Ljós í myrkrinu! – Ferskir vindar blása

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur boðað róttækar skipulagsbreytingar á heilsugæslunni. Innan nokkurra vikna verður rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu boðin út. Tekið verður upp ný aðferð við fjármögnun þar sem tryggt er að fjármagn fylgi sjúklingi og taki mið af ýmsum lýðfræðilegum þáttum.

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, er einn þeirra sem fagnar uppbyggingu heilsugæslunnar og að byggt verður undir fjölbreyttara rekstrarform. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu, bendir Þórarinn á að á öðrum Norðurlöndum hafi heilbrigðisyfirvöld forðast „miðstýringu í heimilislækningum“. Byggt sé á litlum einingum og þjónustusamningum við læknana. „Best hefur reynst að láta heimilislæknana sjálfa bera ábyrgð á umsjá sinna skjólstæðinga enda hafi þeir mesta þekkingu á aðstæðum og þörfum þeirra,“ skrifar Þórarinn og bætir við:

„Ferskir vindar blása nú meðal lækna á Íslandi og er góð samstaða meðal lækna um heilbrigðiskerfið til framtíðar. Læknar eru sammála um að gott heilbrigðiskerfi verði ekki byggt upp á brotinni grunnþjónustu. Áhugi yngri lækna á heimilislækningum fer vaxandi og læknadeild vill gera heimilislækningum hærra undir höfði.

Heilbrigðisráðherra boðar nú áherslur í heilsugæslunni sem allir geta sameinast um. Að bjóða íbúum landsins val á heimilislækni og að auka nýliðun heimilislækna með því að bjóða þeim val um starfsaðstöðu.

Það er ljós í myrkrinu!“