Tákn um séríslenskan húmor

Það er „talandi tákn um séríslenskan húmor“ að Össur Skarphéðinsson skuli „telja sig best til þess fallinn af öllum mönnum að verða forseti Íslands!“ skrifar Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri í Morgunblaðið í dag.

Í greininni fjallar Páll um stöðu Samfylkingarinnar og rifjar upp aðildarumsóknina að Evrópusambandinu í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Þar hafi Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, leitt „einhverja ótrúlegustu sneypuför sem íslenskur ráðamaður hefur farið til útlanda“. Umboðslaus hafi Össur hrökklast til og frá Brüssel árum saman.

Páll skrifar síðan um hugsanlegt framboð Össurar til embættis forseta Íslands:

„Það er svo talandi tákn um séríslenskan húmor að þessi fararstjóri til Brüssel, og einn þeirra sem hafa dregið Samfylkinguna út í mýrina miðja, er nú sagður telja sig best til þess fallinn af öllum mönnum að verða forseti Íslands! Skilst nú betur af hverju þessi fyrrverandi mesti orðhákur íslenskra stjórnmála hefur ekki talað um annað á opinberum vettvangi misserum saman en konu sína, kött og krakka. Hann veit af klókindum sínum að þessi þrenning er miklu fremur, og maklega, til vinsælda fallin en annað sem hann hefur staðið fyrir í áranna rás.“