Silfrið: Vinstri-vísitalan heldur velli

Í vetrarhefti Þjóðmála 2018 var birtur listi yfir gesti Silfursins, stjórnmálaþáttar sem sýndur er í Ríkissjónvarpinu á sunnudögum. Þátturinn á sér langa sögu en hefur á undanförnum árum verið sýndur í ríkisfjölmiðlinum.

Tekið var fram að í lögum um Ríkisútvarpið ohf. er skýrt kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Eftirfylgni á þessum lögum er þó ávallt háð huglægu mati. Farið var yfir þá gesti þáttarins sem tekið höfðu þátt í hinum fasta lið, Vettvangur dagsins frá því að Silfrið hóf aftur göngu sína sl. haust og fram í miðjan desember. Venjan er sú að fjórir gestir taki þátt í umræðum um það sem helst ber á góma í stjórnmálum hverju sinni eða þá því sem þáttastjórnendum dettur í hug að fjallað um. Af þeim 55 einstaklingum sem þá hafði verið boðið í þáttinn til að ræða um viðhorf sín til stjórnmála var um helmingur þeirra einstaklingar sem flokka má sem vinstrimenn.* Um fimmtung gesta mátti þá flokka sem hægri- eða miðjumenn.

Nú þegar liðið er fram í apríl (þegar vorhefti Þjóðmála kom út) hefur alls 121 gesti verið boðið að taka þátt undir þessum lið þáttarins. Eins og sjá má á listanum hér á opnunni hefur nokkrum verið boðið tvisvar og sumum þrisvar og eru nöfn þeirra talin upp eftir því.

Af þessum gestum er hægt með sanngjörnum hætti að flokka 63 þeirra sem vinstrimenn. Hlutföllin hafa því haldist svo gott sem óbreytt frá því í aðventunni. Af 121 gest mætti flokka 21 til hægri og 23 í miðju. Aðrir, 14 talsins, eru óflokkaðir eftir pólitísku litrófi.

*Sigríður María Egilsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, var ranglega flokkuð á vinstri kantinum í síðasta riti. Þó svo að þingflokkur Viðreisnar teygi sig ítrekað í samstarf til vinstri má teljast fullgróft að Viðreisnarfólk sem vinstrimenn og er Sigríður María beðin velvirðingar á þessum mistökum. Af gefnu tilefni og vegna athugasemda sem bárust frá fyrri útgáfu er rétt að taka fram að þó svo að þingmönnum Viðreisnar sé hér ýtt frá vinstri og inn á miðju verður seint sagt að fyrrverandi formaður flokksins, Benedikt Jóhannesson, sé annað en hægrimaður.