Áætlanagerð, áætlanagerð og meiri áætlanagerð

Mao Zedong

Fyrir skömmu las ég bókina Mao‘s Great Famine eftir Frank Dikötter. Með því að nota einstæð söguleg skjöl veitir Dikötter áhugaverða innsýn í afleiðingar þeirrar viðamiklu áætlanagerðar sem ríkisstjórn Kína stóð fyrir á árunum 1958 til 1962 og kallaði Stóra stökkið fram á við. Markmiðið var að auka iðnaðar- og landbúnaðarframleiðslu í þeim mæli að Kína kæmist á fimmtán árum fram úr Stóra-Bretlandi á báðum þessum sviðum. Þessu átti að ná fram með því að endurskipuleggja auðlindir og mannauð. Ég mæli eindregið með lestri bókar Franks Dikötter.

Mao’s Great Famine
Höfundur: Frank Dikötter
Útgefandi: Walker & Company
Bandaríkin, 2010

Við lestur Mao‘s Great Famine hjó ég eftir tvennu sem oft gleymist þegar rætt er um opinberar áætlanagerðir. Hið fyrra er að áætlanagerð hefur óhjákvæmilega áhrif á frumkvæði þeirra sem hún tekur til og hið síðara er að þar sem áætlanagerð brenglar hagkerfið leiðir hún óhjákvæmilega til meiri áætlanagerðar. Þetta verður að vítahring sem erfitt er að brjótast út úr. Stefna ríkisstjórnar kínverska kommúnistaflokksins á tímum Stóra stökksins fram á við opinberaði þetta á sársaukafullan hátt.

Eitt af því fyrsta sem gerðist þegar Kommúnistaflokkurinn náði völdum í Kína var að öll framleiðsla var sett undir stjórn ríkisstjórnarinnar. Kommúnistaflokkurinn keypti alla landbúnaðarframleiðsluna fyrir verð sem ríkisstjórnin ákvarðaði. Verð gegnir afar mikilvægu hlutverki í hagkerfinu, ekki aðeins með því að tryggja að öllum afurðum sé dreift þangað þar sem þær hafa mest gildi heldur sendir það líka skilaboð til markaðsaðila. Hið einfalda lögmál um framboð og eftirspurn verður til þess að verðið segir framleiðendum hvað þeir eigi að framleiða. Þegar verð hækkar, til dæmis vegna aukinnar eftirspurnar, vita framleiðendur hvaða vöru þeir eiga að framleiða í meira magni.

Þetta kann að virðast augljóst, en sagan segir okkur að svo er ekki. Kröfur um verðstýringu hafa heyrst og heyrast enn, ekki síst á húsnæðismarkaði (en um hann hef ég áður skrifað). Frank H. Knight lýsti skoðun sinni á fremur svartsýnan hátt í American Economic Review árið 1949.

Ef menntað fólk getur ekki eða vill ekki sjá að fast verð undir markaðsverði leiðir óhjákvæmilega til „skorts“ (og verð yfir markaðsverði til „offramboðs“) er erfitt að hafa trú á því að það komi að gagni að sýna því fram á eitthvað annað varðandi þetta efni.

Auðvelt var að spá fyrir um afleiðingarnar í Kína. Þegar eignaréttur var afnuminn og bændum gert að auka framleiðsluna og selja hana á því undirverði sem ríkisstjórnin ákvarðaði dró verulega úr framleiðslu. Afleiðingin varð skortur á matvælum. Því sem á eftir fylgdi hefði sennilega verið hægt að afstýra.

Hinar óhóflegu áætlanagerðir höfðu, með því að draga úr einstaklingsfrumkvæði, leitt til matvælaskorts sem kallaði gífurlega hungursneyð yfir þjóðina.

Í kommúnistaríkjum var áróðurinn allsráðandi. Hér má sjá áróðursplagg fyrir Stóra stökkið fram á við, hvar Maó leiðir hamingjusama bændur til móts við framtíðina.

Kommúnistaflokkurinn stóð frammi fyrir tveimur valkostum: að viðurkenna mistök og fella úr gildi reglugerðir sem bönnuðu einkaframtak eða, og þetta var vondi valkosturinn, að auka áætlanagerðina til mótvægis við afleiðingarnar af fyrri áætlanagerðum.

Friedrich von Hayek hélt því fram í bókinni Leiðin til ánauðar (The Road to Serfdom, 1944) að leiðin til samfélaga þar sem hagkerfið væri að miklu leyti háð miðstýringu væri ekki augljós, þótt undantekningar væru til. Þess í stað sköpuðu smávægileg inngrip og reglugerðir um hvernig markaðurinn skyldi virka litlar en ástæðulausar bjaganir. Þegar bjaganirnar koma í ljós eru þær oft túlkaðar á rangan hátt, til dæmis sem afleiðingar of mikillar samkeppni eða of mikils markaðsfrelsis.

Þar sem inngrip ríkisstjórna þykja eðlileg er auðvelt að skilja að fólk sætti sig við enn frekari smávægileg inngrip. Þannig leiða slík smávægileg skref þjóðir í afar regluvæddu hagkerfi.

Þessi innsýn Hayeks skiptir miklu máli þegar við skoðum Kína á tímum Stóra stökksins fram á við. Miðstýring hafði leitt til matvælaskorts og í stað þess að viðurkenna að Kommúnistaflokkurinn hefði haft rangt fyrir sér þurfti að finna blóraböggla.

Á þessari mynd blasir raunveruleikinn þó við, hungur og eymd. Talið er að um 45 milljónir manna hafi látist vegna áætlanagerðar Maós.

Á meðal fyrstu lausnanna sem boðið var upp á var Herferðin mikla gegn spörfuglum. Spörfuglar borða meðal annars korn. Þess vegna var auðvelt að benda á að matvælaskorturinn stafaði í raun af því að þessir grimmu fuglar stælu korninu sem réttilega tilheyrði kínverskri alþýðu. Stríð gegn náttúrunni, sennilega hið mesta sem hefur verið háð í sögu mannkynsins, var hafið. Kínverjar fóru hópum saman út, vopnaðir löngum prikum, pottum og pönnum, til að hræða fugla og koma í veg fyrir að þeir settust á jörðina. Fuglarnir féllu svo örmagna af himnum. Herferðin mikla gegn spörfuglum heppnaðist að því leyti til að með henni tókst að útrýma næstum öllum spörfuglum. En ekki tókst að vinna bug á matvælaskortinum.

Kommúnistaflokkurinn áttaði sig of seint á því að spörfuglar eiga sinn náttúrulega stað í fæðukeðjunni og að þeir eru mikilvægir til dæmis til að hafa stjórn á engisprettum. Árið eftir kom í ljós hversu skelfilegar afleiðingarnar voru þegar stór engisprettuger átu og skemmdu það litla sem eftir var af matvælum.

Árangurslausar tilraunir, þar á meðal fleiri áætlanagerðir, meðal annars um ofnotkun varnarefna, skiluðu litlum árangri. Að mati Franks Dikötter var gjaldið sem greiða þurfti fyrir þetta skammvinna en hrikalega tímabil óhóflegra áætlanagerða dauði 45 milljóna manna sem flestir dóu úr hungri.

Hvað getum við lært af þessu skelfilega dæmi? Von mín er sú að þegar rætt er um regluverk ríkisstjórna sem ætlað er að draga úr áhrifum einhvers óæskilegs atburðar sé fyrst leitað að orsök atburðarins. Ef orsökin er í raun einhverjar aðrar reglur er ólíklegt að fleiri reglur séu rétta svarið – þess í stað gætum við reynt að gefa frjálsri samkeppni og frjálsum markaði raunveruleg tækifæri.

Höfundur er lektor í fasteignafræðum við Háskólann í Lundi.

Heimildir:

  • Hayek, F. (1944) The Road to Serfdom, Chicago: University of Chicago Press.
  • Knight, F. H. (1949). Truth and Relevance at Bay. The American Economic Review, 39(6), 1273-1276.

Bókarýnin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.