Að axla ábyrgð á eigin lífi

Jordan Peterson kom til Íslands og fyllti tvo fyrirlestra í Hörpu í júní 2018 (Mynd: VB/HAG)

12 Lífsreglur –
Mótefni við glundroða
Höfundur: Jordan Peterson
Útgefandi: Almenna bókafélagið
Reykjavík, 2018
Þýðing: Elín Guðmundsdóttir
273 bls.
Bókin heitir á frummálinu 12 Rules for Life: An Antidote to Chaos og kom fyrst út á ensku hjá Penguin Random House í janúar 2018.

Fáir hugsuðir á Vesturlöndum hafa valdið meiri deilum á síðustu misserum en kanadíski sálfræðingurinn Jordan Peterson. Hann er klínískur sálfræðingur og prófessor við University of Toronto en metsölubók hans 12 Lífsreglur – Mótefni við glundroða (12 Rules for Life: An Antidote to Chaos) trónir nú á toppi vinsældalista beggja vegna Atlantsála.

Hvers vegna er Peterson svona umdeildur? Kannski má skýringuna að hluta rekja til þess að hann er algjörlega ófeiminn að ræða viðkvæm deilumál sem aðrir forðast að ræða vegna pólitískrar rétthugsunar. Eins og muninn á körlum og konum og hvers vegna það er mikilvægt að standa vörð um gildi sín og trú andspænis öðrum menningaráhrifum. Peterson er líka tilbúinn að svara femínistum fullum hálsi sem sumir halda því fram að karlar hafi í reynd kúgað konur öldum saman (kenning sem Peterson hafnar með rökum) og að kvennahreyfingar 20. aldar hafi átt stærstan þátt í að jafna aðstöðumun kynjanna en ekki tæknibreytingar og aðrar framfarir.

Haustið 2017 vissi ég ekki hver Peterson væri. Það var fyrir einskæra tilviljun að ég fór að kynna mér skrif hans og fyrirlestra á YouTube sem milljónir manna hafa horft á. Ég varð mér síðan úti um bókina 12 Rules for Life með það fyrir augum að móta mér eigin skoðun án fordóma.

Bókin er ekki hefðbundin sjálfshjálparbók þótt hún sé yfirleitt flokkuð sem slík. Í raun má segja að um eiginlega handbók sé að ræða fyrir einstaklinginn eða leiðbeiningar fyrir þá sem vilja axla ábyrgð á eigin lífi og vera heiðarlegir, ekki síst gagnvart sjálfum sér. Peterson hefur sjálfur sagt að það sem hafi ýtt honum út á ritvöllinn þegar hann skrifaði bókina Maps of Meaning (1999) hafi verið einbeittur vilji til að skilja það sem fór úrskeiðis á 20. öldinni þegar tugir milljóna manna létu lífið því að hatursfullar hugmyndastefnur náðu fótfestu; annars vegar sósíalisminn og kommúnisminn í Sovétríkjunum og hins vegar nazisminn í Þýskalandi. Segja má að Lífsreglurnar tólf séu nokkurs konar framhald á þessari viðleitni.

Persónuleg og klínísk reynsla notuð fyrir samhengi hlutanna

Bókin samanstendur af tólf köflum, einum fyrir hverja lífsreglu, auk eftirmála. Peterson fer á flug strax á fyrstu köflum bókarinnar (Réttu úr þér og berðu höfuðið hátt, Farðu með sjálfan þig eins og manneskju sem þú berð ábyrgð á að hjálpa, Veldu þér vini sem vilja þér vel) þar sem hann notar persónulega reynslu og tæplega þriggja áratuga reynslu sem klínískur sálfræðingur til að setja lífsreglurnar í raunhæft samhengi.

Reynslu sína sem klínískur sálfræðingur notar hann til að útskýra hvað gerist þegar fólk fer út af sporinu einmitt af því það hefur ekki tamið sér að fylgja reglunum, sem eru í grunninn fremur einfaldar. Afleiðingar þess að gera það ekki eru hins vegar allt annað en einfaldar og hafa í reynd í för með sér miklar hörmungar fyrir manneskjuna sjálfa og nánasta umhverfi hennar. Fyrir þá sem hafa ekki menntun á sviði sálfræði er bókin mjög upplýsandi um aðferðafræði sálfræðinga. Peterson útskýrir hvers vegna hann hefur ekki tileinkað sér nákvæmlega sömu aðferð og Sigmund Freud, sem taldi það slæmt að horfa í augun á sjúklingum sínum og lét þá þess í stað liggja á bekk. Freud taldi það einu raunhæfu leiðina svo hægt væri að kafa djúpt í sálarlíf þeirra því ella myndu þeir truflast af svipbrigðum sálgreinisins þegar þeir ræddu vandamál sín. Peterson notast við samtalsmeðferð og horfir í augu skjólstæðinga sinna en leggur ríka áherslu á að segja skjólstæðingum sínum ekki hvað þeir eigi að gera. Hann reynir þess í stað í gegnum virka hlustun og samtal að leiða hinn sanna vilja skjólstæðinga sinna í ljós þannig að þeir geti sjálfir tekið þær ákvarðanir sem eru þeim fyrir bestu.

Biblíusögurnar gætu þreytt lesendur

Peterson fer mjög djúpt í greiningar á sögum Gamla testamentisins til að setja þær í samhengi við lífsreglurnar og getur lesturinn verið þreytandi á köflum fyrir þá sem hafa ekki mikla þolinmæði fyrir Biblíusögunum.

Engu að síður kemst Peterson yfirleitt alltaf að kjarna máls og leiðir lesandann að niðurstöðu. Hann setur söguna um Kain og Abel í samhengi við skyldar fréttir úr nútímanum um þær hörmungar og þau voðaverk sem manneskjan er fær um ef hún er ekki heiðarleg og lætur gremjuna ná tökum á sér. Peterson fléttar líka inn í lífsreglurnar greiningu sína á heimsbókmenntum eins og Glæpi og refsingu, meistaraverki Fjodors Dostojevskís, og fer yfir boðskapinn í hinum mikla bálki Gúlag-eyjunum eftir Alexander Solzhenítsyn. Greining Peterson á skrifum Solzhenítsyn í bókinni vakti svo mikla athygli og eftirtekt að hann var fenginn til að rita formála að fimmtíu ára afmælisútgáfu ritsins sem á að koma út síðar á þessu ári. Það segir heilmikið um þann djúpstæða sálfræðilega og sagnfræðilega skilning sem Peterson hefur tileinkað sér á hörmungum kommúnismans í Sovétríkjunum.

Líkt og Solzhenítsyn kemst Peterson að þeirri niðurstöðu í bókinni að sjálfsblekking íbúanna sjálfra hafi ráðið miklu um hversu lengi þessi hörmulega hugmyndastefna fékk að þrífast óáreitt á 20. öldinni. Að þessu virtu var sú léttvæga, lapþunna og barnalega greining sem Lífsreglurnar tólf fékk í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV einstaklega hjákátleg, en þar var svo komist að orði að bókin myndi virka betur sem plakat með lífsreglunum en sem heil bók. Raunar hafa margir íslenskir menntamenn sem vilja láta taka sig alvarlega afhjúpað sig sem kyndilbera grunnhyggninnar í opinberri umræðu á Íslandi þegar Peterson berst í tal. Nánast án undantekninga hefur þetta sama fólk ekki lesið bókina hans eða sett sig inn í boðskapinn.

Í raun má segja að þær lífsreglur sem eru til umfjöllunar í bókinni séu gildi sem allir þurfa að tileinka sér ef þeir vilja lifa góðu og heiðarlegu lífi. Regla 6 fjallar um að fólk þurfi að taka til heima hjá sér áður en það gagnrýnir heiminn (annað fólk, gildi annarra). Þetta er regla sem virkir í athugasemdum þyrftu að tileinka sér.

Heiðarleikinn

Regla 8 fjallar um heiðarleikann. Peterson kemst á algjört flug í þessum kafla þegar hann rýnir í kenningar austurríska læknisins Alfred Adler um lífslygina (e. life-lie), en Adler er einn af feðrum klínískrar sálfræði sem fræðigreinar. Að mínu mati er þetta einn af bestu köflum bókarinnar. Það sem Peterson snertir á en fáir vilja ræða um þessar mundir er að óheiðarleiki er gegnsýrður í allt okkar líf á 21. öldinni á Vesturlöndum. Stór hluti markaðssetningar byggir á lygum enda er oft verið að selja fólki vöru sem það þarf ekki með upplýsingum og aðferðum sem eru ekki sannleikanum samkvæmar. Stjórnmálamenn sýna of oft af sér óheiðarleika, sérstaklega í fjölmiðlum þar sem margir þeirra búa ekki yfir því sjálfsöryggi að segjast ekki vita svörin. Í raun er um að ræða pólitískan spuna í hnotskurn. Stjórnmálamenn spinna oft hluti með það fyrir augum að búa til þá ímynd af sjálfum sér að þeir hafi svörin á reiðum höndum í stað þess að vera auðmjúkir og heiðarlegir.

Hér má líka nefna dæmi úr daglega lífinu. Fólk sýnir ekki heiðarleika í samskiptum til að þóknast öðrum, hvort sem það er í ástarsamböndum eða á vinnustaðnum. Fólk segir það sem „hljómar betur“ í stað þess að segja það sem því raunverulega finnst því það gæti ýtt undir átök í samskiptum. Peterson hefur sagt að það sé siðferðilega óverjandi að sýna af sér slíkan óheiðarleika, jafnvel þótt það sé í smáum hlutum. Til að geta verið heiðarlegur, ekki síst heiðarlegur gagnvart sjálfum sér, þurfi einstaklingurinn að lýsa sinni skoðun þótt hún leiði til átaka tímabundið. Hið heiðarlega líf snúist um hrein samskipti af þessu tagi. Fyrir marga lesendur kann þetta að hljóma eins og heilbrigð skynsemi og einföld sannindi. Það er hins vegar merkilegt hve margir hafa „týnt sjálfum sér“ í hraða nútímalífs á 21. öldinni. Þegar menn týna sjálfum sér með þessum hætti axla þeir ekki ábyrgð á eigin lífi. Þeir eru ekki heiðarlegir gagnvart sjálfum sér því þeir hafa ekki skoðað djúpt í sálarlífið til að skilja dýpstu langanir og þrár.

Til þess að geta verið heiðarleg þurfum við að orða hugsanir okkar af nákvæmni við aðra svo að annað fólk skilji okkur og Peterson helgar sérstökum kafla það einnig en 10. reglan fjallar um þessa nákvæmni. Reglurnar tengjast svo flestar innbyrðis því að til þess að geta orðað hugsanir okkar af nákvæmni þurfum við að stunda virka hlustun, sem fær einnig sérstakan kafla í bókinni. Í 11. kafla, sem fjallar um það að ekki megi trufla börn þegar þau renna sér á hjólabretti, fer Peterson meðal annars yfir það sem hann kallar „svokallaða kúgun feðraveldisins“, en það hefur virkað mjög stuðandi á marga, ekki síst konur sem aðhyllast róttækan femínisma. Peterson skrifar:

„Mér sýnist að svokölluð kúgun feðraveldisins hafi öllu heldur verið ófullkomin og sameiginleg viðleitni af hálfu beggja kynja í mörg þúsund ár til að frelsa hvort annað frá skorti, sjúkdómum og striti.“

Peterson rekur síðan að tækninýjungar hafi á 20. öldinni rutt hindrunum úr vegi sem stóðu jöfnum tækifærum kynjanna fyrir þrifum. Peterson fór líka ágætlega yfir þetta í viðtali á Stöð 2 sem birtist um það leyti er hann fyllti Silfurbergið í Hörpu tvisvar.

Helstu gallar bókarinnar eru þeir að stundum fer Peterson of langt út fyrir efnið til að rökstyðja málið og myndlíkingar hans geta verið þreytandi á köflum, sérstaklega fyrir þá lesendur sem þekkja ekki vel Gamla testament Biblíunnar. Fyrir aðra sem óttast ekki að rannsaka eigið tilfinningalíf þegar Biblían og trúarbrögð eru annars vegar eru sögurnar og skýringarnar sem fylgja þeim fræðandi.

Boðskapur bókarinnar er eins og áður segir afar mikilvægur og flestir ættu að geta fundið snertifleti við hann. Bókina ættu í raun allir að lesa en sérstaklega ungt fólk sem hefur ekki öðlast þann þroska og það sjálfsöryggi sem er nauðsynlegt til þess að geta axlað ábyrgð á eigin lífi, verið heiðarlegt í stóru sem smáu og verið trútt sjálfu sér.

Höfundur er lögfræðingur og fréttamaður.

 

Bókarýnin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is.