Uppboðin hafin: 11 milljarða loforð Pírata

Eftir því sem nær dregur kosningum verður uppboðsmarkaður stjórnmálanna virkari. Þröstur tekur eftir því að Píratar ætla sér stóra hluti á þeim markaði og sverja sig þannig æ meira í ætt við hefðbundna vinstri flokka. Nýjasta loforðið er gjaldfrjálsar tannlækningar . Birgitta Jónsdóttir viðurkenndi í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hún hefði ekki hugmynd um kostnaðinn en „það er mjög auðvelt að ná í peninga til þess að koma til móts við þann kostnað“. Sjúkratryggingar telja kostnaðinn 11 milljarða að því er kom fram í fréttinni.

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður er ekki hrifinn en hann skrifar á fésbókarsíðu sína:

„Veikleiki lýðræðisins sem gæti leitt til þess að það verði ekki nothæft sem stjórnkerfi eru endalaus yfirboð á kostnað skattgreiðenda. Loforð um að gera ennþá meira fyrir þig á annarra kostnað.

Í gær komu Píratar með eina slíka tillögu. Gjaldfrjálsar tannlækningar. Alla vega hafa þeir þá getað markað stefnu í tveim málum og færa sig nú sem óðast á vit trylltrar velferðarhyggju og aukinnar skattheimtu.“