Mýtur, konur, jafnrétti og Sjálfstæðisflokkurinn

Það lá mikið á – svo mikið að framkvæmda­stjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna [LS] taldi sér ekki fært að bíða eftir lokatölum úr prófkjörum Sjálfstæðismanna í Suðvestur­kjördæmi. Laugardagskvöldið 10. september síðastliðinn ákvað framkvæmdastjórn LS að birta sérstaka yfirlýsingu á fésbókarsíðu sinni þar sem niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi var hörmuð.

Síðar varð niðurstaða prófkjörs í Suðurkjördæmi einnig til að vekja upp óánægju en þar voru karlar í þremur efstu sætunum en síðan tvær konur.

„Ég er eiginlega bara í sjokki yfir þessu,“ sagði Helga Dögg Björgvinsdóttir þáverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna í viðtali við Visi.is kl. 22.57 að kvöldi prófkjörsdags. Í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 á mánudag taldi Helga Dögg mögulegt að nýtt kvennaframboð á hægri væng stjórnmálanna kæmi fram.

Í yfirlýsingu LS var forysta Sjálfstæðisflokksins hvött til þess að beita sér fyrir að niðurstöðum prófkjara yrði breytt. En þolinmæðin var af skornum skammti. Áður en kjördæmaráð komu saman til að ganga frá framboðslistum sagði Helga Dögg sig úr Sjálfstæðisflokknum ásamt tveimur fyrrverandi formönnum LS; Þóreyju Vilhjálmsdóttur og Jarþrúði Ásmundsdóttur. Þórey var áður aðstoðarkona Hönnu Birnu Kristjánsdóttir í innanríkisráðuneytinu. „Nú teljum við fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra þriggja sem eru sannfærðar um að „enn einu sinni“ hafi komið „í ljós að prófkjör skila ekki endilega góðum niðurstöðum þó að þau séu kannski lýðræðisleg fyrir þann þrönga hóp sem tekur þátt í þeim“.

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar LS, seint á laugardagskvöldi og yfirlýsing Helgu Daggar, Þóreyjar og Jarþrúðar, er merkileg í ljósi sögunnar. Það vekur einnig athygli að Landssamband sjálfstæðikvenna skuli ekki hafa séð ástæðu til kalla framkvæmdastjórn saman til að fagna góðum árangri kvenna í prófkjörum sem fóru fram viku áður en sjálfstæðismenn gengu að kjörborði í Suður- og Suðvesturkjördæmum.

Fjórar konur voru í átta efstu sætunum í prófkjöri í Reykjavík og Ólöf Nordal var efst. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, varð í fjórða sæti á eftir sitjandi þingmönnum. Hún er aðeins 26 ára gömul. Sigríður Á. Andersen varð í fimmta sæti og Hildur Sverrisdóttir í því sjöunda. Hildur kom ný inn líkt og Albert Guðmundsson sem náði áttunda sætinu, en hann er ári yngri en Áslaug Arna.

Niðurstaða prófkjörsins í Reykjavík var því ekki aðeins góð fyrir konur heldur ekki síður fyrir ungt fólk sem hlaut brautargengi. LS taldi ekki tilefni til að fagna.

Viðbrögð fyrrverandi forystukvenna í Landssambandi sjálfstæðiskvenna við niðurstöðu prófkjörs í Suðvesturkjördæmi og síðar Suðurkjördæmi, gerir lítið úr árangri kynsystra þeirra á undanförnum áratugum. Tilgangurinn virðist hafa verið sá að valda Sjálfstæðisflokknum eins miklum skaða í aðdraganda kosninga og hægt var. Tilgangurinn náðist ekki. Sjálfstæðisflokkurinn var sigurvegari kosninganna og bætti við sig fylgi.

Um þetta er fjallað í vetrarhefti Þjóðmála.