið svo stórt að blaðið teldi rétt að senda fréttamenn á vettvang þegar réttað var í málinu í Lúxemborg. Undirritaður fór hins vegar fyrir höndMorgunblaðsins og RÚV sendi fréttamann á síðustu stundu þegar þeim var vinsamlega bent á að þeim bæri nú að gera það. En þessi þúsund milljarða áhætta sem í málinu átti að felast var endurvakin í vor af Fréttablaðinu. Allt vegna þessa máls sem nú hefur verið samið um með uppgjöri við Tryggingarsjóð Innstæðueigenda (TIF). Niðurstaða sem mátti vera augljós en samt kausFréttablaðið, bæði í frétta- og leiðaraskrifum, að láta líta út sem hér væri krafa á hendur landsmönnum sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af. Svona skrifaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins10. júní síðastliðin: „Og um leið er ljóst að sá farvegur sem Icesave-deilan fór í er síðri því enn sér ekki fyrir endann á þeim deilum. Núna liggja nefnilega fyrir EFTA-dómstólnum álitamál tengd ábyrgð ríkisins á bankakerfinu og hundraða milljarða kröfur eru undir. En fari allt á versta veg í málarekstri Breta og Hollendinga á hendur innstæðutryggingakerfinu og íslenska ríkinu, þá verður í það minnsta gott að eiga afgang eftir uppgjörið við kröfuhafana.“ Þessi krafa hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar einfaldlega var gengið frá samkomulagi um greiðslu frá TIF. Of langt mál væri að telja upp nálgunRÚV á málið, en þó er rétt að halda til haga að lengst af hét Icesave krafan aldrei annað en Icesaveskuldin” í fréttum RÚV. Það sýnir ef til vill betur en annað hvert viðhorfið var.

Það er vitaskuld umdeilanlegt hvort rétt sé að fara fram á afsökunarbeiði frá þeim sem héldu þá á málum eða studdu hina fráleitu samninga. Það er hins vegar lágmarkskrafa að menn hætti að breiða út rangfærslur og blekkingar. Í ræðu sinni á þjóðhátíðardeginum 2009 flutti Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, þessi skilaboð á Austurvelli vegna Icesave en þá var Svavars-samningurinn nýkominn fram:

„Þær ákvarðanir sem nú þarf að taka eru flestar erfiðari og þungbærari en orð fá lýst. Sú ákvörðun að ganga til samninga vegna skuldbindinga sem á okkur hvíla vegna ICESAVE reikninganna er afar erfið en óhjákvæmileg. Nauðsynlegt er að hafa í huga að það er samdóma álit allra ríkja Evrópusambandsins, þar á meðal okkar helstu vinaþjóða, að íslenska ríkið beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hér um ræðir. Lögfræðilegar álitsgerðir bentu einnig til þess að engin leið væri fær til að útkljá þetta álitaefni fyrir dómi án samþykkis allra aðila. Það gæti því haft mjög alvarlegar afleiðingar að hafna skuldbindingunni einhliða.

Raunveruleg hætta væri á því að Ísland einangraðist á alþjóðavettvangi, markaðir myndu lokast og lánamöguleikar yrðu að engu. Slíkt myndi valda almenningi hér á landi og atvinnulífinu ófyrirsjáanlegum skaða til frambúðar.”

Það mátti hins vegar greina smá iðrun í þessum orðum núverandi formanns Samfylkingarinnar sem hann lét falla á Morgunvakt Rásar 1 nú í byrjun september: Á síðasta kjörtímabili vorum við ekkert á því að gefa þjóðinni tækifæri til að tjá sig um Icesave. Það voru mistök, alvarleg mistök og ég held einfaldlega að þjóðin sé komin að þeirri niðurstöðu, og ég deili þeirri skoðun með þjóðinni, að það sé í lagi að fela henni flókin málefni til úrlausnar, jafnvel viðkvæma milliríkjasamninga eins og í tilfelli Icesave.“

Lokaniðurstaðan er stórsigur

Nú hefur það hins vegar gerst sem andstæðingar Icesave samninga héldu alltaf fram. Krafa Hollendinga og Breta var ekki réttmæt og byggðist ekki á neinum lögum. Það hafa dómstólar rækilega staðfest.  Niðurstaðan sem tilkynnt var um fyrir nokkrum dögum er stórsigur fyrir þau sjónarmið sem andstæðingar Icesave samninga hafa alltaf sagt. Bretar og Hollendingar hafa nú fallið frá öllum kröfum á hendur íslenskum yfirvöldum og samþykkja það sem legið hefir fyrir frá upphafi – semsagt að taka yfir Tryggingarsjóð Innstæðueigenda (TIF) og fjárfesta, B-deild. Þetta hefur þeim alltaf staðið til boða og það að þeir kjósa að fara þessa leið núna sýnir að Íslendingar hafa haft traustan málagrundvöll alla leið.

Ef menn vilja rifja upp frekari ummæli þá má benda á þessa ágætu samantekt sem gamall samstarfsmaður í blaðamennsku tók saman. Hún er þörf upprifjun nú þegar við erum vonandi að kveðja þetta mál.