Lýsing á höfuðborginni

Halldór Jónsson verkfræðingur lýsir ástandinu í höfuðborginni með eftirfarandi hætti:

„Það er ráðist í þrengingu Grensásvegar og Hofsvallagötu, það er reynt að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll, það eru lagðar niður kaffistofur gamlingja. Það virðist samræmd stefna að hafa Reykjavík sem óþrifalegasta með sandskafla á götunum og rusl út um allt. Það virðist stefna að hafa vondar götur með hættulegum holum í malbikinu en leggja frekar malbikaða hjólastíga. Skipulagsbreytingar eru barðar í gegn í andstöðu við íbúa og svo má lengi telja.Það er safnað skuldum sem nema 70 milljónum 24/7/365 á meðan , yfirmönnun í stjórnkerfinu er áberandi í samanburði við önnur sveitarfélög þar sem reynt er að spara.

Dagur B og EssBjörn fengu að vísu falleinkunn í kosningunum en fengu Halldór Pírata sem bjarghring. Píratar eru því beinlínis ábyrgir fyrir ástandinu í Reykjavík sem þeir hljóta þá að vera ánægðir með. Þó mörgum finnist íhaldið með afbrigðum pasturslítið í andstöðunni þá er það ekki eitt og sér nóg til að skýra stöðuna.“

Halldór, sem er Kópavogsbúi en fæddur Reykvíkingur, er á því að allur metnaður fyrir hönd höfuðborgarinnar hafi glatast:

„Það eru engar byggingalóðir, það er bara ekki neitt nema draumsýnir um að einhverjir muni byggja ódýrar leiguíbúðir þar sem leigan verði niðurgreidd með húsaleigubótakerfi.“