Barist fyrir Icesave-samningi

Til að réttlæta tilveru sína getur Viðreisn aldrei gefið eftir kröfuna um að þjóðaratkvæðagreiðslu um „framhald aðildarviðræðna“ við Evrópusambandið. Frambjóðendur flokksins fyrir kosningar eru flestir ef ekki allir sannfærðir ESB-sinnar en Þröstur tók eftir því hve mikið þeir lögðu á sig að fela raunverulega stefnu.

Þegar ESB-sinnar töldu að Ísland væri að ganga inn í Evrópusambandið árið 2009 undir forystu vinstri stjórnar Samfylkingar og VG, tóku þeir upp baráttu fyrir því að íslenskur almenningur yrði látin greiða Icesave-skuldir Landsbankans. Þeir voru sannfærðir um að þær skulir væru það eina sem stæði í vegi fyrir aðild. Einn þessarra baráttumanna var Jón Steindór Valdimarsson, sem kjörinn var á þing fyrir Viðreisn í kosningunum í október. Í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2009 skrifaði Jón Steindór meðal annars:

„Endurreisa verður traust alþjóðasamfélagsins á því íslenska en það er forsenda þess að íslensk fyrirtæki geti átt eðlileg viðskipti við umheiminn. Það er líka forsenda þess að íslenskt fjármálakerfi komist fætur og eðlileg fjármálaviðskipti við útlönd geti hafist. Takist þetta ekki fljótt og vel verða afleiðingarnar fyrir atvinnulífið, heimilin og þjóðfélagið allt alvarlegar og gera illt verra. Þess vegna á Alþingi ekki annan kost en að samþykkja frumvarpið.

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda að deilur um Icesave dragist á langinn með tilheyrandi frystingu lánafyrirgreiðslu til Íslands, áframhaldandi óþolandi óvissu og viðvarandi útistöðum Íslands við nágrannaríki. Það að hafa slíkt hangandi yfir sér leiðir til frekari einangrunar Íslands og dýpkar og lengir kreppuna.“