Embætti forseta verði pólitískt

Margir vinstri menn hafa lengi gengið með forsetann „í maganum“ enda líta þeir svo á að embætti forseta Íslands sé pólitískt valdaembætti sem eigi að nýta til hrinda hugsjónum vinstri manna í framkvæmd. Þröstur sér ekki annað en að þetta viðhorf þeirra gangi þvert á ákvæði stjórnarskrár, enda lætur forsetinn „ráðherra framkvæma vald sitt“ og er „ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum“. En það er aukaatriði.Stefán Jón Hafstein -netupplausn

Stefán Jón Hafstein er einn þeirra sem vinstri manna sem lengi hefur horft til Bessastaða. Hann veit sem er að það er lítil eða a.m.k. ótrygg framtíð innan veggja Samfylkingarinnar, sem er í sárum. Sem fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar getur Stefán Jón gert tilkall til þess að verða fulltrúi vinstri manna eftir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ákvað að gefa ekki kost á sér. Í viðtali við Eyjuna segir borgarfulltrúinn fyrrverandi:

„Ég hefði aldrei boðið mig fram gegn henni, það var einfaldlega ekki í mínum beinum að slást við slíkan samherja.“

Þröstur er á því að Stefán Jón sem í þokkalegri æfingu til að gegna forsetaembættinu, eftir að hafa verið starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar og dvalið langdvölum í Afríku. Þar mun vera vel gert við sendimenn Íslands og lífið þægilegt, í glæsihúsum með þjónum. Ekki ólíkt Bessastöðum.

Stefán Jón er sannfærður um að hann eigi erindi. Hann hafi lagt áherslu á að nýr forseti standi „tryggan vörð um almannahagsmuni, lýðræðisþróun og frjálslynd og framsækin viðhorf“.

Hvorki meira né minna!

Þetta segir Stefán Jón að sé enn mikilvægara en áður „þegar maður sér vangstýfðar tillögur þingflokkanna í stjórnarskrármálinu“:

„Þetta fólk sem situr á þingi vill einfaldlega ekki færa fólkinu í landinu aukin áhrif og völd og tvístígur í kringum auðlindamálin með furðulegum vífillengjum. Við gætum því séð örlagaríkar forsetakosningar og í framhaldi af því sögulegar þingkosningar. Með því að kjósa forseta sem setur þessi mál á oddinn sendir fólkið í landinu flokkunum skýr skilaboð: Nú er nóg komið.“

Hvernig Stefán Jón ætlar að standa við stóru orðin, fari hann fram og nái kjöri sem forseti, er óljóst . En auðvitað skiptir það litlu. Þetta eru allt innantómir en hljómfagrir frasar sem nýtast gagn gagnvart vinstri mönnum, sem nú þarf að smala saman.