Saga endurtekin? – Ekki endilega

Í apríl 1998 sögðu bankastjórar Landsbankans af sér eftir að hafa setið undir ásökunum um að hafa misfarið með risnukostnað og þá ekki síst vegna laxveiða.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra á þessum tíma. Í umræðum um skýrslu viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans sagði meðal annars:

„Þinginu og þjóðinni er núna mikilvægast að friður og traust fái að ríkja um Landsbankann á ný, jafnt inn á við sem út á við. Landsbankinn er ein mikilvægasta fjármálastofnun landsins og orðspor okkar út á við og inn á við krefst þess að skapað sé traust og friður um bankann. Bankastjórar Landsbankans hafa sagt af sér, fyrst aðalbankastjórinn, m.a. af heilsufarsástæðum, og síðan hinir tveir bankastjórarnir í kjölfarið. Þar með hafa orðið kaflaskil í málinu og viðbrögð bankastjóranna eru óvenjuleg við aðstæður eins og þessar. Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.

Ég tel að hæstv. viðskrh. og reyndar ríkisstjórnin hafi sýnt algerlega fumlaus viðbrögð í þessu erfiða máli og tryggt að enginn dagur liði eftir að mál höfðu skipast eins og við þekkjum án þess að bankanum væri tryggð skipuleg, traustvekjandi stjórn. Það hefur hæstv. viðskrh. gert fumlaust og það mun hafa mesta þýðingu fyrir framtíð bankans að mínu mati.”

Síðar sagði forsætisráðherra:

„Meginmálið er að bankanum, stærsta banka þjóðarinnar, hefur verið komið á ról á nýjan leik og full ástæða er til að ætla að bankinn muni fljótt og vel ávinna sér traust á ný. Það hlýtur að vera það sem vakir fyrir okkur að verði tryggt. Hér geta menn haft uppi stór orð um einstaklinga sem eru ekki hér til að verja sig og við vitum að viðurkennt er að þeim hefur orðið á í messunni. Þeir hafa heldur betur viðurkennt það með því að segja störfum sínum lausum, virðulegum, þýðingarmiklum störfum, og þar með tekið á sig fulla ábyrgð eins og hér var krafist á sínum tíma og jafnframt gefið bankanum tóm, þeir hafa allir tekið það fram, tóm og tækifæri til að byggja upp traust sitt á nýjan leik. Ég endurtek að ég tel að hæstv. viðskrh. hafi staðið fumlaust að þessu máli og það sé honum til hróss fremur en til hins gagnstæða.”

Því hefur verið haldið fram að sagan endurtaki sig. Ekki verður séð að það sé rétt a.m.k. ekki er varðar bankastjóra Landsbankans.