Blæðandi sár stjórnmálaflokks

Bjartsýni ríkti í herbúðum jafnaðarmanna í aðdraganda kosninga 1999. Langþráður draumur um sameinaðan flokk vinstri manna undir merkjum Samfylkingar var innan seilingar. Markmiðið var ekki aðeins að sameina vinstri menn eftir áratuga sundrungu, heldur ekki síður að velta Sjálfstæðisflokknum úr sessi sem stærsti flokkur landsins. Niðurstaða kosninganna í október síðastliðnum var því áfall, svo ekki séu notuð sterkari orð.

Fáir deila um að Samfylkingin færðist til vinstri undir stjórn Jóhönnu ­Sigurðardóttur – a.m.k. ekki þeir sem eiga rætur í Alþýðuflokknum eða líta á sig sem ­hefðbundna jafnaðarmenn – krata. En jafnvel sú staðreynd getur ekki skýrt að fullu hrun flokksins sem ætlaði sér að verða „turn“ í íslenskum stjórnmálum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist báðum stjórnarflokkunum dýrkeypt en Samfylkingin þurfti að greiða hærra verð en Vinstri grænir. Ríkisstjórnin var sundurtætt, lagði mikið undir í málum sem klufu þjóðina – breyting á stjórnarskrá og aðildarumsókn að Evrópusambandinu – gerði misheppnaðar tilraunir til að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða (sem Össur kallaði síðar bílslys) – gerði samninga um Icesave-skuldir Landsbankans í andstöðu í yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar – reyndi í tvígang að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og kom í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn. Stjórnin náði ekki tökum á ríkisfjármálum, sat undir harðri gagnrýni fyrir vitlausa forgangsröðun ríkis­útgjalda, hækkaði skatta (ekki síst á launa­fólk), náði litlum sem engum árangri við að rétta af skuldastöðu heimilanna, og virtist fremur ganga erinda erlendra kröfuhafa og vogunar­sjóða, en íslenskra heimila og fyrirtækja. Þegar samið var um að kröfuhafar eignuðust tvo af þremur ­viðskipta­bönkunum, jók það tortryggnina í garð ríkisstjórnarinnar.

Um þetta er fjallað í vetrahefti Þjóðmála.

 Samfylkingin