Hvað er ríkisvaldið og hvers vegna þenst það út?

„Urge immediate abolition as earnestly as we may, it will, alas! be gradual abolition in the end. We have never said that slavery would be overthrown by a single blow; that it ought to be, we shall always contend.“ – William Lloyd Garrison

Mikið hefur verið rætt og skrifað um ríkisvaldið, bæði nú og á fyrri tímum. Ríkisvaldið tekur víða mikið pláss og þeir sem stjórna því ráða oft töluverðu um það hvernig samfélagið er skrúfað saman. Það er því ekki skrýtið að margar bækur séu til sem fjalla um uppruna, eðli og gangverk ríkisvaldsins.

Fyrir frjálshyggjumenn er skilningur á ríkisvaldinu mikilvægur. Það er jú óvinurinn – andstæðingur hins frjálsa framtaks, frelsis og samfélags. Vissulega starfrækir ríkisvaldið ákveðnar stofnanir sem að nafninu til verja eignir, refsa glæpamönnum og greiða úr ágreiningsmálum. Samhliða því stundar ríkisvaldið samt alltaf rányrkju á stórtækan og skipulegan hátt, bannar fórnarlambalausa iðju og er endalaus uppspretta átaka um hver eigi að fá að ráða. Sá sem ræður yfir stóru ríkisvaldi ræður yfir öllum innan landamæra þess.

Hér verður farið stuttlega yfir nokkrar bækur sem fjalla um ríkisvaldið á ýmsan hátt – hvað það er og hvað það er ekki. Það mætti kalla þetta leslista frjálshyggjumannsins en klappstýrur ríkiseinokunar hefðu vissulega gott af því að kynna sér gagnrýnin skrif um goðið sitt.

En við byrjum á stuttri hugleiðingu.

Ríkisvaldið – uppruni, eðli og innræti

Ríkisvaldið sem hugmynd, stofnun og fyrirbæri hefur lengi vafist fyrir stjórnmálaheimspekingum. Þeir vita ekki alveg hvað þeir eiga að gera við það. Á að lofa það eins og trúarlegt yfirvald og framlengingu guðanna að hætti forn-Egypta? Á að bölva því eins og kaldrifjuðum kúgara eins og þegnar Genghis Khan gerðu? Er ríkisvaldið tæki sem má nota til góðra verka eða er það fyrst og fremst barefli sem gæti á hverri stundu lent í röngum höndum? Skiptir máli hvernig stjórnkerfið er skrúfað saman eða eru mismunandi stjórnarform bara hjúpur utan um sama úrverkið? Er ríkisvald tímabundinna umboðsmanna (lýðræði) betra en ríkisvald konungborinna snobbhæna? Er það kannski öfugt? Sitt sýnist hverjum.

Eitt er víst: Ríkisvaldið er umdeilt. Sumir vilja stækka það en bara á meðan „rétta“ fólkið situr við stjórnvölinn – vilja að Obama þenji það út en Trump smækki það eða láti eins og það sé lítið. Sumir vilja minnka það en bara á meðan það kostar þá sjálfa ekki sporslur – vilja að innflytjendur missi atvinnuleysisbæturnar svo að skattar þeirra sjálfra geti lækkað.

Sumir vilja óbreytt ástand – að niðurgreiðslur til áhugamála og þarfa þeirra sjálfra haldi áfram óbreyttar því hættan er annars sú að þær flytjist yfir á áhugamál og þarfir annarra eða leggist af. Sá sem sækir niðurgreidda tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar finnst sú niðurgreiðsla vera hornsteinn siðmenningarinnar en aðrar niðurgreiðslur vera peningasóun. Sá sem fær listamannalaun til að skrifa bækur er að bjarga mannkyninu frá bölvun spjaldtölvunnar og finnst „þeir ríku“, sem framleiða eftirsótt verðmæti, eiga að borga meira í skatta.

Saga ríkisvaldsins einfaldar málið ekki. Flest ríki fæddust í leit stríðsherra að skattgreiðendum til að mjólka, t.d. með því að valta yfir varnarlausa eða illa vopnaða innfædda og setja þá í hlekki. Hið íslenska ríkisvald fæddist með samkomulagi nokkurra höfðingja við Noregskonung. Í engu tilviki hefur almenningur sest sjálfsviljugur við samningaborðið og afsalað sér forræðinu yfir sjálfum sér. Meira að segja þegar vel meinandi menn hafa orðið sammála um einhvers konar stjórnarskrá sem er ætlað að temja ríkisvaldið hefur það alltaf snúist í höndunum á þeim með tíð og tíma. Menn hafa reynt ýmislegt til að réttlæta tilurð ríkisvaldsins – að það sé sköpun Guðs, samningur frjálsra einstaklinga, illnauðsynleg vörn sem menn komu sér upp gegn ringulreið eða ytri óvinum – en það breytir engu. Saga ríkisvaldsins er saga yfirráða, oftar en ekki með vænum skammti af ofbeldi. Og þetta er hin versta gerð ofbeldis: Vel fjármögnuð, skipulögð og oftar en ekki umborin af þeim sem sleppa við ofbeldið. Handahófskenndir glæpir einstaklinga komast ekki með tærnar þar sem skipulagðir glæpir ríkisvaldsins hafa hælana.

Enn er samt haldið áfram að verja ríkisvaldið sem stofnun. Núna er því stjórnað með lýðræði – af fólkinu! Án þess hrynur samfélagið! Hver ætlar annars að leggja vegina? Og vissulega má segja að nútímalegt, vestrænt ríkisvald sé skárra en það sem hefur einkennt 99% af mannkynssögunni og einkennir 90% af jarðarkringlunni í dag.

Heimspekileg réttlæting nær samt aldrei lengra en að kalla ríkisvaldið „illa nauðsyn“, svona eins og maðurinn sem lemur konu sína réttlætir ofbeldið með því að annars færi hún bara að slaka of mikið á í heimilisverkunum og vanrækja skyldur sínar.

Að mínu mati er mafían besta samlíkingin fyrir ríkið, eðli þess, uppruna og innræti. Mafían innheimtir verndargjöld á umráðasvæði sínu og þeir sem reyna að sleppa því að borga lenda í alvarlegum vandræðum. Mafían heldur öðrum mafíum frá svæðinu en bara gegn ríflegu gjaldi. Mafían réttir oft út hjálparhönd til þeirra sem eru hliðhollir henni en ekki annarra, en þó alltaf á kostnað annarra. Hún beitir ofbeldi ef hún finnur sig knúna til þess og telur sig ekki þurfa að spila eftir sömu leikreglum og aðrir.

Það er á þessum nótum sem fyrsta bókin er kynnt til leiks.

Organized Crime: The Unvarnished Truth About Government – eftir Thomas J. DiLorenzo

Hver er munurinn á skipulagðri glæpastarfsemi og ríkisvaldinu? Að mati Thomas J. DiLorenzo, hagfræðiprófessors í Bandaríkjunum, er sá munur ekki til staðar í eðli sínu. Ríkisvaldið er skipulögð glæpastarfsemi.

Í bókinni er ríkisvaldið gagnrýnt frá öllum hugsanlegum hliðum um leið og hið frjálsa framtak er varið og ýmsar neikvæðar sögu- sagnir um frjálsa samvinnu og frjálst framtak aflífaðar. Textinn er lipur og boðskapurinn hrífandi. Samlíkingin við mafíuna hittir líka beint í mark, eins og lesendur sjá fljótlega.

Bókina má sækja endurgjaldslaust á heimasíðu hinnar bandarísku Mises-stofnunar.

En ef ríkisvaldið er í eðli sínu bara lögleg mafía, af hverju beygjum við okkur fyrir því? Í næstu bók reynir höfundur að varpa ljósi á það.

The Politics of Obedience: The Discourse of Voluntary Servitude – eftir Étienne de La Boétie

Árið er 1549. Ungur franskur háskólanemi að nafni Étienne de La Boétie, fullur eldmóðs, sest niður og reynir að átta sig á því af hverju fólk tekur við fyrirmælum frá ríkisvaldinu, sem á hans tíma var frekar þrúgandi einveldi. Hvað veldur hinni skilyrðislausu hlýðni, að því er virðist, við yfirvöld sem eru greinilega miklu uppteknari af hagsmunum örfárra höfðingja en almúganum sem fæðir þá og klæðir?

Höfundur kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að sú ánauð sem við höfum vanist undir stjórn ríkisvaldsins hafi blindað okkur fyrir sannleikanum, rænt okkur metnaðinum og deyft þá meðfæddu ósk okkar að vera frjáls. Kannski það sé rétt niðurstaða, því þegar höfundur bókarinnar kláraði námið sitt gekk hann til liðs við hið opinbera sem embættismaður og hvarf inn í báknið.

Litla bókin hans um sjálfviljuga ánauð hefur hins vegar lifað til dagsins í dag og mun gera það áfram. Bókina má sækja endurgjaldslaust á heimasíðu hinnar bandarísku Mises-stofnunar.

En getur verið að það sé fleira en fáviska, heilaþvottur og metnaðarleysi sem gerir marga svo heillaða af ríkisvaldinu?

Já, auðvitað. Fyrir mörgum er hið óþekkta verra en hið vel þekkta jafnvel þótt hið vel þekkta sé þrælahald, ánauð, kúgun og miðstýring. Í næstu bókum reyna höfundar að draga aðeins úr áhyggjum þeirra sem óttast þær breytingar sem felast í minna ríkisvaldi.

For a New Liberty: The Libertarian Manifesto – eftir Murray N. Rothbard

Hagfræðingurinn, sagnfræðingurinn, heimspekingurinn, stjórnmálafræðingurinn og háskólaprófessorinn Murray N. Rothbard er af mörgum talinn vera faðir frjálshyggjunnar eins og hún gerist tærust. Eftir hann liggur lítið bókasafn af fræðigreinum, fyrirlestrum, blaðagreinum og bókum. Hann skrifaði bækur fyrir bæði fræðimenn og leikmenn og meðal þeirra í síðarnefndum hópnum er hið klassíska rit For a New Liberty.

Bókin var gefin út um það leyti sem frjálshyggjan var á ný byrjuð að njóta hylli eftir dágóðan dvala á meðan hagfræðingar af skóla Keynes lögðu frjálsan markað að töluverðu leyti í rúst og sendu hverja kreppuna eftir annarri yfir grunlausan almúgann.

Peningaprentun og „vísindaleg stjórnun“ ríkisins á hagkerfinu átti að leysa öll vandamál en raunin reyndist önnur. Það var því orðið tímabært að vekja athygli á frjálsum markaði á ný.

Murray sparar ekki stóru spurningarnar. Hvað gerist ef ríkið víkur í auknum mæli fyrir hinu frjálsa framtaki? Hver ætlar að framfylgja réttvísinni ef dómstólar ríkisvaldsins minnka umsvif sín? Hver ætlar að leggja vegina? Hvað á að gera við mengun? Hver ætlar að byggja vitana og hjálpa þeim fátæku og sjúku?

Þessar spurningar og fleiri leita hratt á þá sem velta fyrir sér frjálsara samfélagi. Flest eigum við erfitt með að sjá fyrir okkur hvað gerist ef hinn kæfandi faðmur ríkisvaldsins losar um tak sitt. Það er samt óþarfi að óttast. Í flestum tilvikum er hægt að benda á fordæmi þar sem ríkisvaldið einfaldlega ýtti einkaaðilum til hliðar og hirti heiðurinn en kenndi öðrum um vandræðin.

Einfalt dæmi er vitar sem beina skipum að höfn. Þeir eru yfirleitt reknir af opinberum einingum í dag en svo hefur ekki alltaf verið og vitar eru raunar uppfinning hins frjálsa markaðar. Annað dæmi er peningar, en ríkið hirti útgáfu þeirra af einkaaðilum til að auka tekjur sínar með peningaprentun (eða rýrnun á innihaldi góðmálma í myntum).

Ónefnd eru svo réttlætisrökin. Við eigum ekki að styðja við frjálst samfélag af því að við verðum rík af því heldur af því það er réttlátt. Þeir sem börðust fyrir afnámi þrælahalds gerðu það ekki til að auðgast á því heldur af því að frelsi var þeim réttlætismál. Og þótt mótbárur heyrist og baráttan taki tíma á ekki að gefast upp. Réttlæti er eina ásættanlega niðurstaðan.

Ríkisvaldið hefur raunar aldrei fundið upp neina stofnun sem gagn er að. Góðverk voru framkvæmd áður en velferðarkerfið var stofnað. Börn lærðu að lesa áður en ríkið lagði undir sig menntakerfið til að heilaþvo ungviðið. Dómstólar hafa verið til í öllum samfélögum án ríkisvalds, eins og íslenska þjóðveldið er dæmi um.

Allt sem ríkið gerir í dag og má teljast vera gagnlegt hefur það einfaldlega hrifsað af einkaaðilum. Um leið hefur sú þjónusta hækkað í verði og rýrnað í gæðum. Aðhaldslaus einokun er ávísun á slíka þróun.

En á frjálshyggjan við í dag? Rann hún ekki út þegar þrælahald hafði verið afnumið, einveldiskonungum hafði verið steypt af stóli og stjórnarskrám verið komið á til að temja hið opinbera og verja réttindi og eignir einstaklinga? Það er öðru nær. Enn þrífast stórir afkimar ríkisvalds hvert sem litið er og á þá þarf að herja. Um það fjallar næsta bók.

Libertarianism Today – eftir Jacob H. Huebert

Áttu að fá að eiga byssu til að verja þig gegn vopnuðum ræningjum og ofbeldismönnum? Getur þú fengið góða hugmynd, t.d. að nýju lyfi, og bæði grætt á henni og bannað öðrum að notast við hana? Áttu að fá að neyta eiturlyfja? Má skylda þig til að borga fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshornum? Eða svipta þig frelsi og senda þig í hernaðarleiðangra? Eiga læknar ríkisvaldsins einir að fá að meðhöndla þig?

Allt eru þetta áleitnar spurningar en frjálshyggjumenn einir hafa svör sem falla bæði að tilfinningu okkar fyrir réttlæti og hagkvæmnisrökum hagfræðinnar.

Lögfræðingurinn Jacob H. Huebert, sem berst í starfi sínu gegn átroðningi ríkisvaldsins á almennum borgurum, hefur sett saman frábæra samantekt um stöðu frjálshyggjunnar í dag. Það kemst enginn ósnortinn í gegnum hnitmiðaða röksemdafærslu hans.

Ríkið sem hættir aldrei að stækka

Að öllu þessu sögðu er auðvelt að útskýra af hverju hið opinbera virðist hafa endalausa tilhneigingu til að þenjast út og hrifsa til sín meira og meira af samfélagi og hagkerfi. Ríkisvaldið, þ.e. þeir sem starfa innan þess og þrífast á skattheimtunni, fær að starfa nánast óáreitt því grunlaus almenningur treystir á hið opinbera til að forða samfélaginu frá óreiðu og lélegum vegum. Fáir í dag hafa upplifað ár hinna tröllauknu framfara í lífskjörum almennings þegar ríkisvaldið hélt að sér höndum og almenningur var gagnrýninn á skattheimtumanninn. Við erum orðin samdauna stöðnun og stanslausum opinberum afskiptum, og höfum misst allan metnað til að komast enn lengra sem mannkyn og samfélag.

Þegar ríkið hefur tekið þrjú skref í átt að útþenslu virðist taka ár og daga að taka eitt skref til baka. Þetta má líka skrifa á aðhaldsleysi almennings og ótta hans við óvissuna sem tekur við þegar járnhnefinn losar um tak sitt. Það er auðvelt að koma listamanni á spenann og borga honum fyrir að drekka kaffi en um leið og á að leggja niður þann styrk blasir við að listamaðurinn endar hungurmorða á götunni og veslast upp. Það er auðvelt að borga manni fyrir að framleiða tómata í gróðurhúsi með ærinni fyrirhöfn á óhagkvæman hátt í vonlausri samkeppni við sólbaðaða tómata frá suðrænum ríkjum. Sé sá styrkur afnuminn endar bóndinn á atvinnuleysisskrá og það er óvinsælt. Spyr þá enginn að því hvernig það kom til í upphafi að fara í samkeppni við sólina.

Það þarf að veita ríkisvaldinu viðspyrnu á allan hugsanlegan hátt: Með notkun sagnfræði, rökfræði, hagfræði, réttlætis og frelsisþrár. Við þurfum ekki á ríkisvaldinu að halda. Þeir sem vilja ríghalda í einhverja afkima þess skulda skýringar á því af hverju. Það er ekki nóg að segja í sífellu „svona er þetta“ eða „svona hefur þetta alltaf verið“, og alls ekki að spá heimsenda og ringulreið ef ríkisvaldið kemur sér úr veginum. Þeir sem börðust fyrir afnámi þrælahalds vissu ekki hvað tæki við annað en réttlæti. Við þurfum ekki að óttast frjálsa samvinnu í frjálsu samfélagi. Frjálshyggjumenn eiga að vita þetta og sjá til þess að aðrir viti líka.

Höfundur er verkfræðingur

 

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.