Það verður allt brjálað

Geir Ágústsson er sannfærður um að ef lögbann á tollfrjálsa áfengissölu í Fríhöfninni í Leifstöð, verði samþykkt verði „þotuliðið brjálað“. Eins og komið hefur fram í fréttum hefur HBO vín ehf. lagt fram kæru þar sem engin lagaheimild sé fyrir hendi til að selja áfengi í Fríhöfinni.

Geir skrifar á bloggsíðu sína:

„Opinberir embættismenn og vel borgaðir viðskiptaferðalangar líta á aðgengi að tollfrjálsu áfengi sem nokkurs konar fríðindi eða bónus. Þetta fólk á fulla vínskápa af koníak, vodka og gini sem sauðsvartur almúginn getur ekki leyft sér að kaupa á venjulegu verði í tolluðum vínbúðunum.

Um leið er þotuliðið á því að áfengi til almennings eigi að vera dýrt og óaðgengilegt – annars fara allir sér jú að voða, ekki satt?

Ef fríhafnaráfengi hættir að vera í boði mun þotuliðið ekki sætta sig við það. Áfengislöggjöfinni verður breytt á slíkum hraða og í slíkri fjarveru umræðu á Alþingi að furðu sætir. Löggjöfinni verður ekki breytt til rýmkunar á sölufyrirkomulagi áfengis heldur eingöngu til að koma til móts við þotuliðið svo það geti áfram haft aðgang að tollfrjálsu áfengi. Vínbúðir ríkisvaldsins munu standa óhreyfðar á einokunrstalli sínum utan flugvallanna.

Þetta verður spennandi mál, en um leið svo fyrirsjáanlegt.“