Ekki fréttir, kjánaskapur og Dagur B. borgarstjóri

Síðasta föstudag lét Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sjónvarpsstöðvar vita af því að hann væri að fara á dekkjaverkstæði. Samkvæmt reglum var föstudagurinn síðast löglegi dagur nagladekkja. Borgarstjóri sá tækifæri, klæddi sig í vinnugalla og var tilbúinn fyrir myndavélarnar.

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi ráðherra, var ekki hrifinn. Eiður, sem var í mörg ár sjónvarpsfréttamaður áður en hann snéri sér að stjórnmálum, segir að fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróist „æ meira í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, – ekki fréttir , – heldur oft einhver kjánagangur“.

Í pistli á bloggsíðu sinni skrifar Eiður síðan:

„Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.

Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun? Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin” birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga. Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.“