Framtíðin og tækifærin

Að horfa björtum augum til framtíðar, tala vel um Ísland og Íslendinga, vera jákvæður og benda á það sem vel gengur. Allt þetta virðist vera bannað í íslenskri pólitík í dag og þeir sem voga sér að tala með þessum hætti fá að öllum líkindum yfir sig holskeflu neikvæðra athugasemda, ýmist frá öðrum stjórnmálamönnum, svokölluðum álitsgjöfum svo ekki sé minnst á hin alræmdu kommentakerfi vefmiðlanna (sem margir stjórnmálamenn óttast, svo einkennilegt sem það er).

Tölurnar tala þó sínu máli. Hagvöxtur síðasta árs var rétt rúmlega 7% og það er samdóma álit þeirra hagfræðinga sem hægt er að taka mark á að sá hagvöxtur er heilbrigður og stendur undir aukinni hagsæld hér landi. Atvinnuleysi hefur ekki mælst lægra frá því í byrjun árs 2008 og er nú í kringum 3%. Það þýðir á máli hagfræðinnar að það er lítið sem ekkert atvinnuleysi í landinu og eftir tilvikum er í raun skortur á vinnuafli.

Þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 260 milljarða árið 2016, tekjuafkoma ríkissjóðs er jákvæð og hefur verið sl. þrjú ár, verðbólga hefur verið innan við 2% frá árinu 2014, jöfnuður mælist nær hvergi meiri í OECD ríkjum en á Íslandi, eymdarvísitalan hefur aldrei verið lægri, ráðstöfunartekjur og kaupmáttur heimila hefur stóraukist á síðustu árum (ráðstöfunartekjur heimila jukustu um tæp 8% á síðasta ári og tæp 11% árið á undan), fátækt mælist minnst hér á landi í öllum OECD ríkjunum, hér búa flestir í eigin húsnæði, jafnrétti kynjanna er hvergi meira í heiminum (skv. mælingu World Economic Forum), atvinnuþátttaka kvenna var í kringum 80% árið 2016 og hefur aldrei verið hærri og atvinnustigið er hvergi hærra innan OECD ríkja en hér (rúmlega 80%). Við erum hæst á lista OECD ríkja yfir nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum næst hæst ríkja þegar kemur að umhverfisgæðum.

Yfirlæti og hroki

Þessi talning er ekki tæmandi um það hversu gott við höfum það hér á landi. En þetta eru tölur og staðreyndir sem ekki verður deilt um (nema með einkennilegum röksemdum sem vart er hægt að taka mark á). Í aðdraganda síðustu kosninga, sem fram fóru í lok október sl. áttu flestir flokkar það sameiginlegt (fyrir utan þáv. stjórnarflokka) að þeir töldu stöðu mála hér á landi svo skelfilega og boðuðu að hér þyrfti að gera umtalsverðar breytingar, á hagkerfinu, stjórn ríkisfjármála, stjórnarskránni o.s.frv. Sem betur fer urðu þau sjónarmið ekki ofan á þegar talið var upp úr kjörkössunum.

Á þessu ári verða liðin níu ár frá því að viðskiptabankarnir þrír hrundu. Þrátt fyrir þann tíma sem liðinn er eru til stjórnmálamenn og flokkar, álitsgjafar, aðilar úr akademíunni og einstaka fjölmiðlamenn sem enn vilja minna okkur daglega á það að hér varð hrun. Allir hinir eru fyrir löngu farnir að horfa til framtíðar.

En það einkennir samt umræðuna er að sem fyrr segir virðist lítið mega benda á það jákvæða sem einkennir okkur, hvort sem litið er á stjórnmálin, hagkerfið eða samfélagið í heild. Þeim sem vilja benda á sérstöðu Íslands er oft svarað af yfirlæti og hroka um það hvernig allt sé hér í raun ömurlegt. Fastir pennar og álitsgjafar eiga greiðan aðgang að vinum sínum í fjölmiðlum og eru fljótir á vettvang þegar einhver missir út úr sér jákvæð viðhorf um framtíðarmöguleika okkar, um velgengni og aukna hagsæld. Þess utan eru hér starfandi stjórnmálaflokkar sem hafa hagsmuni af því að þjóðinni gangi illa og að hér sé ákveðin eymd. Stöðugleiki, hagsæld og vöxtur er versti óvinur þessara stjórnmálaflokka.

Höldum áfram

En sem fyrr segir tala staðreyndirnar sínu máli, m.a. hagtölur. Hér verður farið yfir nokkra þætti sem geta aukið hagsæld okkar enn frekar, fjölgað atvinnutækifærum og stuðlað að frekari vexti samfélagsins á svo marga vegu.

Rétt er að geta þess að höfundur skrifaði sambærilegan greinaflokk í Viðskipablaðinu á vormánuðum 2012, þegar hann starfaði þá sem blaðamaður. Það er rétt og sanngjarnt að upplýsa lesendur um að margt af því sem hér fer er nýtt úr þeim greinarflokk – en það breytir því ekki að nú, tæpum fimm árum síðar, á það enn við þegar kemur að því að velta fyrir sér þeim möguleikum sem við höfum til að gera betur, gera meira og halda áfram að byggja upp það góða samfélag sem við búum í.

Það er engin ástæða til að staldra við tæplega níu ára gamalt hrun bankastofnanna þegar við okkur blasa óteljandi tækifæri. Við þurfum að horfa jákvæðum augum til framtíðar (það er full ástæða til) og nýta þau tækifæri sem við okkur blasa. Þannig byggjum við landið, þannig byggjum við samfélagið og þannig byggjum við framtíðina fyrir okkur og börnin okkar.

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er í dag orðin stærsta útflutningsvara landsins og fyrir löngu ein af undistöðuatvinnugreinum Íslendinga. Í raun má segja að Ísland sem land hins fjölbreytta landslags, íslensk saga og menning og íslenska veðrið sé ein stór auðlind – nú þegar menn hafa búið til úr henni auð. Ferðaþjónustan gengur ekki aðeins út á það að selja landið heldur ekki síður söguna, menninguna og upplifunina sem felst því að ferðast um landið. Norðurljósin, svo fjölbreytt veðrátta, árnar, jöklarnir, eldfjöllin og auðlendið er eitthvað sem fæstir fá að upplifa á ævinni.

Jafnvel þó svo að fjölgun ferðamanna verði ekki áfram jafn hröð og hún hefur verið undanfarin ár bendir ekkert til þess að ferðamönnum fækki á næstu árum. Það er nóg í boði fyrir ferðamenn, bæði til afþreyingar og upplifunar. Ferðaþjónustan fæðir líka af sér mikla fjölbreytni í nýsköpun víðs vegar um land og við erum stolt af því að deila menningu okkar og sögu með öðrum.

Að sumu leyti er ferðaþjónustan ekki alltaf áþreifanleg í hagkerfinu og erfitt að mæla áhrif hennar með fullkomnum hætti. Það er þó hægt að mæla stærstan hluta ferðaþjónustunnar í hagtölum. Við vitum hversu margir fljúga með flugfélögunum, hversu margir bílar eru leigðir og hversu mörg hótelherbergi eru seld. Í öllum þessum tilvikum er gerður greinarmunur á Íslendingum (sem nota auðvitað alla framangreinda þjónustu) og útlendingum. En þegar einstaklingur kemur inn á veitingastað og kaupir sér máltíð gerir enginn nema þjónninn greinarmun á því hvort þar sé á ferðinni Íslendingur eða útlendingur (ekki nema fylgst sé með kortafærslum). Hið sama á við þegar viðkomandi kaupir sér föt, tæki eða einhvers konar vöru, þjónustu eða afþreyingu sem ekki tengist ferðaþjónustu með beinum hætti. Að sama skapi samtvinnast ferðaþjónustan öðrum greinum, t.d. landbúnaði og eftir tilvikum fiskvinnslu, og oft eru óljós skil þar á milli. Í því felast líka tækifæri.

Einn stærsti kostur ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar er að hún er ekki jafn árstíðarbundin og hún var áður. Fjöldi fólks starfar nú við ferðaþjónustu allan ársins hring og ferðamannastraumurinn yfir veturmánuði fer sívaxandi. Alltaf má deila um það hvort að virði ferðamanna sé með þeim hætti sem það ætti að vera, þ.e. hvort að ferðamaðurinn skilji eftir nægilegt fjármagn í landinu við brottför en það breytir því ekki að vöxturinn á þjónustu og innviðum mun halda áfram á næstu árum.

Þessu til viðbótar er Ísland að mörgu leyti heppilegur staður fyrir ráðstefnur og hvataferðir fyrirtækja. Hér er öll aðstaða sem til þarf, hótel, ráðstefnusalir, veitingastaðir og afþreying margskonar.

Landbúnaður

Íslenskur landbúnaður er því miður oftar en ekki litinn hornauga, þá sérstaklega í stjórnmálaumræðu og af álitsgjöfum sem sjaldnast fara út fyrir miðbæ Reykjavíkur. Við íslenskum landbúnaði blasa þó fjölmörg tækifæri. Rétt er að hafa í huga að markaður hins íslenska landbúnaðar takmarkast ekki við þá 330 þúsund einstaklinga sem hér búa. Nú sækja yfir tvær milljónir ferðamanna landið heim, sem allir þurf að borða, auk þess sem fyrir liggja tækifæri til útflutnings á hreinum matvælum.

Ísland er þekkt fyrir hreinleika og þau eru mörg sviðin sem við getum gert út á í nafni hreinleikans, þ.á.m. í landbúnaði. Þörfin fyrir stóraukna matvælaframleiðslu hefur stóraukist í hinum vestræna heimi á undanförnum árum. Á sama tíma er gerð aukin krafa um hreinræktaðar landbúnaðarvörur og aukna velferð dýra. Hér eru óteljandi tækifæri fyrir útsjónasama bændur, hvort sem er í hefðbundnum landbúnaði eða garðyrkju. Fínustu veitingahús landsins gera í dag út á vörur sem koma beint frá bónda og eiga í miklu samstarfi við bændur sem státa sig af hreinleika og velferð dýra sinna. Þetta heillar ferðamenn sem glaðir greiða fyrir vöruna. Lífrænt ræktaðar vörur eru það sem gildir í dag og það er ekki að fara að breytast í bráð.

Samnýting orku og landbúnaðar býr einnig til ný tækifæri. Friðheimar í Reykholtssveit eru eitt besta dæmið um slíka samnýtingu, þar sem framleiddir eru íslenskir tómatar allan ársins hring með umhverfisvænni orku auk þess sem staðurinn er orðinn vinsæll ferðamannastaður.

Kvikmyndaframleiðsla

Enn og aftur er landið okkar, náttúran og auðnin, söluvara. Náttúrufegurðin og fjölbreytt landslagið gerir Ísland í raun að einu stóru kvikmyndaveri ef þannig má að orði komast. Á þessum áratug hefur þeim fjölgað allverulega kvikmyndunum og sjónvarpsþáttunum sem teknir eru upp hér á landi. Fæstir gera sér grein fyrir því hversu mikið umstang, með tilheyrandi kostnaði og veltu, felst í því að taka upp kvikmynd eða þætti (þó ekki sé nema einstök atriði) hér á landi.

Þegar erlendir aðilar koma hingað til lands notast þeir að langmestu leyti við íslensk tökulið enda hefur skapast mikil reynsla í þessum geira á síðustu árum. Tökuliðin eru auðvitað misstór, en hér er um að ræða starfsmenn í myndatökur, hljóðvinnslu, förðun og búningaumsjón, smíði sviðsmynda o.s.frv. Þá eru jaðarárhrifin af þessari starfsemi gífurleg og mikil þörf fyrir aukna þjónustu, svo sem akstur og öryggisgæslu, áhaldakaup, matseld og framreiðslu, hótelgistingar og þannig mætti áfram telja. Erlent sjónvarpsefni sem tekið er hér á landi, hvort sem er kvikmynd eða þættir, færir þjóðarbúinu í flestum tilvikum miklar tekjur og auglýsir um leið landið okkar.

Alþjóðasamskipti

Á hverjum degi eigum við samskipti við erlenda aðila með margvíslegum hætti. Við erum vel menntuð, tölum mörg tungumál og kunnum að eiga í samskiptum við hinn stóra heim. Hér eru starfræktir nokkrir háskólar og fræðasetur sem öll eiga í daglegum samskiptum við erlenda aðila. Íslendingar eiga og reka fjölmörg fyrirtæki, stór og smá, sem starfa á alþjóðagrundvelli. Hér eru rekin stór skipafélög, álver, fjarskipta- og hugbúnaðarfyrirtæki sem telja á tugum, flugfélög, verkfræðistofur, rannsóknarfyrirtæki, framleiðslufyrirtæki og svo mætti lengi áfram telja. Ástæðan fyrir framangreindri upptalningu er einföld; við höfum hér alla burði til að stofna og starfrækja stór, alþjóðleg fyrirtæki, eða starfa fyrir erlend fyrirtæki sem kjósa að hafa starfsemi hér á landi.

Norðurslóðir

Það má vissulega deila um það, á vettvangi vísinda, hvort það sé neikvætt eða jákvætt að ísþekjan á Norðurskautinu skuli vera að hopa. Staðreyndin er engu að síður sú að hún hefur minnkað og við horfum fram á breyttar aðstæður á svæðinu, m.a. nýjar siglingaleiðir, breytta nýtingu náttúruauðlinda o.s.frv. Breyttar aðstæður á Norðurskautinu fela því í sér tækifæri fyrir Ísland en að sama skapi áskoranir, t.d. auknar siglingar um íslenska landhegi með tilheyrandi hættu á umhverfisslysum eða öðrum óhöppum svo dæmi sé tekið. Í því samhengi hefur oft verið rætt um alþjóðlega björgunarmiðstöð hér á landi sem gæti orðið að veruleika einn daginn.

Einn af þeim möguleikum sem nefndir hafa verið varðandi Ísland er að landið geti orðið nokkurs konar umskipunarhöfn. Með auknum siglingum um norðurskautið eru möguleikar á því að stór skipaflutningafyrirtæki sjái sér hag í því að sigla til Íslands og dreifa héðan vörum til vesturstrandar Bandaríkjanna annars vegar og Evrópu hins vegar. Rotterdam í Hollandi er í dag ein stærsta umskipunarborg Evrópu en það kann að verða mun styttra og fljótlegra að sigla til Íslands komandi úr norðri og sigla héðan með vörur til Bandaríkjanna. Það fer lítið fyrir þessu í umræðunni en þarna felast augljóslega mikil tækifæri. Við höfum aðstöðuna nánast hvar sem er á landinu, við höfum tæknina og þekkinguna til að byggja hafnir og við höfum þekkinguna á því að stýra skipaumferð. Veður er afstætt í þessum geira og skiptir í raun ekki miklu máli fyrir skip sem sigla hvort eð er um norðurslóðir. Hinir skjólsömu, djúpu og kyrru firðir sem hér eru í tugavís eru álitlegir kostir fyrir umskipunarhafnir.

Aukin umsvif á Norðurslóðum, og þá ekki síst á N-Atlantshafi, munu krefjast aukins samstarfs Íslands þeirra þjóða sem eiga aðild að svæðinu, t.d. Noregs, Danmerkur og Kanada. Nú þegar er mikið samstarf á milli þessara þjóða, ekki síst um öryggis- og eftirlitsmál. Það er þó ekkert launungarmál að Evrópusambandið (ESB) er mjög áhugasamt um þróun mála á Norðurskautinu. Aðeins eitt ríki, Danmörk, á í raun landfræðilega aðild að svæðinu í gegnum Grænland. Vitað er að Kanadamenn og Rússar vilja sem minnst með ESB hafa á svæðinu, þannig að vera Íslands utan ESB getur falið í sér bæði áskoranir og tækifæri – eins og allt annað sem snýr að þessu stóra og áhugaverða svæði.

Grænland

Þó það fari ekki mikið fyrir því í daglegri umræðu þá felur aukinn vöxtur á Grænlandi í sér fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt hagkerfi. Í dag búa um 57 þúsund manns á Grænlandi (um 1/6 af íbúafjölda Íslands) sem allir hafa sömu þarfir og Íslendingar, s.s. samgöngur, menntun, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Nú er rétt að hafa í huga að grænlenskt samfélag er mjög þróað og margt af þessu er nú þegar til staðar. En á síðustu árum hefur hið grænlenska hagerfi verið að vaxa og það er ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram með tilheyrandi þörf fyrir aukna þjónustu.

Ísland er í raun besta tengingin við Grænland þegar kemur að samgöngum. Á meðan flogið er til Danmerkur frá einum áfangastað í Grænlandi (Kangerlussuaq) er Flugfélag Íslands með sex áfangastaði í Grænlandi. Farþegi sem er að koma frá meginlandi Evrópu er mun fljótari að fljúga til Íslands og síðan áfram til Grænlands, jafnvel þó hann þurfi að keyra frá Keflavík til Reykjavíkur.

Fyrir utan hefðbundna heilsugæslu og minni aðgerðir fer nær öll heilbrigðisstarfsemi fram í Danmörku. Árlega fara á bilinu 15-20 þúsund manns frá Grænlandi til Danmerkur til að sækja flóknari heilbrigðisþjónustu. Á síðustu árum hefur þó orðið aukning í því að Grænlendingar sæki aukna heilbrigðisþjónustu til Íslands, m.a. vegna augnaðgerða. Rétt er að hafa í huga að stærstur hluti heilbrigðisþjónustunnar er greiddur af danska ríkinu, þ.e. allar stærri aðgerðir og meðferðir. Það verður því ekki auðvelt að „stela“ því af frændum okkar í Danmörku en hér geta Íslendingar þó horft til þess að auka þjónustu við Grænlendinga vegna minni aðgerða og eftir tilvikum bráðaatvika. Þá hefur kostnaðarþátttaka grænlensku heimastjórnarinnar vegna heilbrigðisþjónustu færst í aukana á síðustu árum og það er undir þeim komið hvort peningunum verður varið á Íslandi eða í Danmörku.

Þessu til viðbótar hafa íslensk verktakafyrirtæki verið umsvifamikil á Grænlandi á síðustu árum og ef fer sem horfir munu þau umsvif halda áfram, bæði við uppbyggingu innviða, námugröft og vinnslu, gerð virkjana o.s.frv.

Sjávarútvegur

Íslendingar eru í hópi stærstu fiskveiðiþjóða heims. Fiskveiðilögsaga okkar er um 760 þúsund ferkílómetrar að stærð og inniheldur marga af stærstu fiskistofnum N-Atlantshafsins. Fiskveiðar eru sú grein sem Íslendingar þekkja einna best. Allt frá því að byggð hófst höfum við að miklu leyti lifað af því að veiða fiskinn í sjónum í kringum okkur.

Hvað sem einstaka lesanda kann að finnast um kvótakerfið þá er þetta engu að síður kerfi sem virkar og er talið eitt besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Ísland er eitt fárra ríkja þar sem sjávarútvegur er sjálfbær og arðsöm atvinnugrein. Með íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur einnig tekist að koma í veg fyrir ofveiði og um leið auka hagkvæmni í greininni, sem skilar sér að mestu leyti til samfélagsins.

Eins og gefur að skilja krefst sjávarútvegurinn gífurlegrar þjónustu. Útgerðarfyrirtækin eru meðal stærstu kaupenda að eldsneyti hér á landi, hægt er að ímynda sér magnið af mat og öðrum nauðsynjavörum um borð í stærri skipum auk kaupa á öryggisbúnaði og öðrum vörum sem nauðsynlegar eru til þess að gera út skip eða báta. Eitthvað kostar að tryggja skip, tæki og mannskap, viðhalda endurmenntun, kosta öryggisnámskeið og þar fram eftir götunum. Þá má nefna framleiðslu á fiskikörum, veiðarfærum og öðrum þjónustuaðilum s.s. vélaverkstæðum, flutningafyrirtækjum á lofti, sjó og landi, löndunarfyrirtækjum, hafnarþjónustu, viðhald eigna o.s.frv. Loks má nefna nýsköpunarmöguleika sem snúa að betri orkunýtingu íslenska fiskiskipaflotans. Lesendur gera gert sér í hugarlund hversu umfangsmikil starfsemi fylgir sjávarútvegi hér á landi.

Besta dæmið um nýsköpun og tækniþróun tengd sjávarútvegi er framleiðslufyrirtækið Marel. Marel hefur um árabil framleitt flökunarvélar og önnur fiskvinnslutæki en fyrirtækið var upphaflega nýsköpunarfyrirtæki í vinnslu sjávarafurða. Íslendingar eru vel að sér í vélaverkfræði, fiskvinnslutækni og veiðafæratækni – en þetta eru þeir þrír geirar sem hvað mest eru áberandi sem tæknifyrirtæki tengd sjávarútvegi. Rúmlega 100 fyrirtæki eru starfandi á Íslandi sem framleiða og flytja út undir eigin vörumerkjum búnað fyrir greinar sem tengjast sjávarútvegi. Tæknifyrirtækin framleiða veiðarfæri, sinna hönnun og framleiðslu fiskvinnsluvéla, fjarskiptabúnaðar, skynjaratækni, umbúða, upplýsingatækni, kælingu o.s.frv.

Rétt er að taka fram að ekkert bendir til þess að störfum í veiði eða vinnslu fjölgi á næstu árum. Aftur á móti eru fjölmargir möguleikar á fjölgun starfa og verðmætasköpun í hliðargreinum tengdum sjávarútvegi. Þannig má sem dæmi nefna að á undanförnum árum hefur verið umtalsverð gróska í líftækni tengdri sjávarútvegi. Hér á landi starfar á annan tug fyrirtækja sem ýmist eru með vörur á rannsóknarstigi eða þegar farin að framleiða og selja vörur sem rekja má til sjávarútvegsins og rannsóknar á sjávarlíftækni. Allir þekkja hið bragðgóða og miklivæga lýsi en því til viðbótar má nefna nýtingu fiskiroða við gerð plástra, tískufatnaðar og lyfja. Þessu til viðbótar má nefna að jafnvel þó ekki séu starfræktar skipasmíðastöðvar hér á landi eru Íslendingar að smíða og selja minni báta til bæði innlendra og erlendra aðila, t.d. Trefjar í Hafnarfirði og Seigla á Akureyri.

Þá verður ekki fjallað um sjávarútveginn öðruvísi en að minnast á það mikla og góða starfs sem unnið hefur verið á vettvangi Sjávarklasans, þar sem á hverjum degi er unnið að frekari nýsköpun og betri nýtingu á sjávarafurðum með margvíslegum hætti og góðum árangri.

Orka

Ólíkt flestum þjóðum höfum við aðgang í endurnýjanlegar og sjálfbærar auðlindir við orkunýtingu. Við framleiðum í dag um 85 TWst/ á ári og fyrir okkur liggja tækifæri til að auka framleiðsluna enn frekar með aðeins minni háttar áhrifum á náttúru landsins (sem er sem fyrr segir verðmæt söluvara). Hvað sem því líður mun aukin framleiðslugeta leiða til aukinnar hagsældar hér á landi.

Í skýrslu GAMMA um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035, sem unnin var að beiðni Landsvirkjunar og birt sumarið 2011, kemur fram að fari svo að framleiðslugeta Landsvirkjunar verði tvöfölduð frá því sem nú er til ársins 2025 kunni það að skapa allt að 12 þúsund störf hér á landi. Þá gefa skýrsluhöfundar sér að arðsemisgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins geti numið á bilinu 30-112 milljörðum króna á hverju ári, háð þróun rafmagnsverðs og hvort farið er í lagningu sæstrengs. Nú bendir að vísu ekkert til þess að Landsvirkjun nái að tvöfalda framleiðslugeta sína árið 2025 miðað við það sem hún var árið 2011 (þegar skýrslan kom út), en spurningunni um mögulega sæstreng og því með hvaða hætti áfram verður virkjað er enn ósvarað. Tækifærin eru til staðar og það er undir stjórnmálamönnum komið hvort þau verða nýtt eða ekki. Í fyrrnefndri skýrslu GAMMA er fjallað um það sem kalla má stofnun nokkurs konar orkusjóð Íslands, sem bera mætti saman við norska olíusjóðinn. Ólíkt norska olíusjóðnum, sem virkjar í dag auðlind sem einhvern tíma mun þurrkast upp, getur Landsvirkjun virkjað endurnýjanlegar auðlindir til frambúðar.

Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp hér er sú að stjórnvöld hafa lítið sem ekkert gert í þessum málum, en tækifærið er ekki runnið okkur úr höndum. Hvað varðar orkunýtingu og orkusölu eru stóru spurningarnar alltaf þær sömu, hvar má virkja og hverjum á að selja? Það er ekki ofsögum sagt að um þetta hefur aldrei verið sátt og verður líklega aldrei. Orkunýtingin er þó eitthvað sem Íslendingar mega vera stoltir af. Við höfum lært að lifa í sátt við náttúruna og nýta hana til að auka velmegun og hagsæld í landinu. Fyrir utan stóriðju á borð við Álver (sem hefur mikil og jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi) getum við horft til Auðlindagarðsins á Reykjanesi, byggingu gagnavera, mögulega lagningu sæstrengs og samtengingu orkunýtingar og ferðaþjónustu.

Krónan er úlfur í sauðagæru

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í okkar helstu atvinnugreinum og þeim tækifærum sem við okkur blasa. Enn er ónefnt þjónusta, hugvit og tækifæri á sviðum hinna ýmsu þekkingargeira.

Það blasir hins vegar við að við þurfum ekki að „endurræsa“ Ísland, við þurfum ekki nýja stjórnarskrá og við þurfum ekki að eyðileggja þann grunn sem samfélagið okkar er reistur á. Við þurfum hins vegar að vera jákvæð, við þurfum að nýta tækifærin sem við okkur blasa og hafa trú á framtíðinni.

Fyrir utan neikvæðnina og hættuna á því að stjórnskipan landsins verði einn daginn kollvarpað blasir aðeins við okkur ein alvöru ógn – íslenska krónan.

Helstu rök þeirra sem telja að íslenska krónan eigi að vera gjaldmiðill okkar áfram eru oftast þau að með réttri hagstjórn sé hún til þess fallin að nýtast okkur frekar en ekki. Síðan þegar á reyni getum við tekið högginn í gegnum gengissveiflur í stað þess að horfa upp á aukið atvinnuleysi og eiga engan kost á því að mæta hagsveiflum með öðrum hætti. Höfundur setur hér fram einföldu útgáfuna og það er rétt að halda því til að haga að þessum sjónarmiðum fylgja oft málefnaleg rök. Þeir sem hafa í gegnum árin talað með þessum hætti hafa horft sigri hrósandi á hagtölur síðustu ára. Hér hefur efnahagsstjórnin vissulega verið góð, þó svo að ríkisútgjöld hafi aukist úr hófi við gerð fjárlaga þessa árs, og það er rétt að krónan hefur að sumu leyti hjálpað til á árunum eftir hrun.

En það breytir ekki þeirri staðreynd að hún heldur áfram að sveiflast. Jafnvel þó að henni væri haldið í fangelsi gjaldeyrishafta þangað til nýlega hélt hún áfram að sveiflast með óásættanlegum hætti. Og burtséð frá því hvort að hér séu gjaldeyrishöft eða ekki, þá er það ekki spurningin um hvort heldur hvenær krónan annað hvort hrynur eða tekur svo djúpa dýfu að hún skilji eftir sig blæðandi sár á hagkerfinu, með tilheyrandi hækkun verðtryggðra lána, minnkandi kaupmætti, erfiðleikum í alþjóðaviðskiptum o.s.frv.

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á mikilvægi þess að „draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar“. Það er þó aftur á móti alveg sama hversu vel núverandi ríkisstjórn stendur sig við stjórn efnahagsmála, það er afar hæpið að henni takist að stöðva eða koma í veg fyrir dramatískar sveiflur myntarinnar sem er búin að vera eins og skopparabolti í heila öld.

Þórlindur Kjartansson, hagfræðingur og pistlahöfundur á Fréttablaðinu, komst vel að orði þegar hann fjallaði um krónuna í grein í blaðinu þann 24. mars sl.

„Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa auðvitað ekki haft það að markmiði að myntin okkar sé sveiflótt. Og íslenskir hagfræðingar eru örugglega ekki verri eða vitlausari en aðrir hagfræðingar. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þeir séu ívið betri og klárari—rétt eins og bílstjórar sem keyra í hálku verða flinkari en þeir sem alltaf keyra á þurru malbiki. En þótt það sé gott að kunna að keyra í hálku þá er miklu öruggara að vera laus við hana. Sama má segja um sveiflur krónunnar. Á meðan við þráumst við að reka sjálfstæða mynt í alþjóðlegu umhverfi þá erum við á hálum ís. Vandinn er ekki að það þurfi að stjórna myntinni betur, vandinn er að hugmyndin sjálf er óraunhæf – rétt eins og vandi þess sem ætlar að róa á árabót í Smuguna er ekki að hann rói ekki nægilega hraustlega. Hann þarf einfaldlega stærri bát,“ sagði Þórlindur í grein sinni og það má taka undir hvert orð.

Krónan er í raun úlfur í sauðagæru. Hún er stundum mjúk og gagnast okkur stundum, en étur okkur alltaf að lokum. Krónan er sem fyrr segir eina alvöru ógnin við hagkerfið og um leið lífið á Íslandi. Ef við ætlum að nýta þau tækifæri sem hér var fjallað um – og fleiri til – verðum við að skipta um mynt.

 

Höfundur er ritstjóri og útgefandi Þjóðmála.