„Góða fólkið” finnur „góða málið”

Róbert Marshall og aðrir þingmenn Bjartrar framtíðar vilja að ríkið taki að sér að gefa öllum nýburum vöggugjöf. Þingmennirnir hafa ásamt þremur þingmönnum úr Samfylkingu og Vinstri grænum, lagt fram þingsályktunartillögu um að „að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hefji undirbúning að áhugakönnun og þarfagreiningu á opinberum stuðningi við verðandi foreldra í formi vöggugjafar sem innihaldi nauðsynjavörur fyrir ungabörn“.

Höfundur Staksteina Morgunblaðsins bendir á að þar með hafi Róbert og „nokkrir aðrir örvæntingarfullir þingmenn Bjartrar framtíðar og ámóta flokka í útrýmingarhættu”  fundið „góða málið“ sem á að lyfta þeim inn á þing í næstu kosningum:

„Getur nokkur verið á móti þessu? Er þetta ekki afskaplega jákvætt, að ríkið gefi öllum börnum vöggugjöf? Það hlýtur að vera gott.”

Staksteinar halda síðan áfram:

„Næsta mál sem þessir góðu þingmenn eru án efa með í undirbúningi er ekki síður gott, en það hlýtur að vera að ríkið sjái öllum fyrir afmælisgjöfum til átján ára aldurs.

Er ekki óþolanndi að sumir fái rýrari afmælisgjafir en aðrir? Og er lausnin þá ekki að ríkið tryggi öllum ríkisafmælisgjöf?

Auðvitað er ríkisafmælisgjöf lausnin og alger óþarfi að láta staðar numið þar; ríkið getur tekið að sér svo miklu meira af daglegu lífi fólks.”

Höfundur Staksteina telur það algjöran óþarfa „að hafa áhyggjur af skattgreiðendum í þessu sambandi”:

„Þeir halda núna eftir um það bil annarri hverri krónu sem þeir afla og geta vel látið hana af hendi líka og farið á fullt framfæri ríkisins, allir sem einn.”