Hugsjónir í stað hálfvelgju

Ritstjórnarbréf

„Grundvöllur stefnu þess er
fullkomið frelsi þjóðar
og einstaklings,
séreign og jafnréttur allra þjóðfélagsborgara.“

Þetta lýstu ungir hugsjónamenn í Heimdalli, sannfæringu sinni á félagfundi í febrúar 1931 – fyrir rétt 85 árum. Á fundinum var samþykkt sjálfstæð og sérstök stefnuskrá fyrir Heimdall – félag ungra sjálfstæðismanna. Það er merkilegt hve stefnan sem mörkuð var hefur staðist tímans tönn þótt auðvitað hafi sumt markast af aðstæðum þess tíma.

Heimdellingar voru lýðveldis-sinnar, vildu að „sambandinu við Dani“ yrði slitið svo fljótt sem unnt væri og að Ísland tæki öll sín mál í eigin hendur.
Þá ætluðu Heimdellingar að beita sér fyrir því:

  • að efla og vernda þingræði og þjóðræði,
  • að kjördæmaskipunin verði færð í það horf, að atkvæði allra kjósenda geti orðið jafnáhrifaríkt á landsmál, hvar sem þeir búa á landinu.

Enn berjast ungir sjálfstæðismenn fyrir jöfnum kosningarétti og standa vörð um þingræðið. Það er umhugsunarvert að 85 árum eftir að Heimdellingar settu jafnan kosningarétt á oddinn skuli jafnræði ekki enn ríkja meðal borgaranna.

Áminning um almannatryggingar

Heimdellingar töldu nauðsynlegt að komið yrði á „víðtækari og hagkvæmari tryggingalöggjöf, einkum slysatrygginga, sjúkratrygginga og ellitrygginga“.

Framsýni þess unga fólks sem koma saman til fundarins árið 1931 er áminning til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, en einnig til þingmanna Framsóknarflokksins, að láta hendur standa fram úr ermum og styrkja almannatryggingakerfið, einfalda það og tryggja að þeir sem þurfa á aðstoð að halda geti lifað með mannlegri reisn. Á næstu mánuðum mun félagsmálaráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem byggja á tillögum nefndar sem lengt af var undir forystu Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Pétur var einbeittur í að einfalda almannatryggingakerfið og gera það réttlátara. En eins og ætíð stóð hann vörð um hagsmuni skattgreiðenda. Endurspegli væntanlegt frumvarp félagsmálaráðherra, þessa grunnhugsun Péturs, er nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir standi þétt saman um að tryggja framgang þess.

Frjáls viðskipti

Fyrir 85 árum vildi unga fólkið einnig vinna að „auknum skilningi milli launafólks og atvinnu-rekenda „meðal annars með því, að verkamenn fái hlutdeild í arði þeirra fyrirtækja, sem þeir vinna við, þar sem því verður við komið“. Um leið taldi það nauðsynlegt að landbúnaðinum yrði komið í „nýtískuhorf“.

Í atvinnumálum samþykkti Heimdallur að beita sér fyrir því að „frjáls samkeppni ráði í verslun og viðskiptum“. Nauðsynlegt var talið að endurskoða réttarfarslöggjöfina og efla æðsta dómstól þjóðarinnar.

Í uppeldismálum lögðu Heimdellingar áherslu á að þroska einstaklingseðlið og sjálfstæða hugsun.

Hugsað til framtíðar

Þannig hefur margt af hugsjónum ungra sjálfstæðismanna staðist tímans tönn vel og ýmislegt gætu stjórnmálamenn samtímans lært af 85 ára gamalli stefnuskrá. Þeir gætu ekki síst tekið upp og beitt sér fyrir því sama og Heimdellingar vildu árið 1931;

  • að nokkur hluti af tekjum góðæra verði lagður til viðlagasjóðs, er síðan verði varið til að bæta afkomu erfiðu áranna, og fjárveitingavaldið verði raunverulega hjá Alþingi, en ekki ríkisstjórn.

Í rótleysi stjórnmálanna, þar sem pólitískur rétttrúnaður virðist hafa náð yfirhöndinni, er frískandi að rifja upp stefnufestu ungs fólks með ákveðnar skoðanir og djúpa sannfæringu. Ekkert var fjær þessu unga fólki árið 1931 en að taka þátt í „samræðustjórnmálum“ þar sem innihaldslausir frasar eru allsráðandi. Það skildi nauðsyn þess að tekist væri á í hugmyndabaráttunni og vissi að krafa um samræðustjórnmál og málamiðlanir, skilaði þjóðinni aldrei fram á veginn.