Vinstri flokkarnir hafa misst sex af hverjum tíu kjósendum frá 2009

Staða hefðbundinna vinstri flokka á Íslandi hefur aldrei verið lakari en nú ef marka má skoðanakönnun MMR. Samanlagt fylgi þeirra er 19,8%. Meðalfylgi vinstri flokka í alþingiskosningum frá 1963 er hins vegar 38%. Fylgið hefur aldrei farið niður fyrir 30%.

Árið 1978 unnu Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag kosningasigur og þá sérstaklega fyrrnefndi flokkurinn sem fékk 22% – litlu minna en síðarnefndi flokkurinn sem var með 22,9%. Meðalfylgi Alþýðuflokksins í þingkosningum 1963 til 1995, þegar flokkurinn bauð fram í síðasta sinn, var 14,3%. Fylgi Alþýðubandalagsins var að meðaltali nokkru meira eða rúmlega 17%. Aðeins einu sinni fékk fyrrnefndi flokkurinn undir 10% í kosningum – 9,1% árið 1974. Alþýðubandalagið fékk misst 13,3% árið 1987.

Vinstri flokkarnir hafa ekki alltaf verið samstíga. Auk Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, hafa vinstri menn helst verið undir merkjum Samtaka frjálslynda og vinstri manna, Bandalags jafnaðarmanna, Kvennalista, og Þjóðvaka. Fyrir kosningarnar runnu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalagið, Kvennalisti og Þjóðvaki saman að formi til í Samfylkinguna. Sameiningin tókst ekki fullkomlega því Vinstri grænir urðu til. Í síðustu þingkosningum kom Björt framtíð fram á sjónarsviðið.

Árið 2009 unnu íslenskir vinstri menn mikinn sigur en samtals var fylgi þeirra 51,5% og var fyrsta hreina vinstri stjórnin mynduð undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur. Í kosningunum 2013 hrundi fylgið hins vegar en að teknu tilliti til atkvæða sem Björt framtíð fékk (8,2%) var fylgið þó 32%.

Könnun MMR sýnir hins vegar að fylgishrunið heldur áfram. Samfylkingin er komin niður í 7,8% og VG er með sama fylgi. Björt framtíð er aðeins með 4,2% og næði ekki inn manni á þing. Þetta þýðir að vinstri flokkarnir hafa misst sex af hverjum tíu kjósendum frá árinu 2009.