Hagsmunaskráning stjórnlagaráðs og Vilhjálmur Þorsteinsson

Vilhjálmur Þorsteinsson, sem neyddist til að segja af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar vegna aflandseigna, var einn þeirra sem sat í stjórnlagaráði sem samdi tillögur að nýrri stjórnarskrá. Síðastliðinn sunnudag bloggar hann um „nýju stjórnarskránna“ og atburði síðustu viku þegar forsætisráðherra ákvað að segja af sér.

Þröstur ætlar ekki að ræða um tilurð stjórnlagaráðs og ólöglegrar kosningar, né heldur gera að umfjöllunarefni þá blekkingu sem ýmsir fyrrverandi stjórnlagaráðsfélagar taka þátt í með því að halda því fram að drög að „nýju stjórnarskránni“ hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þröstur vill hins vegar vekja athygli á tvískinnungi Vilhjálms.

Vilhjálmur skrifar meðal annars:

„Ramminn sem stjórnarskráin setur, leikreglurnar, hefur nefnilega mikil áhrif á það hvað gerist og hvað gerist ekki.
Í fyrsta lagi gerir nýja stjórnarskráin kröfu um hagsmunaskráningu alþingismanna (50. gr.), sem greinilega þarf að styrkja í núgildandi lögum. Engin krafa er um slíka hagsmunaskráningu í gömlu stjórnarskránni.“

Vilhjálmur sem bauð sig fram til stjórnlagaþings sem var breytt í stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur kvað upp þann dóm að kosningarnar hefðu verið ólöglegar, gerði aldrei grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum, hvorki fyrir kjördag eða eftir að hann settist í ráðið til að semja „nýja stjórnarskrá“. Hann gerði engum grein fyrir miklum viðskiptalegum hagsmunum sínum né upplýsti hann um eignir sínar í skattaskjólum. Greinilegt er að hann taldi enga þörf á því þótt hann hefði tekið að sér að semja grundvallarlög fyrir lýðveldið.

Kristbjörg Þórisdóttir gerir athugasemdir við skrif Vilhjálms á bloggsíðu hans. Hún rifjar upp að hún hafi verið „ein þeirra sem talaði mjög mikið fyrir því að hagsmunaskráning stjórnlagaráðsmanna væri nauðsynleg en talaði því miður fyrir daufum eyrum margra, m.a. þinna“.

Þá vitnar Kristbjörg til skoðanaskipta hennar og Vilhjálms á vefnum árið 2012. Þar svaraði Vilhjálmur meðal annars:

„Allir menn hafa einhverja „hagsmuni“, sem mótast af bakgrunni þeirra, reynslu, störfum, áhugamálum og svo framvegis. Kjósendur taka að einhverju leyti tillit til þessa þegar þeir velja fulltrúa sína, þ.e. þeir eru líklegri til að velja fulltrúa sem kjósandinn samsamar sig við að einhverju leyti. Spyrja má: Meðal ráðsfulltrúa eru prestur og guðfræðingur – eiga þeir að fjalla um aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki? Ég er með bakgrunn í upplýsingatækni – á ég að tala fyrir opinni, rafrænni stjórnsýslu eða ekki? Illugi Jökulsson er fjölmiðlamaður – á hann að láta til sín taka á sviði tjáningarfrelsis eða ekki? Freyja Haraldsdóttir er fötluð – á hún að koma að mannréttindum fatlaðra eða ekki? „Hagsmunirnir“ geta legið víða, en eru einhver mörk þarna og hvar eiga þau að vera? Athyglisverðar spurningar, en ég hef ekki fullmótuð svör, önnur en þau að ég held að það séu ekki skýrar línur í þessu. Og að hluta er það hópsins sem heildar að meta hvað séu gildir almannahagsmunir og hvað ekki.“

Það er rétt hjá Vilhjálmi að hagsmunir geta legið víða – meðal annars í aflandsfélögum. En Vilhjálmur taldi enga ástæðu til að greina kjósendum frá þeim hagsmunum. Ekki frekar en öðrum.