Kröfur um að fólk sjái um sig sjálft

Þröstur er hugsi yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, ekki síst þegar kemur að stefnu í málefnum innflytjenda.

Í sáttmálanum segir að vandað verði „til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum“. Í sáttmálanum segir síðan

„Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð.“

Hér getur hver skilið stefnuna með sínum hætti. Og það er hættan. Íslendingar þurfa á tveimur hönskum á að halda. Járnhanskann og silkihanska til að taka á móti raunverulegum flóttamönnum sem þurfa skjól. Björn Bjarnason hefur dýpri þekkingu á þessum málum en flestir aðrir og 22. nóvember á liðnu ári skrifaði hann í dagbók:

„Anna Kinberg Batra, formaður Moderatarna, mið-hægriflokksins í Svíþjóð, segir í grein í Aftonbladet að ekki dugi að bæta aðferðir við að laga farand- og flóttafólk að sænsku þjóðlífi, það sé nauðsynlegt að herða eftirlit á landamærunum, takmarka dvalarheimildir og auka kröfur um að fólk sjái fyrir sér sjálft.

Batra var kjörin flokksformaður í janúar 2015 en flokkurinn fór illa út úr kosningunum árið 2014. Er það að hluta rakið til stefnu hans í útlendingamálum. Batra segir að stefnubreyting hennar sé ekki taktík til að ná í atkvæði frá Svíþjóðardemókrötunum heldur sé hún reist á þeirri sannfæringu hennar um nauðsyn strangari reglna vegna útlendinga.

Ríkisstjórn sænskra jafnaðarmanna viðurkenndi fyrir nokkru að ekki væri unnt að taka á móti öllum hælisleitendunum sem koma til Svíþjóðar og greip til gagnráðstafana.

Allt gerist þetta á sama tíma og engu er líkara en ekkert sé unnt að gera hér á landi til að stöðva streymi fólks til landsins sem kemur á ólögmætan hátt og krefst hælisvistar þegar á það er bent.

Að sjálfsögðu er unnt að grípa til hertra aðgerða hér á landi. Staðan er þannig núna að 957 einstaklingar hafa sótt um hæli á þessu ári. Af þeim eru um 62% frá Albaníu og Makedóníu. Það þýðir að ef 1200 milljónir kr. fara í þessa þjónustu á árinu, munu um 750 milljónir fara í að þjónusta fólk með tilhæfulausar umsóknir.

Hvatinn er fyrst og fremst: 1. Frítt húsnæði og uppihald 2. Svört atvinna 3. Heilbrigðisþjónusta. Það er með öðrum orðum talið fjárhagslega ábatasamt að koma hingað.

Athygli fjölmiðla beinist ekki að undirrót þessara skipulögðu ferða hingað heldur mætti helst ætla af fréttum að um eitthvert náttúrulögmál sé að ræða. Óskiljanlegt er hvers vegna ekki er gripið til jafnskipulagðra gagnaðgerða af hálfu stjórnvalda og þeir beita sem sjá um ferðir fólksins hingað. Þar má til dæmis nefna fjölgun lögreglumanna í flugstöð Leifs Eiríkssonar og starfsstöð fyrir lögfræðinga Útlendingastofnunar þar til að strax séu teknar ákvarðanir í máli fólks sem hefur enga heimild til að fara inn í landið heldur vill nýta þá þrjá liði sem að ofan eru nefndir.

Vilji menn ekki sjá þessi mál fara enn meira úr böndunum hér þarf sameiginlegt átak stofnana innanlands og erlendis. Hvers vegna hleypa Danir eða aðrir þessu fólki inn á Schengen-svæðið? Hafa sendiráð Íslands leitað skýringa á því?

Þegar Svíar hertu reglur sínar vegna útlendinga áttu þeir samstarf við Dani. Hvers vegna hafa Íslendingar ekki stofnað til slíks samstarfs vegna flugferða til Íslands?“