Eftirlitsiðnaður ríkisins blómstrar eftir hrun

Opinberir starfsmenn hafa mikla tilhneigingu til að fylgjast náið með hinum almenna borgara. Ef stjórnmálamenn stöðva ekki þá þróun mun eftirlitið bara aukast út í hið óendanlega.

Nú er liðinn áratugur frá því að allar helstu fjármálastofnanir landsins ýmist hrundu eða var ýtt fram af bjargbrúninni af hinu opinbera. Frá þeim tíma sem liðinn er hafa nær öll fyrirtæki landsins upplifað hæðir og lægðir í rekstri. Mörg fyrirtæki lentu í miklum erfiðleikum, þurftu að hagræða, segja upp starfsfólki, selja eignir, sameinast öðrum fyrirtækjum eða hætta starfsemi. Það tók nokkurn tíma að koma fyrirtækjum í gegnum þvottavélina, eins og það var kallað þegar fyrirtæki fóru í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árunum eftir hrun.

Á seinni hluta tímabilsins hefur verið nokkur uppgangur. Atvinnuleysi er lítið sem ekkert, hagvöxtur er mikill, kaupmáttur hefur aukist, verðbólgunni hefur verið haldið í skefjum (þótt það geti hæglega breyst á næstunni) og allir þekkja uppgang ferðaþjónustunnar. Þá er vert að nefna að á þeim áratug sem liðinn er frá hruni hefur orðið til fjöldi nýrra starfa samhliða fjórðu iðnbyltingunni.

Þó svo að allar hagtölur séu jákvæðar er nokkur spenna í hagkerfinu. Óraunhæfar kröfur lítils hóps innan verkalýðshreyfingarinnar geta hæglega komið atvinnulífinu í uppnám enda hafa laun hækkað umtalsvert á undanförnum árum, ríkisútgjöld halda áfram að aukast (um rúman milljarð á viku sé miðað við nýlagt fjárlagafrumvarp) og gengi krónunnar heldur áfram að sveiflast.

Þetta er aðeins rifjað upp í grófum dráttum til að minna á að bæði einstaklingar og fyrirtæki þurfa, ólíkt hinu opinbera, sífellt að laga sig að breyttum aðstæðum. Á góðæristímum er hægt að leyfa sér ýmislegt sem ekki var hægt áður, en þegar sverfir að þarf að bregðast við því með ýmsum hætti.

Það væri til að æra óstöðugan að ætla sér að fara yfir öll eftirmál hrunsins, s.s. stjórnlagaráð og galnar kröfur um breytta stjórnarskrá og á annað hundrað breytingar á skattkerfinu (sem flestar fela í sér hækkun skatta), svo ekki sé minnst á þá sem hafa þrifist á því að viðhalda reiðinni og biturðinni sem einkennir svo margt í þjóðfélagsumræðunni. Hér varð hrun er setning sem við höfum oft fengið að heyra síðastliðinn áratug.

Ríkið blómstrar

Sem fyrr segir þurfa bæði einstaklingar og fyrirtæki að bregðast við og sífellt að laga sig að breyttum aðstæðum. Það er ekkert annað í boði ætli menn sér að lifa af. Þetta á þó ekki við um ríkið; það er alltaf passað upp á ríkið. Starfsmönnum ríkisins fjölgaði um 1.500 í fyrra og ríkið greiðir nú hæstu meðallaun í landinu. Það er ekkert sem bendir til annars en að þessi þróun haldi áfram.

Einn er sá iðnaður, ef þannig má að orði komast, sem hefur fengið að blómstra eftir hrun. Það er það sem kalla má eftirlitsiðnaður ríkisins. Á þeim áratug sem liðinn er frá hruni hefur ríkið stækkað, umsvif eftirlitsstofnana aukist, nýjar orðið til að viðbættum öllum þeim lögum og reglugerðum sem sett hafa verið til að gæta þess að hvorki einstaklingar eða fyrirtæki fari sér að voða – eða eitthvað þannig.

„Stórfyrirtæki eiga sektir yfir höfði sér,“ var fyrirsögn sem blasti við lesendum á vef Ríkisútvarpsins í lok ágúst. Þar kom fram að aðeins 11% af stærstu fyrirtækjum landsins væru komin með svokallaða jafnlaunavottun. Jafnlaunavottun var lögfest í júní í fyrra og er markmið hennar sagt vera að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Vottunin nær til allra fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn eða fleiri. Um 1.200 fyrirtæki í landinu uppfylla þau skilyrði. Fyrirtæki með yfir 250 starfsmenn þurfa að vera komin með vottunina fyrir næstu áramót, ellegar eiga það á hættu að sæta dagsektum – 50 þúsund krónur á dag sem renna í ríkissjóð. Þetta eru um 130 fyrirtæki.

Jafnlaunavottunin er að öllu leyti þvingandi aðgerð af hálfu hins opinbera en hún skapar vissulega störf fyrir þá sem ýmist starfa við mælingu og gerð staðla, að ónefndum þeim sem ætlað er að sinna eftirliti með þessu öllu saman, hinum opinberu starfsmönnum Jafnréttisstofu. Það var nær engin mótstaða við þetta frumvarp, sem kynnt var af Viðreisn en stutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Meira að segja Viðskiptaráð studdi þessa þvingandi aðgerð af hálfu ríkisins og hrósaði ríkinu fyrir að nálgast þetta viðfangsefni með svo „framsæknum hætti“, eins og það var orðað í umsögn ráðsins. Til að gæta sanngirni er rétt að geta þess að ráðið varaði við því að þetta gæti orðið fyrirtækjum kostnaðarsamt, en þar með er listi athugasemda kláraður. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Viðskiptaráð kolféllu á prófinu.

Fjölmiðlaeftirlit ríkisins

Það eru fleiri dæmi. Á lista yfir óþarfa ríkisstofnanir eru fáar sem komast með tærnar þar sem Fjölmiðlanefnd hefur hælana. Fjölmiðlanefnd tók til starfa haustið 2011 eftir breytingu á fjölmiðlalögum. Á þeim sjö árum sem liðin eru hefur stofnunin gefið út 36 álit og ákvarðanir (skv. heimasíðu). Höfundi er óhætt að halda því fram að engin þeirra hefur bætt líf almennings með nokkrum hætti og í raun skipta þær engu máli – nema að því leyti þar sem einkareknir fjölmiðlar eru sektaðir.

Að öllu óbreyttu er stofnunin komin til að vera, með tilheyrandi kostnaði, skrifræði og undarlegum ákvörðunum eins og birt var fyrr á árinu þar sem einkarekinn fjölmiðill var sektaður fyrir „brot á reglum um hlutlægni“. Starfsmenn Ríkisútvarpsins þurfa þó ekki að óttast neitt slíkt.

Það er hægt að spyrja sig en svara um leið; ef Fjölmiðlanefnd yrði lögð niður á morgun og starfseminni hætt, myndi það einhverju breyta um líf okkar?

En fyrst minnst er á Ríkisútvarpið. Á meðan allir fjölmiðlar landsins hafa þurft að laga sig að breyttum aðstæðum, hagræða í rekstri, sameinast öðrum fyrirtækjum o.s.frv. – passar ríkið vel upp á Ríkisútvarpið. Aldrei hefur verið gerð nein sérstök hagræðingarkrafa á Ríkisútvarpið eftir hrun og í þeim fáu tilvikum sem stofnuninni hefur verið gert að hagræða hefur hún gripið til þess að útvíkka starfsemi sína til að afla sér tekna, nú síðast með lóðabraski og útleigu tækja í samkeppni við einkaaðila sem bjóða upp á sambærilega þjónustu. Að einhverju leyti á að draga úr umfangi stofnunarinnar á auglýsingamarkaði en það verður bætt upp með því að hækka nefskattinn. Skattgreiðendur þurfa með öðrum orðum að bæta ríkisstofnuninni upp tapið.

Myndavélar og sektir

Tilhneiging ríkisins hefur verið að auka leyfisveitingar, þenja út eftirlitið, setja á íþyngjandi reglur, setja á fót nýjar gjaldtökuheimildir og þannig mætti áfram telja. Í vor brást ríkið hratt við kröfu um aukið eftirlit með heimagistingu og veitti Sýslumanninum í Reykjavík bæði heimildir og fjármagn til að fylgja því eftir. Í sumar var fjallað um nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða þar sem Fiskistofu verður heimilt að setja upp myndavélar til að fylgjast með einstaklingum og vinnu þeirra um borð í öllum fiskiskipum, höfnum, flutningstækjum og fiskvinnslum auk þess sem ætlunin var að Fiskistofa ræki flota af fjárstýrðum loftförum til að tryggja eftirlitið. Frumvarpið er lagt fram af ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Annaðhvort styður ráðherrann svo víðtækt eftirlit ríkisins eða embættismennirnir hafa lagt línuna án þess að ráðherrann geri við það athugasemd. Það er erfitt að greina hvort er verra. Verði þetta frumvarp samþykkt setur það slæmt fordæmi og sjálfsagt munu aðrir eftirlitsaðilar fylgja fast á eftir.

Þá eru tilvik þar sem alþjóðleg lög hafa verið innleidd hér á landi. Íslenskir stjórnmála- og embættismenn hafa þó tilhneigingu til að ganga lengra og finna upp hjólið, svona líkt og þeir séu í keppni við útlenska embættismenn þar sem verðlaunin eru mæld eftir blaðsíðum reglugerða. Innleiðing nýrra persónuverndarlaga er gott dæmi um þetta. Loks hefur verið tilhneiging til að setja inn í lög ákvæði sem heimila eftirlitsstjórnvöldum að leggja á stjórnvaldssektir og dagsektir. Viðmiðin eru reglulega hækkuð með tilliti til fordæma annarra laga. Þetta var til að mynda gert við innleiðingu persónuverndarlaga en önnur nýleg dæmi eru breytingar á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir þar sem Samgöngustofa fékk auknar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir og dagsektir.

Enn eitt dæmið um misheppnaða afskiptasemi ríkisins er bankaskatturinn svokallaði, sem lagður var á með lögum í lok árs 2010 og hækkaður í lok árs 2013. Bankaskattinum var ætlað að bæta ríkinu að einhverju leyti það tjón sem hlaust af falli fjármálafyrirtækjanna haustið 2008. Niðurstaðan er þó sú að það eru einstaklingar og fyrirtæki sem greiða skattinn í formi hærri vaxta og skertra kjara enda verða útlán bankanna dýrari (skatturinn leggst á útlán).

Með öðrum orðum; almenningur þarf að greiða hærri skatta til að bæta ríkinu tjón af hruni bankanna fyrir tíu árum. Til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki fjársýsluskatt, sérstakan fjársýsluskatt og gífurlegankostnað vegna eftirlitsstofnana, t.d. Fjármálaeftirlitsins (FME). Það er því miður þannig að FME er nokkurn veginn í sjálfsvald sett hversu hátt gjaldið er. Það verður að teljast ólíklegt að nokkur stjórnmálamaður setji FME stólinn fyrir dyrnar og takmarki útþenslu þess, því að hér varð hrun!

Æfðar ræður kerfisins

Hér á síðum Þjóðmála hefur áður verið fjallað um það hvernig stofnanir á borð við sérstakan saksóknara, Seðlabankann og Samkeppniseftirlitið hafa farið offari við rannsóknir, húsleitir, hleranir og fleira – allt á kostnað þeirra sem fyrir þeim verða. Þrátt fyrir að vitað sé að sérstakur saksóknari hafi misnotað hlerunarheimildir sínar má finna, á þingmálalista ríkisstjórnarinnar, frumvarp þar sem lögreglunni eru veittar auknar heimildir um aðgang að fjarskiptaupplýsingum – án þess að fyrir liggi grunur um saknæma hegðun. Frumvarpið er þó ekki komið fram og það er ástæða til að vona að dómsmálaráðherra standi í vegi fyrir því að starfsmenn lögregluembætta (þá sérstaklega héraðssaksóknara) geti staðsett borgarana bara af því bara.

Ráðherrar og þingmenn heyra á hverjum degi æfðar ræður ríkisstarfsmanna um það af hverju og hvernig auka megi eftirlit hins opinbera með einstaklingum og fyrirtækja. En ef stjórnmálamenn standi ekki í vegi fyrir útþenslu eftirlitsiðnaðarins gerir það enginn. Þegar starfsmenn Fiskistofu viðra hugmyndir um að setja upp myndavélar um borð í skipum og við hafnir ætti ráðherra Sjálfstæðisflokksins að standa í vegi fyrir því að slíkar hugmyndir rati nokkurn tímann á pappír.

Árið 2011 var samkeppnislögum breytt til hins verra og Samkeppniseftirlitið fékk auknar heimildir, m.a. til þess að reka ákvarðanir sínar fyrir dómstólum í þeim tilvikum þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði snúið við ákvörðunum þess.

Samkeppniseftirlitið er líkast til sú stofnun sem atvinnurekendur vilja síst eiga samskipti við. Afgreiðsla mála tekur langan tíma og ákvarðanir hennar verða sífellt umdeildari. Það er margt hægt að segja og skrifa um Samkeppniseftirlitið – og fæst af því gott – en það er ljóst að stjórnmálamenn þurfa að taka stofnunina til algjörrar endurskoðunar. Nú stendur yfir endurskoðun á samkeppnislögum og þegar þær breytingar verða kynntar mun enn og aftur reyna á það hvort stjórnmálamenn ætla að standa með kerfinu eða fólkinu í landinu. Hingað til hafa þeir valið að standa með kerfinu, þannig að eftirvæntingin er ekki mikil.

Ef stjórnmálamenn setja ekki hnefann í borðið heldur kerfið bara áfram að stækka. Þá vinnur kerfið en almenningur tapar – og borgar.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála og ráðgjafi.

 

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.