Hugmyndabarátta kynslóða

Andstæðingar kapítalismann tala oft um að kapítalisminn sé drifinn áfram af græðgi og eigingirni – og leiði jafnvel af sér enn meiri græðgi og eigingirni. Því fer þó fjarri lagi. Þvert á móti gengur kapítalismi að mörgu leyti út á það að taka tillit til annarra, mæta kröfum annarra og þjóna öðrum. Bakarinn sem opnar bakarí þarf að miða alla sína vinnu út frá þörfum og óskum viðskiptavina sinna. Hann hefur enga hagsmuni af því að vera eigingjarn, bjóða upp á lélega vöru, annað en sanngjarnt verð og góða þjónustu. Það sama mætti segja um alla aðra starfsemi.

Á síðustu árum hefur því ítrekað þó verið haldið að fólki – þá sérstaklega ungu fólki – að kapítalisminn sé einhvers konar birtingarmynd græðginnar. Fjármálakrísan sem reið yfir öll stærstu hagkerfi heims undir lok síðustu áratuga gaf þessari kenningu byr undir báða vængi. En reiðin og hatrið á kapítalismanum einskorðast ekki við fjármálageirann. Í augum margra eru allir sjálfstæðir atvinnurekendur eigingjarnir á einhvern hátt. Allir þeir sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin, svo valið sé orðatiltæki af handahófi, eru í augum vinstrimanna eigingjarnir og gráðugir.

***

Burtséð frá því hvað telst eigingjarnt og hvað ekki, þá liggur fyrir að ungt fólk efast stórlega um kapítalismann og þau tækifæri sem hann hefur upp á að bjóða – fyrir alla. Það er búið að telja því trú um að það eigi rétt á hinu og þessu, alveg óháð því hvað það þarf að leggja á sig. Ungt fólk lítur á það sem sjálfsagðan hlut að eiga rétt á ókeypis menntun og ríkisstyrktum lánum á meðan það menntar sig. Það á rétt á því að ríkið greiði því fæðingarorlof og krefst þess að upphæðirnar séu hærri. Svona mætti áfram telja. Þetta er ekki alslæmt að mati Fjölnis. Það eru forréttindi að búa í landi þar sem þessir hlutir eru í boði, t.a.m. á Íslandi. En það er ekki hægt að saka aðra um að vera eigingjarnir á sama tíma og maður krefst þess að einhver annar sjái fyrir helstu þörfum sínum.

***

Það eru fleiri vinklar á þessu. Það er að myndast gjá á milli kynslóða. Með einföldum hætti mætti segja að við séum annars vegar með ungu kynslóðina sem vill fá allt upp í hendurnar, ekki seinna en í gær, og hins vegar með foreldra þeirra, ömmur og afa sem hafa allt sitt líf unnið fyrir því sem þau eiga og vita að ekkert er ókeypis í lífinu. Þessi einföldun er vissulega ekki með öllu sanngjörn og gefur ekki endilega rétta mynd af raunveruleikanum – en hún er þó ekki með öllu fjarstæðukennd.

***

Þetta má skoða nánar og horfa til Bretlands. Eftir að meirihluti breskra kjósenda ákvað í fyrra að Bretland gengi úr Evrópusambandinu (ESB) fór af stað undarleg stjórnmálaskýring á niðurstöðum kosninganna (Brexit). Þeir sem aðhylltust áframhaldandi veru Breta í sambandinu horfðu til þess, og gerðu mikið úr, hvernig mismunandi kynslóðir greiddu atkvæði gagnvart Brexit. Í stuttu máli kaus unga fólkið með áframhaldandi veru í ESB en eldri kynslóðir studdu útgöngu. Andstæðingar Brexit hófu í framhaldinu áróður þar sem meginkjarni skilaboðanna var á þá leið að gamla fólkið hefði kosið um framtíð unga fólksins – og sú framtíð fæli í sér að standa utan ESB. Í takt við dramatískar og digurbarkalegar yfirlýsingar nútíma stjórnmála var látið að því liggja að eldri kynslóðir hefðu sett þær yngri út á Guð og gaddinn og stolið af þeim framtíðinni.

Það fór þó minna fyrir því í umræðunni að unga fólkið, sem samkvæmt fyrrgreindum rökum glataði framtíð sinni, mætti illa á kjörstað til að kjósa um framtíð sína. Það er mögulega einföldun, en staðreyndin er þó sú að þátttaka ungs fólks í kosningunum var lítil. Það er skammt stórra högga á milli. Brexitkosningarnar vöktu ekki meiri áhuga meðal ungs fólks en svo að flest af því sat heima, en nokkrum dögum seinna var búið að taka framtíðina og alla von um lífshamingju frá því.

***

Bretar gengu aftur að kjörborðinu á þessu ári, nú fyrir þingkosningar. Þegar Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til kosninga snemma í vor (þremur árum áður en kjörtímabilinu lauk) leit allt út fyrir að kosningarnar myndu snúast um Brexit. May hafði tekið við embætti forsætisráðherra eftir að David Cameron sagði af sér í kjölfar Brexit-kosninganna, og hún mat það (réttilega) sem svo að hún þyrfti að fara sjálf í gegnum kosningar til að auka pólitíska vigt sína og afla sér aukins þingmeirihluta.

Í fyrstu leit út fyrir að Íhaldsflokkurinn, flokkur May, myndi sigra auðveldlega í kosningunum. Annað kom á daginn. Íhaldsflokkurinn tapaði töluverðu fylgi en Verkamannaflokkurinn, undir forystu hins tæplega sjötuga sósíalista Jeremy Corbyn, jók fylgi sitt til muna. Leiðangur May misheppnaðist og hún kom löskuð út úr kosningunum þó að henni hafi tekist að mynda ríkisstjórn með Lýðræðislega sambandsflokknum (DUP) á Norður-Írlandi.

***

Kosningarnar áttu að snúast um Brexit og forystu May til að leiða þær viðræður af krafti. Þær fóru þó að snúast um allt aðra hluti og að lokum mætti segja að kosningarnar hafi í raun endurspeglað gjá á milli kynslóða, annað árið í röð. Ross Clark, pistlahöfundur breska tímaritsins The Spectator, skrifaði fyrr í sumar um hið svokallaða Kynslóðastríð (e. Generation war) og bendir réttilega á að til að byrja með hafi Corbyn ekki verið talinn eiga nokkra möguleika á sigri í kosningunum.

„Hann er mun vinstrisinnaðri en nokkur formaður Verkamannaflokksins sem nokkru sinni hefur sigrað í formannskjöri, og efnahagsstefna hans var að margra áliti einfaldlega ósamræmanleg gildum hinnar nútímalegu og framsæknu bresku þjóðar,“ segir Clark í grein sinni. Hann veltir einnig upp þeirri spurningu hvort Tony Blair hafi ekki sannað það að flokkur vinstra megin við miðju yrði að afneita sósíalisma til að geta sigrað í kosningum; eða að minnsta kosti að gera það í orði kveðnu og fela hann undir feldi jafnaðarstefnu.

***

Eftir því sem leið á kosningabaráttuna dró saman með flokkunum. Eftir að Íhaldsflokkurinn viðraði þá hugmynd að leggja sérstakan eignarskatt á verðmæti heimila missti flokkurinn fylgi meðal eldri kynslóða, kynslóða sem höfðu lengi kosið flokkinn, en voru á sama tíma húsnæðiseigendur sem sáu fram á aukna skattbyrði.

En skoðanakannanir sýndu þó fram á aðra og merkilegri sögu. Vissulega færði margt eldra fólk sig yfir til Verkamannaflokksins en sú tilfærsla var ekki jafn sláandi og tilfærslan meðal ungs fólks.

Skoðanakönnun ICM frá 18. apríl, við upphaf kosningabaráttunnar, sýndi að yfir 75% eldra fólks hygðust kjósa Íhaldsflokkinn en aðeins 4% Verkamannaflokkinn. Þann 29. maí hafði fylgið við Íhaldsflokkinn dregist saman og stóð í 52% en fylgi Verkamannaflokksins hafði aukist í 18%. Fyrri skoðanakönnunin hafði sýnt að 28% fólks á aldrinum 18-24 ára hygðust kjósa Verkamannaflokkinn og 16% Íhaldsflokkinn. Í skoðanakönnun sem birtist 29. maí sagðist 61% þessa hóps styðja Verkamannaflokkinn en aðeins 12% Íhaldsflokkinn. Nú er rétt að taka þessum tölum með fyrirvara, þar sem um könnun var að ræða og við vitum ekki enn hvernig mismunandi aldurshópar greiddu að lokum atkvæði.

***

Við höfum hins vegar næg gögn til að sjá að mikil breyting hefur orðið á stjórnmálaskoðunum ungs fólks á síðustu mánuðum. Clark bendir í grein sinni á að svo seint sem árið 2015 var ungt fólk í Bretlandi ekki sérlega hallt undir vinstristefnu. YouGovgreining á kosningum þess árs gaf til kynna að 36% fólks á aldrinum 18-29 ára hefðu kosið Verkamannaflokkinn og 32% Íhaldsflokkinn.

Í nýlegum skoðanakönnunum YouGov er athyglinni beint að dálítið breyttum aldurshópum og því eru þessar kannanir ekki alveg sambærilegar, en skoðanakönnun sem framkvæmd var 2. júní á þessu ári gaf til kynna að hvorki meira né minna en 71% fólks á aldrinum 18-24 ára hallaðist að Verkamannaflokknum en aðeins 15% að Íhaldsflokknum. YouGov telur að stéttarstaða sé ekki lengur vísbending um hvernig fólk muni verja atkvæði sínu – aldur sé sá þáttur sem ráði mestu um hvað fólk sé líklegt til að kjósa.

„Við heyrðum öll hróp ungs fólks í hópi áheyrenda í sjónvarpskappræðum,“ segir Clark í grein sinni.

„Corbyn tókst nokkuð sem hvorki Ed Miliband né Gordon Brown hafði nokkru sinni tekist og jafnvel Tony Blair hefði þurft að hafa fyrir; að vera fagnað á rokktónleikum The Libertines 20. maí. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að elsti flokksforingi sem hefur stýrt öðrum stóru flokkanna í kosningum frá [árinu] 1983 hafi verið sá sem náði mestum árangri í að tryggja sér atkvæði ungs fólks.“

***

Til að heilla unga fólkið enn frekar dró Corbyn upp úr hatti sínum ábyrgðarlaus loforð um að gefa allt fyrir ekkert. Corbyn lofaði t.a.m. að fella niður skólagjöld í háskólum og jók fylgi flokksins í könnunum. Clark minnir í grein sinni á að hrun Frjálslyndra demókrata árið 2015 sýndi hvað þetta var mikilvægt fyrir unga kjósendur. Frjálslyndir demókratar höfðuðu til ungra kjósenda árið 2010 þegar Nick Clegg, þá formaður flokksins, lofaði að fella niður skólagjöld. Með því að samþykkja þreföldun skólagjaldanna í stað þess að fella þau niður færði hann fylgi flokksins aftur til þess sem það var fyrir 40 árum. Í þetta sinn lofaði flokkurinn engu um skólagjöldin og virtist reyna að höfða til ungra kjósenda með loforði um að snúa Brexit-kosningunni við og gera kannabisefni lögleg – en hvorugt höfðaði til ungra kjósenda.

Clark bendir á að það voru ekki aðeins skólagjöldin sem höfðu áhrif á skoðun ungra kjósenda á Verkamannaflokknum. Í þróuðum ríkjum fer óbeit ungs fólks á kapítalisma vaxandi – hún er nú útbreidd og afmarkast ekki lengur við hávær mótmæli aðgerðasinna sem berjast gegn alþjóðavæðingu, svo tekið sé dæmi um eina birtingarmynd þeirra sem hata kapítalismann.

Á síðasta ári framkvæmdi Harvard Institute of Politics skoðanakönnun meðal Bandaríkjamanna á aldrinum 18-29 ára og spurði þá út í viðhorf sitt til kapítalisma. Það vekur athygli að í kapítalískasta samfélagi í heimi sögðust aðeins 42% hafa jákvætt viðhorf til kapítalisma. Aftur á móti sögðust 33% styðja eða hafa jákvætt viðhorf til sósíalisma. Það voru atkvæði ungs fólks sem urðu til þess að Bernie Sanders fór nálægt því að sigra Hillary Clinton í forkosningunum árið 2016 – í sömu skoðanakönnun Harvard sögðust 54% hafa trú á honum.

„Þetta var annað tilvikið um að gráhærður vinstrimaður nyti meiri stuðnings meðal ungs fólks en meðal fólks á hans eigin aldri,“ segir Clark í grein sinni.

***

Þróunin í Frakklandi er með svipuðum hætti. Í nýlegum forsetakosningum þar í landi naut Jean-Luc Mélenchon, vinstrimaður sem talaði fyrir því að hækka tekjuskatt í 90%, mest stuðnings fólks á aldrinum 18-24 ára. Hann hlaut 30% atkvæða í fyrri umferð kosninganna. Sá frambjóðandi sem hlaut næstmestan stuðnings þessa aldurshóps var Marie Le Pen en Emmanuel Macron (sem að lokum var kjörinn forseti) var í þriðja sæti. Hann er af mörgum talinn fulltrúi þess sem er ungt og kraftmikið, opið og alþjóðlegt í Frakklandi – en franskir námsmenn voru ekki sama sinnis og hölluðust frekar að þeim frambjóðendum sem börðust gegn alþjóðavæðingu.

***

Clark bendir á að fjárhagslegur barningur unga fólksins verði til þess að það missi trúna á kapítalismann og vísar í rannsókn Resolution Foundation á síðasta ári, þar sem fram kom að fólk sem er fætt á árunum 1981 til 1985 vinnur sér inn fjörutíu pundum minna á núvirði en fólk sem fæddist áratug fyrr gerði á sama aldri. Þetta er fyrsta kynslóðin frá iðnbyltingunni sem hefur það verra en kynslóðirnar á undan.

Á sama tíma hefur húsnæðiskostnaður hækkað meira en þetta fólk ræður við. Hlutfall þeirra sem eru 30-34 ára og eiga eigið húsnæði í Bretlandi hefur lækkað á síðustu fimm árum úr 49,3% í 43,1% – en hlutfallið er hærra hjá fólki sem er eldra. Á sama tíma hefur há húsaleiga komið í veg fyrir að ungt fólk geti komið sér upp sjóði eða fjárfest og það getur því ekki grætt á uppgangi á hlutabréfamarkaðnum.

***

Clark bendir einnig á að fólk undir 35 ára aldri hefur ekki kynnst þeirri neikvæðu ímynd sósíalismans sem eldri kynslóðir þekkja svo vel. Og það er rétt hjá honum. Nú eru nær 30 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins og sú kynslóð hefur, sem betur fer, ekki kynnst þeim hryllingi sem sósíalisminn hefur upp á að bjóða. Þessi kynslóð þekkir ekki AusturÞýskaland nema í sögubókum – og þær fjalla ekki endilega um það sem raunverulega átti sér stað austan járntjaldsins. Kynslóðin sem nú hefur áhyggjur af því að Google fylgist með henni hefur aldrei kynnst Stasi og þeim aðferðum sem stofnunin notaði. Sú kynslóð á erfitt með að ímynda sér að fyrir 40 árum hafi jafnaldrar hennar verið skotnir fyrir að reyna að klifra yfir múrinn.

***

Nú er það ekki svo að unga kynslóðin sé illa upplýst. Það mætti með góðum rökum halda því fram að hún sé jafnvel betur upplýst en eldri kynslóðir. Hún hefur í það minnsta betri aðgang að upplýsingum en foreldrar hennar höfðu á sama aldri. Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvaða upplýsingar hún fær. Fréttastofa RÚV reyndi t.d. lengi að halda því fram að „efnahagserfiðleikarnir“ í Venesúela væru afleiðingar af lækkandi olíuverði. Á öld upplýsingaflóðsins er ekki sjálfgefið að upplýsingarnar séu réttar.

Samkvæmt könnunum hér á landi njóta Vinstri græn mikils stuðnings meðal ungs fólks. Þá skiptir engu að Vinstri græn og forverar þeirra studdu þá sem skutu unga fólkið sem reyndi að klifra yfir Berlínarmúrinn, þau dýrkuðu Fidel Castro sem tók pólitíska andstæðinga sína af lífi eins og enginn væri morgundagurinn og þau höfðu lítið út á það að setja að skoðanabræður þeirra í Kína og Sovétríkjunum væru ábyrgir fyrir dauða tugmilljóna manna.

***

Ekkert af þessu skiptir þó máli í stóra samhenginu, enda löngu liðnir atburðir. Hægrimenn geta endalaust rifjað upp syndir kommúnistanna en þeir tala fyrir daufum eyrum. Enginn heilvita Íslendingur ætlar Katrínu Jakobsdóttur að styðja eða samþykkja aðferðir Castros, Maós eða Stalíns – jafnvel þó að hún sé í grunninn sammála stjórnmálaskoðunum þeirra. Hægrimenn þurfa því að líta í eigin barm. Þeim hefur mistekist að sannfæra ungt fólk um ágæti kapítalismans. Þeir stjórnmálamenn eru teljandi á fingrum annarrar handar sem tala um vinnu og dugnað sem dyggð, sem tala fyrir minni ríkisafskiptum og auknum tækifærum fyrir þá sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig. Fyrr eða síðar verða hægrimenn að taka á þessu fráhvarfi ungs fólk frá kapítalisma.

***

En hægrimenn þurfa líka að tryggja það að allir hafi sömu tækifæri. Það er til lítils að predika um ávinninginn af frjálsum markaði ef hann gerir heilli kynslóð ekkert gagn, sbr. fyrrnefndur húsnæðisvandi ungs fólks í Bretlandi, sem er svipaður hér á landi. Ungt fólk þarf að fá tækifæri til að vera þátttakendur í kapítalismanum. Það er engin ástæða til að ætla annað en að ungt fólk í dag sé duglegt og framsækið. Það þarf þá að hafa fullvissu fyrir því að dugnaður þess borgi sig. Ungt fólk er ekki eigingjarnt og það er ekki drifið áfram af græðgi – en það vill fá tækifæri til að njóta afraksturs vinnu sinnar.

Sósíalisminn mun ekki færa unga fólkinu það tækifæri.

 

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2017.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is