Kosningavetur framundan

Ritstjórnarbréf í sumarhefti Þjóðmála 2017

Gengið verður til sveitastjórnarkosninga eftir tæpt ár. Fjárhagur flestra sveitafélaga hefur stórbatnað á síðustu árum og því verður athyglisvert að sjá hvernig kosningabaráttan, sem væntanlega er hafin að einhverju leyti, muni þróast á komandi vetri – svo ekki sé minnst á kosningarnar sjálfar.

Sveitastjórnarkosningar opinbera að sumu leyti raunverulega stöðu stóru stjórnmálaflokkanna hér á landi. Sumarið 2006 sagði Halldór Ásgrímsson af sér sem forsætisráðherra eftir að Framsóknarflokkurinn hafði goldið afhroð í sveitastjórnarkosningum fyrr um vorið. Þessu er þó misjafnlega farið á milli sveitafélaga þar sem einstaka persónur og staðbundin kosningamál skipta oft meira máli en almenn stefna einstakra stjórnmálaflokka á sviði landsmálanna.

Það ríkir þó spenna fyrir kosningunum á næsta ári innan stjórnmálaflokkanna. Innan Samfylkingarinnar eru bundnar vonir við að flokkurinn nái að endurheimta einhvern vott af reisn eftir að hafa allt að því þurrkast út í síðustu alþingiskosningum. Eðli málsins samkvæmt eru bundnar miklar vonir við Dag B. Eggertsson borgarstjóra en róðurinn mun þó reynast erfiðari á landsbyggðinni. Ein ástæða fyrir slæmu gengi Samfylkingarinnar út um land er að flokkurinn hefur ítrekað ekki boðið fram undir eigin nafni heldur í samstarfi við ýmis staðbundin bæjarframboð. Samfylkingin á því í raun fáa þungavigtar fulltrúa á sveitastjórnarstigi. Framsóknarflokkurinn vonast jafnframt eftir góðum árangri og þarf nauðsynlega á því að halda. Í millitíðinni gæti farið svo að skipt verði um formann í flokknum (að öllu óbreyttu í janúar). Hvort sem af því verður eða ekki þarf flokkurinn að leggja alla sína krafta í sveitastjórnarkosningar til viðbótar við það að sinna stjórnarandstöðuhlutverki sínu á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf jafnframt á góðu gengi að halda og Viðreisn vinnur nú hörðum höndum að því að setja saman framboð í stærstu sveitarfélögum landsins. Báðir flokkarnir leggja áherslu á að árangur í Reykjavík. Til þess þarf öflugan hóp frambjóðenda. Það getur hins vegar reynst þrautin þyngri því erfitt er að finna fólk til að fara í framboð. Það eru ekki margir áhugasamir um að bjóða sig fram til setu í borgarstjórn. Í stuttu máli má segja að pólitíkin í borginni sé bragðdauf og flatneskjuleg og það eru fáir tilbúnir að taka að sér setu í borgarstjórn í fullu starfi, fyrir laun sem þykja ekki eftirsóknarverð.

***

Sem fyrr segir hefur fjárhagsstaða sveitarfélaga farið batnandi á síðustu árum, sem er fagnaðarefni. Það býður hins vegar hættunni heim og það er líklegt að á komandi vetri reyni framboð allra flokka að toppa hvert annað með tilheyrandi útgjaldaaukningu, auknum álögum á útsvarsgreiðendur o.s.frv. Það er ástæða til að vera vel vakandi fyrir væntanlegu loforðaflóði.

Eitt slíkt mál er komið fram en vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur nú tilkynnt um lækkun leikskólagjalda. Það er snjallt útspil enda erfitt að vera á móti því að lækka leikskólagjöld. Staðreyndin er hins vegar sú að leikskólar í Reykjavík eru nú þegar fjársveltir. Þeir eru undirmannaðir, viðhaldi er ábótavant og þannig mætti áfram telja. Á núverandi kjörtímabili fór af stað umræða þess efnis að leikskólarnir ættu í erfiðleikum með matarinnkaup vegna fjárskorts. Það var leyst að hluta með því að hækka álögur á foreldra leikskólabarna og borgin sendi í framhaldi frá sér tilkynningu þar sem hún stærði sig af því að hafa aukið framlag sitt til leikskólanna. Það er ekki hægt að skálda svona vitleysu!

Gangi áætlanir vinstri flokkanna í Reykjavík eftir munu foreldrar leikskólabarna eiga von á því að fá hærri reikninga á næsta kjörtímabili, þ.e. þegar umræða um fjárhagsvandræði þeirra koma aftur upp á yfirborðið. Lækkun leikskólagjalda hljómar vel í aðdraganda kosninga og því er mikilvægt að fólk láti ekki blekkjast af slíku.

***

En að öðru. Í þessu tölublaði Þjóðmála er nú í fyrsta sinn birtur nafnlaus ritstjórnarpistill sem mun bera heitið Fjölnir, til heiðurs Fjölnismönnum. Þar verður á vandaðan hátt fjallað um samfélagsmál, stjórnmál og viðskipti. Fjölnir mun að þessu sinni fara m.a. yfir seðlamálið svokallaða, í kjölfar þess að Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hélt blaðamannafund um stríð stjórnvalda gegn skattsvikum.

Meðal vopna í því stríði var kynnt tillaga um að taka úr umferð 5.000 og 10.000 krónu seðla. Það var undarlegt að heyra fjármálaráðherra, sem er formaður stjórnmálaflokks sem kenndi sig sérstaklega við frjálslyndi, kynna slíkar hugmyndir. Þær bera með sér forsjárhyggju og á sama tíma algjöra vanvirðingu fyrir frelsi einstaklingsins. Það leið ekki nema rétt rúmur sólarhringur þangað til ráðherrann hafði dregið í land með fyrirætlanirnar allar saman. Það gerði hann ekki á grundvelli hugsjónar heldur þess að hann sá að hugmyndin var ekki til vinsælda fallin.

Það að fjármálaráðherra hafi verið tilbúinn til að bera á borð slíka hugmynd segir okkur að hvorki hann né aðstoðarmenn hans virðast hafa nokkurn skilning eða skynbragð á pólitík. Það mátti öllum vera ljóst að hugmyndin er galin. Hugmyndin var sannarlega komin frá embættismönnum en það var hins vegar ákvörðun ráðherrans og starfsliðs hans að blása hana upp á blaðamannafundi.

Sem fyrr segir dró ráðherrann í landi daginn eftir. Það er sjálfsagt að virða það þegar stjórnmálamenn skipta um skoðun og færa fyrir því málefnaleg rök, en því var ekki til að dreifa í þessu tilviki. Ástæðan fyrir því að ráðherrann dró í land var sú að samfélagsmiðlar loguðu. Það færir okkur að öðrum vinkli í þessu, sem er ótti stjórnmálamanna við eigin sannfæringu. Nú er óljóst hversu djúpa sannfæringu Benedikt hafði fyrir því að taka seðla úr umferð en þetta er engu að síður lýsandi dæmi um það hvernig stjórnmálamenn geta sveiflast á grundvelli taugaveiklunar. Það líður ekki sú vika að einhver stjórnmálamaður segi eða geri eitthvað sem veldur því að samfélagsmiðlar loga, þó oftast í stutta stund. Innan skamms eru stjórnmálamenn byrjaðir að afsaka sig, draga í land með skoðanir sínar og reyna að nálgast málin með öðrum hætti til að halda friðinn. Svo má alltaf hafa varann á þegar stjórnvöld kynna að þau ætli sér í „stríð“ við eitthvað. Það felur í sér frekari ríkisafskipti og þessi stríð oftast dæmd til að misheppnast.

Hvernig gengur annars „stríðið“ gegn fíkniefnum?

Gísli Freyr Valdórsson