Reykjavíkurvandi Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík má muna fífil sinn fegurri. Varla er djúpt í árinni tekið þegar því er haldið fram að sterkt vígi sé fyrir löngu fallið. Vonir um endurreisn í sveitarstjórnarkosn-ingunum vorið 2014 urðu að engu. Sjálfstæðisflokkinn vantaði rúmlega 12.100 atkvæði til ná meðalfylgi flokksins í borgarstjórn 1974 til 2010.[1] Þetta jafngildir öllum atkvæðum Framsóknarflokksins og Vinstri grænna og helmingi atkvæða Pírata.

Vonbrigði sjálfstæðismanna voru mikil enda flestir sannfærðir um að sóknarfærin væru mikil eftir fjögurra ára valdatíð Besta flokksins og Samfylkingarinnar undir stjórn Jóns Gnarr og Dags B. Eggertssonar.  Fjórum árum fyrr hafði Sjálfstæðisflokkurinn fengið verstu útreið í sögu borgarstjórnar með 33,6% atkvæða. Engum kom til hugar að fylgið kæmist neðar. Sjálfstæðismenn voru fullvissir um að botninum væri náð og leiðin því aðeins upp á við. Hið gagnstæða gerðist. Flokkurinn tapaði 23 af hverjum 100 kjósendum og fékk 25,8% atkvæða.

 Reykjavíkurvandi Sjálfstæðisflokksins