Deilt um heilbrigðismál – sterk staða ríkissjóðs – 3. Orkupakkinn – óstjórn í ráðhúsinu

Stefna Svandísar Svavarsdóttur í heilbrigðismálum er reist á hugsjón vinstri grænna. Hún birtist meðal annars í ályktun þings ungra vinstri grænna þar sem þeir mótmæltu að læknar hefðu fjárhagslegan hag af því að veita þjónustu sína og töldu hag sjúklinga best borgið í biðlistahagkerfi sósíalismans. (Mynd: VB/HAG)

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína miðvikudaginn 12. september. Í krafti sterkrar stöðu ríkissjóðs á 10 ára afmæli bankahrunsins ætlar ríkisstjórnin að spýta í lófana þegar kemur að hvers kyns opinberum framkvæmdum.

Þrjár stórframkvæmdir eru settar í forgang: stækkun Landspítala, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og hús íslenskrar tungu. Allt verkefni sem hafa verið á dagskrá lengi og verður að ljúka.

Það er einkennilegt að sjá flokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, Miðflokkinn, hafa allt á hornum sér vegna viðbótarinnar við Landspítalann og heimta að ráðist verði í smíði nýs sjúkrahúss á öðrum, óráðnum stað. Hefði Sigmundur Davíð þann slagkraft sem lýst er af stuðningsmönnum hans hefði legið beint við að hann sem forsætisráðherra sneri ofan af því starfi sem hafði verið unnið vegna nýs spítala við Hringbraut og setti málið í annan farveg. Forsætisráðherra er eini ráðherrann sem getur breytt stefnu íslensku þjóðarskútunnar í málum sem þessum. Það var ekki gert á meðan Sigmundur Davíð sat við stjórnvölinn og yrði ekki gert úr þessu kæmist hann að nýju í forsætisráðherraembættið. Tal flokksins nú um spítalamálið líkist helst marklausu nöldri.

Vilji menn deilur um heilbrigðismál er af nógu að taka. Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra VG, hefur gjörsamlega mistekist að sameina kraftana að baki heilbrigðisstefnunni. Bullandi ágreiningur er milli stjórnarflokkanna í því efni eins og birtist meðal annars í grein sem þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Brynjar Níelsson, rituðu í Morgunblaðið 15. september 2018 og sögðu:

„Okkur virðist sem stefna núverandi heilbrigðisráðherra sé að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og á sama tíma draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Það er að okkar mati röng stefna og nauðsynlegt er, áður en stór skref verða stigin, að fyrir liggi langtímaáætlun í heilbrigðismálum okkar. Engum dytti t.a.m. í hug að fjölga starfsmönnum hjá Vegagerðinni þegar auknar framkvæmdir eru fram undan. Þá er farin sú leið að bjóða út fleiri og stærri verk til sjálfstætt starfandi verktakafyrirtækja.

Það þarf að bregðast við vandanum sem við okkur blasir í dag og grípa til úrræða sem vinna á biðlistum. Okkar skoðun er sú að það eigi að gera með því að bjóða út verkefni sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki á heilbrigðissviði og starfsfólk þeirra geta leyst. Í þessu sambandi má nefna liðskiptaaðgerðir, vistun heilabilaðra og dagvistarúrræði fyrir eldri borgara og sjúklinga. Við höfum reynslu af aðgerð sem þessari þegar augnsteinaaðgerðir voru boðnar út fyrir nokkrum árum. Verkefnið tókst mjög vel, biðlisti hvarf á skömmum tíma og verðið fyrir aðgerðirnar var mjög hagkvæmt.“

Stefna Svandísar Svavarsdóttur er reist á hugsjón vinstri grænna. Hún birtist meðal annars í ályktun þings ungra vinstri grænna þar sem þeir mótmæltu að læknar hefðu fjárhagslegan hag af því að veita þjónustu sína og töldu hag sjúklinga best borgið í biðlistahagkerfi sósíalismans. Í grein í Fréttablaðinu 13. september 2018 sagði heilbrigðisráðherra:

„Við þurfum að fara úr brotakenndu [heilbrigðis] kerfi, þar sem tilviljun ein ræður því hvaða þjónusta er veitt hvar og af hverjum, og yfir í kerfi þar sem heildarsýn ríkir.“

Orðin „tilviljun ein“ og „heildarsýn“ eru lykilorðin í þessum texta. Fyrir ráðherranum vakir miðstýring í krafti fjárveitinga ríkisins. Ráðuneyti er betur til þess fallið að ákvarða hvar og hverjir veita þjónustu en þeir sem bjóða hana og njóta hennar. Þessu markmiði á að ná með því að nota skattfé almennings í fjárhagslega aðför sem minnkar þjónustuna við skattgreiðendur.

Láta á draumsýn sósíalista rætast með því að umturna íslenska heilbrigðiskerfinu.

II.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 í upphafi þings 11. september 2018 og ræddi það síðan 14. september. Frumvarpið ber sterkri stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármálanna gott vitni. Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86% þegar það var hæst árið 2011 í 31% í lok þessa árs. Útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011. Kaupmáttur launa hefur aukist um 25% á fjórum árum. Stefna ríkisstjórnarinnar er að verja þá stöðu en fram undan er gerð viðamikilla kjarasamninga.

Fastur liður í umræðum á alþingi um ríkisfjármál undir forystu sjálfstæðismanns er að minna hann á gamalt kjörorð flokksins: Báknið burt! Frá því að það var kynnt til sögunnar á áttunda áratugnum hefur alltaf verið til þess vitnað við framlagningu fjárlagafrumvarps sjálfstæðismanns.

Nú árið 2018 svaraði Bjarni Benediktsson áminningu í þessa veru á þann veg að allir töluðu um stórkostlegan vöxt ríkisútgjalda þótt útgjöldin hefðu lækkað sem hlutfall af vergri landsframleiðslu niður undir 30% úr því að hafa verið um 35%.

Fjármálaráðherra sagði:

„Þetta er auðvitað stórkostlegur árangur, að við getum lagt meira til heilbrigðiskerfisins og velferðarmála, stutt betur við barnafjölskyldur og tekjulægri, að við skulum geta sett meira í innviði, borað göng í gegnum fjöll, styrkt vegakerfið, keypt nýjan Herjólf, nýjar þyrlur o.s.frv., án þess að það íþyngi okkur hlutfallslega meira. Þetta er stórkostlegur árangur og er til vitnis um það að við erum að nýta efnahagslegan uppgang í landinu til þess að gera betur fyrir alla landsmenn.

Um það snúast m.a. þessi fjárlög, um þá réttu forgangsröðun að búa í haginn fyrir framtíðina og fara ekki fram úr sér, skila góðum afgangi á fjárlögum, vera með langtímasýn um það hvernig þessir hlutir þróast.“

Í umræðunum sagði Bjarni Benediktsson einnig:

„Mætti ég spyrja: Hvernig hefur gengið? Hvernig gekk að bæta stöðu heimilanna eftir fall fjármálafyrirtækjanna?

Staðan er þessi: Fjárhagur heimilanna hefur umbreyst til hins betra. Eiginfjárstaða heimilanna er meiri. Færri eru í vanskilum. En eftir stendur áskorun sem sérstaklega snýr að fyrstu íbúðarkaupum. Þar [þarf ] fjölþættar aðgerðir sem snúa að öllu frá auknu lóðaframboði og þar með meira framboði af smærri íbúðum. Leiðir til þess að lækka byggingarkostnað skipta líka máli. Stöðugleikinn […] með lægri vaxtakostnaði skiptir verulegu máli. Hver er staðan varðandi þann þáttinn? Staðan er sú að fyrir Íslendinga sem hafa tekið húsnæðislán til að fjárfesta í eigin fasteign hafa raunvextir húsnæðislána aldrei í sögunni verið lægri en einmitt í dag.“

Þarna er vikið að atriði sem verið hefur þungamiðja í stefnu sjálfstæðismanna; að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Í framkvæmd hefur þessi stefna hopað, eins og dæma má af vexti leigufélaga. Þar ræður miklu stefna Reykjavíkurborgar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstriflokka. Stefnan um þéttingu byggðar er fjandsamleg ungu fólki sem vill eignast sína fyrstu íbúð.

Bjarni vék einnig að því að nú horfði til þess í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar að ríkissjóður fengi miklar arðgreiðslur af starfsemi hennar. Ekki væri mjög langt frá því að menn hefðu hreinlega haft áhyggjur af fjárhagsstöðu Landsvirkjunar. Nú hefði fyrirtækið greitt mikið upp af skuldum, ráðist í nýjar virkjanir og fjölgað viðskiptavinum.

Vill fjármálaráðherra að arður af orkuvinnslunni verði lagður til hliðar í Þjóðarsjóð. Verður frumvarp um sjóðinn væntanlega flutt á þessu þingi.

III.

Í ágreiningi milli stjórnarflokkanna má greina línur milli ólíkra stjórnmálaskoðana, reistar á ágreiningi um hlutverk ríkisins andspænis framtaki einstaklinga. Að þessi ágreiningur skuli látinn bitna á sjúklingum með lengingu biðlista er óviðunandi. Línur eru ekki eins skýrar þegar litið er til deilu um annað mál sem borið hefur hátt undanfarið, það er hvort innleiða eigi hér svonefndan 3. orkupakka ESB.

Línurnar eru meðal annars óljósar vegna þess að á liðnum vetri var efni þessara tilskipana ESB, hluta EES-samningsins, kynnt á alrangan hátt. Þessi ranga kynning leiddi meðal annars til þess að til ágreinings kom á landsfundi sjálfstæðismanna 16. til 18. mars 2018.

Í ályktun fundarins um atvinnumál segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Hver sá sem kynnir sér 3. orkupakkann hlýtur að spyrja sig hvernig unnt er að fella ákvæði hans undir tilvitnuðu orðin úr ályktuninni. Uppfærsla orkustefnu ESB af einu stigi á annað breytir í raun engu fyrir Ísland. Orðalagið í ályktuninni hefur verið notað sem hótun gegn þingmönnum flokksins. Oftúlkun á efni 3. orkupakkans og áhrifum hans fylgja gjarnan yfirlýsingar sem fela í sér hótun um að berjast fyrir úrsögn úr EES verði pakkinn innleiddur.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur stofnað til úttektar á EES-samningnum. Á henni að verða lokið í byrjun september 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur stofnað til úttektar á EES-samningnum. Á henni að verða lokið í byrjun september 2019.

Tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa boðað framlagningu innleiðingarmála vegna 3. orkupakkans á þingi í vetur. Verður að vona að þingmenn verði þá upplýstari um málið en landsfundarfulltrúar voru um miðjan mars 2018.

Innleiðing þessa EES-texta hefur ekki í för með sér nein þáttaskil í samskiptum Íslands og ESB. Meginfirra sumra andstæðinga innleiðingarinnar er að hún skyldi Íslendinga til að setja hér í samband sæstreng til flutnings raforku til ESB. Það þurfi ekki einu sinni fyrir fram samþykki íslenskra stjórnvalda til að ráðist sé í að leggja sæstrenginn. Tenging Íslands við evrópska raforkunetið er eðlilega forsenda þess að ákvæði í 3. orkupakkanum um aðild að sameiginlega evrópska raforkukerfinu verði virk. Ekkert gerist sjálfkrafa í því efni.

Ýmislegt sem sagt hefur verið í umræðum um 3. orkupakkann minnir á frásagnir frá útlöndum um plöntun falsfrétta eða skipulegar upplýsingafalsanir til að knýja fram niðurstöðu hagstæða þeim sem fyrir herferðinni stendur. Verði málið greint nánar hlýtur að koma í ljós hver hefur helst hag af því að spilla fyrir framgangi þessa máls eða að nota það til að grafa undan EES-aðildinni.

Um aðildina að EES var ályktað á landsfundi sjálfstæðismanna í mars 2018 á þennan veg í kaflanum um utanríkismál:

„Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES samningsins er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins.“

Utanríkisráðherra hefur nú stofnað til úttektar á EES-samningnum. Á henni að verða lokið í byrjun september 2019. Að því er varðar tveggja stoða kerfið svonefnda í EES-samstarfinu snýr það að því að tryggja sjálfstæði EES/EFTA-ríkjanna (Íslands, Liechtensteins og Noregs) að EES-samstarfinu með sjálfstæði stofnana á borð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur helst varað við hættunum af því að á hlut EES/EFTA-ríkjanna verði gengið að þessu leyti. Raunar er grundvallaratriði fyrir EES-aðild Íslands að tveggja stoða kerfið virki og tryggi að EES-aðildin samræmist íslensku stjórnarskránni. Þannig var um hnúta búið við upphaf aðildar á sínum tíma og hefur verið margítrekað síðan.

IV.

Á liðnu sumri birtust frásagnir af fimm málum þar sem dómari, kærunefnd jafnréttismála, umboðsmaður alþingis og umboðsmaður borgara komust að þeirri niðurstöðu að illa hefði verið staðið að stjórnsýslu á vettvangi yfirvalda Reykjavíkurborgar.

Borgarstjóri ber að sjálfsögðu lokaábyrgð á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í skipuriti borgaryfirvalda segir að skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara fari með yfirumsjón með stjórnsýslu, miðlægri stoðþjónustu og samhæfingu innan stjórnsýslu borgarinnar í samstarfi við borgarritara.

Á tveimur mánuðum, frá byrjun júní til loka júlí 2018, féllu fimm áfellisdómar vegna þessarar stjórnsýslu:

  • 5. júní 2018: Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir Reykjavíkurborg til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
  • 2. júlí 2018: Kærunefnd jafnréttismála telur Reykjavíkurborg hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns á árinu 2017.
  • 11. júlí 2018: Umboðsmaður alþingis segir að við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg skorti aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verði túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna.
  • 15. júlí 2018: Mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar samþykkir að öll salerni starfsfólks í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar skuli gerð ókyngreind frá og með haustinu í andstöðu við 22. gr. reglugerðar um húsnæði vinnustaða frá árinu 1995.
  • 31. júlí 2018: Umboðsmaður borgarbúa telur að betur hafi mátt huga að undirbúningi ákvörðunar menningar- og ferðamálaráðs um útleigu á Iðnó. Ákvörðun ráðsins um útleigu á Iðnó var „ekki fyllilega í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti“ að mati umboðsmannsins.

Eins og sjá má gerðist sjálfur umsjónarmaður stjórnsýslunnar brotlegur við lög samkvæmt dóminum frá 5. júní. Dómurinn hefur dregið dilk á eftir sér því að svo virðist sem skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara sætti sig ekki við niðurstöðuna og haldi áfram að sækja að viðkomandi undirmanni sínum.

Þegar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, tók málstað undirmannsins stökk skrifstofustjórinn upp á nef sér og varð það til opinbers ágreinings á vettvangi borgarráðs.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lætur sjaldan ná í sig fari eitthvað úrskeiðis við stjórn borgarinnar.

Áður, eftir fyrsta borgarstjórnarfundinn 19. júní, gerðist sá einstæði atburður að annar skrifstofustjóri í Ráðhúsinu, að þessu sinni sá sem sinnir málefnum borgarstjórnar, klagaði borgarfulltrúa fyrir ræður þeirra á borgarstjórnarfundinum og gaf til kynna að hann ætlaði að senda bréf til siðanefndar sveitarfélaganna og kvarta undan ræðum borgarfulltrúa minnihlutans.

Í borgarstjóratíð Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar hefur skapast það andrúmsloft innan ráðhússins að eðlilegt er talið að embættismenn komi í stað kjörinna fulltrúa og nú að þeir setji meira að segja ofan í við minnihlutann í borgarstjórn á opinberum vettvangi. Áður fyrr fór aldrei á milli mála að borgarstjórinn ætti síðasta orðið innan borgarkerfisins og kæmi fram sem slíkur. Þetta breyttist þegar Jón Gnarr náði kjöri í embættið og reyndist afkastalítill og stefnulaus. Dagur B. lætur sjaldan ná í sig fari eitthvað úrskeiðis við stjórn borgarinnar.

Upplýst er að breytingin á Hlemmi í Mathöll sem Reykjavíkurborg kostar kallar á 308 milljónir króna frá útsvarsgreiðendum í stað 107 milljóna króna miðað við áætlun. Breyting á bragga við Nauthólsvík sem átti að kosta 158 milljónir króna samkvæmt áætlun kostaði reykvíska útsvarsgreiðendur 415 milljónir króna. „Því er nú haldið fram að dýrasti braggi veraldar sé í Nauthólsvík,“ sagði í Staksteinum Morgunblaðsins. Þegar málið var fyrst rætt hjá borginni var talið að endurgerð braggans kostaði 41 milljón króna.

Þessi tvö dæmi ásamt niðurstöðum í stjórnsýslumálunum sýna stjórnleysið undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

 

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018.