Í einum smelli felast mikil tækifæri

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Í febrúar birtist í fjölmiðlum frétt sem vakti mig til umhugsunar. Í henni kom fram að samkvæmt lögum frá árinu 2010 ríkir bann við lánveitingum með veði í eigin bréfum. Það að tæplega áratugs gömul lagabreyting rati á forsíðu fjölmiðils segir okkur að hinar miklu umbreytingar sem gerðar hafa verið á regluverki fjármálamarkaða frá og með árinu 2009 eru ekki á allra vitorði. Þetta hefur sett mark sitt á umræðu um fjármálaþjónustu þar sem oftar en ekki er verið að ræða veröld sem var en ekki þá stöðu sem hinar umfangsmiklu breytingar hafa leitt af sér.

Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á regluverki fjármálamarkaða. Þessum breytingum var hrint í framkvæmd í ljósi þess lærdóms sem dreginn var af fjármálakreppunni. Beggja vegna Atlantsála hefur verið ráðist í viðamiklar breytingar á regluverki fjármálamarkaða, auk þess sem eftirlit með þeim hefur verið stóreflt. Allar þær breytingar miða að því að berja í þá bresti sem komu fram í aðdraganda fjármálakreppunnar. Frá árinu 2008 hafa verið teknar upp á EES-svæðinu 40 viðamiklar tilskipanir ásamt aragrúa af afleiddum reglum. Við bætast svo ýmsar séríslenskar reglur sem hér hafa verið leiddar í lög.

Megintilgangur breytts regluverks er að draga úr áhættumyndun á fjármálamörkuðum, treysta innstæðutryggingakerfi, auka gæði og magn eigin fjár fjármálafyrirtækja og tryggja skilvirk viðbrögð við fjármálaáföllum. Þetta hefur almennt treyst stöðu fjármálafyrirtækja enda er markmiðið að tryggja að þau standi á sterkum stoðum ef á móti blæs. Þannig hafa þessar breytingar leitt til þess að almennir skattborgarar eiga ekki á hættu á að greiða fyrir tjónið ef fjármálafyrirtæki lendir í vandræðum; kröfur um gæði eigin fjár og heimildir eftirlitsaðila til inngripa tryggja það.

Til mikils er að vinna að stjórnmálamenn og álitsgjafar átti sig á þessum breytingum. Sérstaklega þegar umræðan um endurskipulagningu fjármálakerfisins er jafn fyrirferðarmikil og hér á landi. Breytingar sem gerðar hafa verið verða að vera hluti af umræðunni, annars er hætta á því að við höldum áfram að hjakka í fari átaka án þess að ná utan um þær gríðarlegu breytingar sem fram undan eru á fjármálamörkuðum í krafti stafrænu byltingarinnar.

Áskoranir við innleiðingar á Evrópuregluverki

Ein stærsta áskorunin sem EES-ríkin standa nú frammi fyrir er að tryggja samræmi í regluverki innri markaðar Evrópu. Þar standa EES-ríkin frammi fyrir því að misræmi hefur skapast og mun halda áfram að skapast í því hvenær regluverk tekur gildi í Evrópu, hvenær það er innleitt í EES-ríkjunum og ekki síst hvenær það er tekið upp í EES- samninginn. EES-ríkin fara gjarnan þá leið að taka regluverk upp áður en það er komið inn í EES-samninginn. Þó að það sé jákvætt er það engu að síður áskorun því þá er einungis verið að taka regluverkið inn í íslenskan rétt en staðan gagnvart stofnanabyggingu innri markaðarins er óljósari eða hreinlega ekki orðin virk.

Þá má ekki gleyma því heldur að nú þegar fjármagnshöftum hefur verið lyft hér á landi geta komið upp tæknileg vandamál við þessar aðstæður þar sem það regluverk sem ekki er komið inn í EES-samninginn gildir þá í raun ekki fyrir EES-ríkin þrjú á innri markaðnum. Stjórnvöld allra þriggja EES-ríkjanna gera sér grein fyrir þessu og eru því að leggja mikla áherslu á að vinnan gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Framkvæmdastjórn ESB hefur jafnframt ákveðið að setja meiri kraft í þessa vinnu sín megin, en fyrirsjáanlegt er að framhald verði á þessu misræmi, einfaldlega vegna þess magns sem bíður innleiðingar, en yfir 300 gerðir af ólíku umfangi eru nú væntanlegar eða bíða innleiðingar og upptöku í EES-samninginn á næstunni. Áhyggjur okkar hjá SFF af þessu snúa ekki síst að þeim tilskipunum og gerðum sem heyra undir Evrópska eftirlitið með fjármálamörkuðum, sem Ísland varð aðili að á seinni hluta síðasta árs.

Mikilvægt er því fyrir markaðinn að hann sé upplýstur um stöðuna hverju sinni svo hann fái skýra mynd af því hvenær áætlanir gera ráð fyrir að einstaka innleiðingar hafi að fullu tekið gildi innan Íslands, Noregs og Liechtenstein. Ásamt því þarf að eiga sér stað virkt samtal við stjórnvöld um úrlausn þeirra mála sem upp koma þegar áðurnefnt misræmi á sér stað, til að tryggja samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja.

Stafræn dögun nýrrar aldar

Á sama tíma og miklar breytingar hafa verið gerðar á regluverki fjármálamarkaða eru aðrir undirliggjandi kraftar að móta fjármálamarkaði með slíku afli að flestir sérfræðingar telja einsýnt að fjármálaþjónusta muni taka algjörum stakkaskiptum. Hvati þessara breytinga er samþætting stafrænnar tækni og fjármálaþjónustu.

Fjármálafyrirtæki hafa ávallt verið í fararbroddi þegar kemur að því að nýta stafrænar tækninýjungar til þess að þróa nýjar vörur og stuðla jafnframt að aukinni hagkvæmni í rekstri. Á þessu hefur engin breyting orðið undanfarna árartugi og að einhverju leyti hefur verið um línulega þróun að ræða; fjármálafyrirtæki tileinkuðu sér snemma tölvutækni til að halda utan um flókinn rekstur og mikið gagnahald; netbankar og önnur þjónusta litu dagsins ljós samhliða þess að nettengingar urðu almennar og sambærileg þróun átti sér stað með tilkomu snjallsímanna.

En undanfarið hefur ný tegund fyrirtækja, svokölluð fjár- og tryggingatæknifyrirtæki (e. Fintech og Insurtech), rutt sér til rúms og ýmist farið í beina samkeppni við starfandi fjármálafyrirtæki um einstaka þjónustu eða farið í samstarf við starfandi fyrirtæki. Upplýsingabyltingin felur ekki einungis í sér að fólk sé stöðugt nettengt og gangi um með snjalltæki sem eru til flestra hluta gagnleg.

Um er að ræða byltingu sem felur í sér straumhvörf í gagnasöfnun og gagnagreiningu samhliða umbyltingu á viðskiptasambandi einstaklinga og fyrirtækja og neytendamynstri. Við þetta bætist hröð þróun gervigreindar, lífauðkenninga og dulkóðunartækni. Fjár- og tryggingatæknifyrirtæki nýta sér þessa tækni til þess að veita fjármálaþjónustu með öðrum hætti en áður hefur tíðkast. Þessi þróun hefur verið hröð og telja margir einsýnt að lokaáhlaupið í þeirri byltingu hefjist þegar stórfyrirtæki á borð við Apple, Amazon og Facebook fari að gera sig meira gildandi þegar kemur að fjármálaþjónustu.

Einhverjir hafa talið þessa þróun vera upphafið að endi hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi. Ólíklegt er að slíkir spádómar rætist því ekki má gleyma að fjármálafyrirtæki eru undir ströngu eftirliti og ekki víst að fjártæknifyrirtæki sjái hag sinn í því að taka upp allar þjónustuleiðir hefðbundinnar fjármálastarfsemi heldur haldi sig frekar við einstaka þætti. Hefðbundin fjármálafyrirtæki eru vel með á nótunum og hafa unnið sjálf að framþróun fjármálatækni – annaðhvort upp á eigin spýtur eða í nánu samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki á þessu sviði – og eru þannig virkir þátttakendur í þeim breytingum sem nú eru að eiga sér stað. Engu að síður mun þessi þróun án efa valda breytingum á rekstrarlíkönum í fjármála- og tryggingastarfsemi. Þó má með sanni segja að samband milli þessara aðila sé dínamískt, þar sem fjártæknifyrirtæki nýta sér starfsemi fjármálafyrirtækja í sínu vöruframboði og öfugt.

Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar könnunar ráðgjafarfyrirtækisins PwC telja stjórnendur fjármálafyrirtækja að fjártæknin muni leiða til mikilla umbreytinga þegar fram í sækir. Þannig telur yfirgnæfandi meirihluta stjórnenda fjármálafyrirtækja að fjármálatæknin muni hafa mikil áhrif á viðskiptabankastarfsemi og greiðslumiðlun á næstu fimm árum. Flestir telja jafnframt að nýsköpunarfyrirtæki, upplýsingatæknifyrirtæki, netverslanir og samfélagsmiðlar séu líklegust til að valda mestu umrótinu og þar með veita mikla samkeppni um einstaka þætti í rekstrarlíkönum þeirra.

Stakkaskipti á samkeppnisumhverfinu

Merki þessarar þróunar sjást glögglega á Íslandi. Tækninýjungar hafa lækkað aðgangshindranir og þar af leiðandi hefur fyrirtækjum sem bjóða upp á fjármálaþjónustu fjölgað. Sem dæmi um það má nefna að símafyrirtæki eru farin að bjóða greiðslumiðlunarlausnir og fólk er í ríkum mæli hvatt til þess „að hugsa út fyrir bankann“ þegar kemur að fjármögnunarkostum. Þetta eflir samkeppni á fjármálamarkaði og fagna Samtök fjármálafyrirtækja þeirri þróun, enda byggir afstaða samtakanna til þessara mála á eftirfarandi skoðun: að allir þeir sem bjóða sambærilega fjármálaþjónustu sitji við sama borð þegar kemur að regluverki og skattaumhverfi. Svo er reyndar ekki í dag og hafa samtökin því lagt ríka áherslu á að regluverk tengt eftirliti og kröfum sé það sama ásamt því að skattaumhverfið verði jafnað.

Frekari breytingar munu svo verða á samkeppnisumhverfinu þegar greiðsluþjónustutilskipun Evrópusambandsins (PSD II) verður innleidd hér á landi. PSD II-tilskipunin skapar sameiginlegan markað fyrir greiðsluþjónustu í Evrópu og er leiðarljós tilskipunarinnar að auka samkeppni og tryggja nýsköpun á þessu sviði. Ein veigamesta breytingin sem innleiðing tilskipunarinnar hefur í för með sér er að hún opnar fyrir aðgengi fyrirtækja að innlánsreikningum viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Þetta þýðir að viðskiptabankar verða að veita öðrum fyrirtækjum óhindrað aðgengi að reikningum viðskiptavina sem veita til þess heimild. Á sama tíma felur tilskipunin í sér að viðskiptabankinn getur hvorki innheimt viðbótargjald af viðkomandi fyrirtækjum né af viðskiptavininum. Þetta aðgengi verður jafnframt staðlað þannig að nánast öll fyrirtæki sem eigandi innlánsreiknings veitir heimild fyrir geta fengið aðgang án mikillar fyrirhafnar eða þröskulda.

Þau fyrirtæki sem geta fengið þessa heimild skipast í tvo flokka. Í fyrsta lagi greiðsluvirkjandi (e. Payment Initiation Service Provider), sem má með samþykki viðskiptavina greiða beint af innlánareikningum þeirra yfir á annan reikning, og í öðru lagi upplýsingaþjónustuveitandi, sem má með samþykki viðskiptavina safna saman fjárhagsupplýsingum þeirra í bankakerfinu.

Ljóst er að þessi breyting felur í sér miklar áskoranir fyrir fjármálafyrirtæki á borð við innlánastofnanir, sem þurfa að takast á við miklar breytingar á tekjuhlið starfseminnar þar sem þetta, ásamt framþróun fjártækninnar, opnar leiðina fyrir önnur fyrirtæki en fjármálafyrirtæki til að veita fjármálaþjónustu. Þetta á við um hinn sameiginlega evrópska markað, þar sem greiðsluvirkjandi og upplýsingaþjónustuveitandi þurfa aðeins að fá starfsheimild fá fjármálaeftirliti eins ríkis innan EES til þess að veita þjónustu hvar sem er á svæðinu.

Þetta þýðir með öðrum orðum að íslenskt fyrirtæki getur selt þjónustu sína hvar sem er á hinum sameiginlega markaði og það sama gildir um önnur fyrirtæki. Hvað þennan þátt fjármálaþjónustu snertir má leiða að því líkur að samkeppni frá erlendum fyrirtækjum muni aukast á íslenskum fjármálamarkaði. Á sama tíma má ekki gleyma að þetta veitir okkar fyrirtækjum einnig tækifæri á erlendum mörkuðum.

Áskoranir íslenskra fjármálafyrirtækja

Íslensk fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir bæði áskorunum og tækifærum í þessum efnum. Þau eru að straumlínulaga rekstur sinn og hafa á liðnum árum boðið upp á fjölda tækninýjunga sem auka skilvirkni ásamt því að koma til móts við þarfir viðskiptavina. Þessar tækninýjungar standast samanburð við það fremsta sem þekkist á Vesturlöndum. Íslensk fjármálafyrirtæki eru þannig spennandi og mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun og þau veita fólki með fjölbreytta menntun áhugaverðan starfsvettvang.

Engin ástæða er til þess að ætla að íslensk fjármálafyrirtæki muni ekki standa sig vel í þeirri auknu alþjóðlegu samkeppni sem stendur fyrir dyrum. Aftur á móti standa ljón í veginum fyrir því að svo muni verða. Þær hindranir tengjast séríslenskum reglum og skattaumhverfinu. Mikilvægt er að íslenskur fjármálamarkaður búi við sömu reglur og skilyrði og önnur fjármálafyrirtæki sem starfa á hinum sameiginlega evrópska markaði. Því miður er það ekki raunin. Ýmis íslensk sérákvæði eru fléttuð saman við evrópskar reglur þegar þær eru innleiddar hér á landi.

Við þetta bætist að skattaumhverfi aðildarfélaga SFF er sérstaklega íþyngjandi og þekkist slíkt hvergi í Evrópu. Hér á landi eru þrír skattar lagðir sérstaklega á fjármálafyrirtæki: bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri hér á landi en almennt tíðkast hjá þeim Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt.

Þessi skattlagning hefur víðtæk áhrif. Hún eykur rekstrarkostnað fjármálafyrirtækja og veikir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum fyrirtækjum. Afleiðingarnar eru að lánveitingar og fjármálaþjónustan flyst til aðila sem ekki lúta eftirliti FME sem fjármálafyrirtæki. Með öðrum orðum ýtir skattlagningin undir skuggabankastarfsemi, sem svo eykur fjármálalega kerfisáhættu.

Bankaskattarnir sérstöku valda ríkinu jafnframt kostnaði þegar allt kemur til alls. Eins og fram kom í greiningu Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings SFF, sem birtist í Hnotskurn, riti SFF, rýra sérstakir skattar á borð við bankaskattinn virði eignarhluta íslenska ríkisins í fjármálakerfinu um 150 milljarða að minnsta kosti.

Í umræðunni gleymist oft sú staðreynd að bankar og sparisjóðir eru í harðri samkeppni við aðra lánveitendur sem búa við mun hagfelldara skattaumhverfi. Þannig borga til að mynda lífeyrissjóðir ekki bankaskatt, en þeir eru í harðri samkeppni við aðildarfélög SFF við veitingu fasteignalána, svo dæmi sé tekið. Erlend fjármálafyrirtæki greiða eðli málsins ekki heldur þessa skatta en þau hafa gert sig gildandi hér á landi í lánveitingum til stórra íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum.

Allar líkur eru á því að áframhald verði á þessari þróun nú þegar gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt. Það verður eitt helsta baráttumál SFF á komandi ári að íslensk fjármálafyrirtæki fái að búa við sambærilegt samkeppnisumhverfi og aðrir á sama markaði. Annað á ekki að viðgangast á eðlilegum samkeppnismarkaði.

Stresstöskur og pappírsflóð

Grundvallarhlutverk fjármálamarkaðarins er að umbreyta sparnaði í fjárfestingu, dreifa áhættu og miðla fjármagni. Hvað sem öllum tæknibreytingum líður munu þessi grundvallarhlutverk ekki breytast þó að inntak og ásýnd þjónustunnar þróist. Í því felast mikil tækifæri og hagnýting þeirra getur skilað íslenskum neytendum og fyrirtækjum miklum ávinningi þegar fram í sækir. Til þess að ná þeim markmiðum er mikilvægt að byggja ákvarðanir á stöðunni eins og hún er í dag og tryggja samræmi í starfsumhverfi fyrir alla aðila á markaði.

Við eigum að vera óhrædd að ræða hvernig við sem samfélag getum aukið hagræði og minnkað kostnað í fjármálakerfinu ásamt því að tryggja skilvirkni í samskiptum stjórnsýslu og fyrirtækja með stafrænum lausnum. Það er ekki einkamál markaðarins og því þurfa stjórnvöld einnig að marka sér stefnu um innleiðingu á stafrænni tækni til að mæta nýjum tímum.

Stafrænu kynslóðirnar munu ekki sætta sig við óbreytt ástand, stresstöskur og pappírsflóð, hikst og hökt, þær munu þá einfaldlega flytja sig annað. Með einum smelli.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).

________________________

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018. 

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is