Dagur finnur nýjan skattstofn

Dagi B. Eggertssyni borgarstjóra hefur tekist að finna enn einn skattstofninn – nýja leið til að fjármagna skuldugan borgarsjóð. Hér eftir rukkar skipulagsfulltrúi fyrir móttöku erinda um deili- eða aðal­skipu­lags­breyt­ingu eða út­gáfu fram­kvæmda­leyf­is.

Gjaldið verður 10.500 krónur en því er „ætlað að standa undir umsýslu og öðrum kostnaði við skipulagsvinnu embættisins s.s.afgreiðslukostnaðar, gerð umsagna, deiliskipulags, breytinga á deiliskipulagi, grenndarkynninga, útgáfu framkvæmdaleyfa, öflun meðmæla Skipulagsstofnunar o.fl.,“ segir á vef borgarinnar.

Á fyrstu sex mánuðum ársins var 3.038 milljóna króna halli á A-hluta borgarsjóðs og líklega var um vanmat að ræða þar sem gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga var of lág. Rekstrarkostnaður er 128% af skatttekjum borgarinnar og stefnir að óbreyttu í að verða enn hærri. Frá því að Dagur B. og félagar tóku við völdum í Reykjavík árið 2010 hafa skuldir borgarsjóðs hækkað um 13.300 milljónir króna á föstu verðlagi þrátt fyrir að tekjur hafi hækkað litlu minna eða um 13.100 milljónir.

Einhverjir hafa því samúð með borgarstjóra sem leitar logandi ljósi að nýjum tekjustofnum. Móttökugjald skipulagsfulltrúa er síðasta dæmið en ekki er langt síðan meirihluti borgarstjórnar ákvað að  leggja á sérstaka viðbótargreiðslu og gatnagerðargjald fyrir stækkun og nýbyggingar. Gjaldið er 14.300 krónur á fermetra vegna nýs íbúðarhúsnæðis, eða 1,43 milljónir á 100 fermetra íbúð. Gjaldið leggst ofan á gatnagerðargjald sem þegar er innheimt og er 10.400 krónur á fermetra í fjölbýli. Þannig ætlar Reykjavíkurborg að leggja tæplega 2,5 milljónir króna gjöld á nýja 100 fermetra íbúð.

Nú er bara að bíða eftir næsta gjaldi sem lagt verður á borgarbúa en hugmyndaauðgin er mikil eins og „skrefagjald“ í sorphirðu var ágætt dæmi um.