Aukin andstaða við að tímasetja kosningar

„Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti,“ sagði Birgitta Jónsdóttir foringi Pírata í umræðum um fundarstjórn á þingi eftir að hafa krafist þess að fá dagsetningu á komandi alþingiskosningar. Yfir 40 ræður voru fluttar í gær um fundarstjórn og ljóst að lítil sátt er um þingstörfin.

Augljóst er að stjórnarandstaðan ætlar, að óbreyttu, að stunda málþóf og koma í veg fyrir framgang mála. Hugmyndir stjórnarflokkanna um kosningar í haust hljóta því að vera í uppnámi en Þjóðmál hafa heimildir fyrir því að margir stjórnarþingmenn séu andvígir því að samið verði um ákveðna dagsetningu þingkosninga. Dagsetningin hljóti að taka mið af þjóðhagslegum hagsmunum og því sé engin skynsemi að ætla sér þröngan tímaramma – lögum samkvæmt sé kjörtímabilið fram í apríl á komandi ári. Mörgum stjórnarþingmönnum finnst einnig fráleitt að ganga til samninga um að flýta þingkosningum undir stöðugum hótunum minnihluta þingsins, þar sem Birgitta Jónsdóttir fer fremst í flokki.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra benti á hið augljósa í samtali við mbl.is í gær, þriðjudag, að þingræði sé í landinu:

„En við megum ekki gleyma því að hér á föstudaginn setti stjórnarandstaðan á okkur vantrauststillögu sem var felld með 38 atkvæðum gegn 25. Það er þingræði í landinu, hér er öflug ríkisstjórn með öflugan meirihluta. Við höfum boðist til í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu að stytta kjörtímabilið og við munum finna út úr því [hvenær kosningar verða]. Við munum finna út úr því, m.a. í samstarfi við stjórnarandstöðuna.“

„Pólitískur óstöðugleiki skilar aldrei heilbrigðu atvinnulífi”, sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á Morgunvaktinni á Rás 1 í gær. Hann endurspeglar áhyggjur margra. Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lýst því yfir að aukin óvissa í stjórnmálum geti haft áhrif á efnahagsstefnu Íslands og þar með lánshæfismat ríkissjóðs. Það leiðir meðal annars til hærri vaxtakostnaðar ríkissjóðs en annars.

Í áðurnefndu viðtali á Rás 1 sagði Þorsteinn einnig um pólitíska óvissu og áhrif hennar:

„Það finnum við strax að er mjög slæmt fyrir hagkerfið. Fólk heldur að sér höndum. Óttast hvað er að fara að gerast, hvað sé framundan. Það er breyttur andi í samfélaginu á bara röskri viku. Í kjölfar hrunsins jöfnuðum við okkur undraskjótt efnahagslega og erum komin í sterkari stöðu en við vorum í fyrir hrun. Við höfum endurreist kaupmátt og heimilin minnkað skuldsetningu og hafa styrkt stöðu sína í þessum uppgangi. En stjórnmálunum hefur ekki farnast jafn vel. Við erum með jafn mikla pólitíska ólgu og við vorum með í kjölfar hrunsins. Það er mjög þunn skán yfir þessum sárum.“

Þorsteinn telur nauðsynlegt að meiri sátt skapist í kringum stjórnmálin:

„Auðvitað deila menn alltaf um pólitískar stefnur, en þessi heift og þetta rifrildi sem gengið hefur sleitulaust síðustu átta eða níu ár gengur ekki lengur“.

Vandinn sem blasir við er hins vegar að sáttin sem minnihluti þingmanna krefst að náist er að meirihluti ríkisstjórnarflokkanna fallist á allar kröfur stjórnarandstöðunnar. Það er ef til vill ekki undrunarefni þegar viðhorf til þingræðis er með þeim hætti sem birtist í orðum Ástu Guðrúnar Helgadóttur, þingmanns Pírata, í umræðum um fundarstjórn forseta í gær:

„Ég hef miklar áhyggjur af þeim málflutningi sem meiri hlutinn hefur um að það séu 38 þingmenn hér sem ráði ríkjum. Ég er bara með mjög einfalda spurningu til hæstvirts forseta: Er þingræði á Íslandi eða er meirihlutaræði?“