Fjárfestingaþörf í innviðum 500 milljarðar á næstu árum

Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum á Íslandi, bæði hefðbundnum og félagslegum, er metin af fjármálafyrirtækinu GAMMA um 12-15% af vergri landsframleiðslu, eða sem nemur að minnsta kosti 250 milljörðum króna. Fjárfestingarþörf i innviðum næstu 7-10 árin verður samkvæmt sömu greiningu að minnsta kosti 500 milljarðar eða um 25% af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í ítarlegri grein sem Gísli Hauksson, stofnandi og forstjóri GAMMA, skrifar í nýjasta hefti Þjóðmála.

Nær útilokað er að hið opinbera – ríkis og sveitarfélög – geti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar án aðkomu einkaaðila en fram til þessa hefur aðkoma þeirra verið takmörkuð. Gísli bendir á að það séu allnokkur tækifæri fyrir einkaaðila að koma að innviðum og vel komi til greina að opinberir aðilar selji hluta af eign sinni og fái einkaaðila til liðs við sig. Má þar meðal annars nefna Landsvirkjun, Orkuveituna, Landsnet, Leifsstöð og hafnarmannvirki og rekstur þeirra. Hægt væri að telja upp mun fleiri dæmi.

Frá hruni fjármálakerfisins 2008 hefur fjárfesting í samgöngumannvirkjum dregist saman um 70% og er uppsöfnuð þörf því gríðarleg. Gísli nefndir Sundabraut sem skýrasta dæmið um vegaframkvæmd sem henti mjög vel í einkafjármögnun og einkaframkvæmd. Áætlað þjóðhagslegt tap af því að hafa ekki hafist handa við Sundabraut fyrir tíu árum, þegar það stóð til, er á bilinu 12-15 milljarðar króna, samkvæmt mati GAMMA. Aðkoma einkaaðila að Hvalfjarðargöngunum hafi gefist vel og líklegt að mörg ár eða jafnvel áratugir hefðu liðið áður en göngin hefðu verið gerð ef ekki hefði komið til aðkoma annarra en ríkisins.

Gísli varar hins vegar við því að þátttaka einkaaðila í samgönguverkefnum verði til þess að stjórnmálamenn sjái sér leik á borði og komi verkefnum á koppinn á pólitískum forsendum. Í meistararitgerð Vilhjálms Hilmarssonar í hagfræði sem GAMMA verðlaunaði árið 2012 var þjóðhagslegt tap Vaðlaheiðarganga metið á að minnsta kosti 4,3 milljarða. Með kostnaðaraukum og töfum er þjóðhagslega tapið nú komið vel á sjöunda milljarð króna.

Samtals má því ætla að þjóðhagslegt tap af því að hafa ekki ráðist í Sundabraut en að hafa ráðist í gerð Vaðlaheiðaganga sé komið yfir 20 milljarða króna.

Sjá nánar í Þjóðmálum.