Lilja Dögg: Komið verði á fót Stöðugleikasjóð

Eitt helsta verkefni stjórnmálamanna á Íslandi er að stuðla að stöðugleika. Stofnun Stöðugleikasjóðs á Íslandi yrði mikilvægt skref að því marki sem gæti markað vatnaskil í sögu þjóðarinnar.

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins, í grein í nýjasta riti Þjóðmála.

Lilja Dögg segir í grein sinni að markmið slíks sjóðs yrði skýrt; að draga úr hagsveiflum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika til langs tíma. Þjóðir með auðlindahagkerfi hafa sett upp svipaða sjóði í sama tilgangi og er norski olíusjóðurinn þekkt dæmi.

„Ísland er lítið opið h

agkerfi, þar sem útflutningur landsins nemur um 55% af landsframleiðslu. Gjaldeyristekjur Íslands koma frá ríkulegum náttúruauðlindum s

em landið er gæfuríkt að búa að. Þrjár af fjórum meginstoðum útflutnings byggja á náttúruauðlindum landsins, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkuiðnaður. Hugverkaiðnaður er sívaxandi útflutningsgrein sem byggir á íslensku hugviti og er það vel, enda mikilvægt að útflutningsstoðir landsins séu sem fjölbreyttastar,“ segir Lilja Dögg í grein sinni.

Þá segir Lilja Dögg að vegna smæðar hagkerfisins mun hagkerfið alltaf búa við hagsveiflur, sem gera almenningi og fyrirtækjum í landinu erfiðara fyrir að gera áætlanir um framtíðina. Hún segir jafnframt að erlend staða þjóðarbúsins hafi ekki verið eins sterkt síðan mælingar hófust og að grundvallarbreyting hafi orðið á útflutningstekjum Íslands með vexti ferðaþjónustunnar.

„Í gegnum tíðina hafa útflutningsgreinarnar skapað mikil verðmæti. Þessum verðmætum á að safna þegar vel árar í þjóðarbúinu og nýta til hagsbóta fyrir þjóðina alla þegar þörf krefur,“ segir Lilja Dögg. Hún rekur jafnframt hversu mikill kostnaður fylgir því að halda utan um stærð gjaldeyrisvaraforðans vegna þess hve mikill vaxtamunur sé á milli Íslands og helstu viðskiptaríkja.

„Gjaldeyrisforðinn er ávaxtaður í auðseljanlegum bréfum bæði til skamms tíma og lengri tíma sem bera tiltölulega lága vexti. Stöðugleikasjóðurinn gæti fjárfest á hagstæðari hátt en nú er gert á grundvelli langtíma sjónarmiða, til hagsbóta fyrir þjóðina,“ segir Lilja Dögg.

Hún segir að til lengri tíma litið væri hægt að fjármagna slíkan sjóð með framlögum frá útflutningsgreinunum, þ.e. auðlindarentu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum eða gjaldi fyrir afnot af auðlindinni. Auk þess væri hægt að fjármagna sjóðinn með beinu framlagi úr ríkissjóði þegar vel árar og þannig væri sjóðurinn nýttur til að jafna út ríkisfjármálin að hennar mati.

„Þau ríki sem hafa lagt í stofnun þjóðarsjóða hafa aukið sparnað og búið í haginn fyrir framtíðina og aukið hagsæld sinna ríkja. Þannig náum við enn meiri árangri og vinnum að bættri framtíð Íslands,“ segir Lilja Dögg í lok greinarinnar.