Aukin framleiðni – forsenda betri lífskjara

Lífskjör geta aðeins batnað og velferð aukist ef framleiðni eykst. (Mynd: VB/HAG)

Grundvöllur betri lífskjara er aukin framleiðni, þ.e. aukin verðmætasköpun á hverja vinnustund. Þetta efnahagslögmál á sér þó færri talsmenn en að bætt kjör megi einkum þakka baráttu hugsjónafólks. Verðmæti skapast í flóknu samspili margra þátta í atvinnulífinu og viðhorf sem ekki taka mið af því kunna að eiga stóran þátt í linnulitlum kjaraátökum hér á landi. Lífskjör hefðu líklega batnað enn meira síðustu áratugi með minni átökum um skiptingu gæðanna og jafnari og hófstilltari þróun launa, verðlags og vaxta.

Hannes G. Sigurðsson er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Framleiðni og kaupmáttur haldast í hendur

Framleiðni vinnuafls og fjármagns skiptir langmestu máli fyrir lífskjörin. Lífskjör geta aðeins batnað og velferð aukist ef framleiðni eykst. Framleiðni og hagvöxtur eru nátengd hugtök. Landsframleiðslan vex þegar störfum fjölgar og þá mælist hagvöxtur. Landsframleiðsla á hvern vinnandi mann, þ.e. framleiðni vinnuafls, vex þó ekki nema verðmæti aukist meira en störfum fjölgar, að gefnum óbreyttum vinnutíma. Verðmætaaukning á hverja vinnustund getur átt sér fjölmargar skýringar, s.s. fjárfestingar sem stuðla að aukinni framleiðslu, tækniframfarir sem bæta nýtingu vinnuafls og fjármagns, betri framleiðsluaðferðir, aukna menntun, betri stjórnun, skipulagsbreytingar, nýsköpun, markaðssókn og vísindaframfarir.

Náið samhengi er milli kaupmáttar launa og verðmætasköpunar á hverja vinnustund. Til langframa batna kjör einungis ef framleiðni við framleiðslu vöru og þjónustu eykst. Launahækkanir umfram framleiðnivöxt valda til lengdar annaðhvort verðbólgu eða fækkun starfa, eða hvoru tveggja.

Mikil hækkun launa umfram framleiðni, t.d. vegna óábyrgra kjarasamninga eða launaskriðs af völdum ofþenslu í efnahagslífinu, rýrir því lífskjör þegar til lengri tíma er litið og ýtir undir sveiflur í efnahagslífinu. Sveiflukenndur kaupmáttur launa raskar áætlunum fólks og fyrirtækja og efnahagssamdráttur í kjölfar mikilla þensluskeiða leiðir óhjákvæmilega til atvinnuleysis. Jafn og traustur hagvöxtur er því ákjósanlegri en hraður og ótryggur vöxtur. Sígandi lukka er best í þessum efnum. Hagstjórn, þ.e. stjórn opinberra fjármála og peningamála og launastefna á vinnumarkaði, sem sneiðir hjá miklum hagsveiflum leggur grunn að meiri langtímahagvexti og betri lífskjörum en ella.

Viðspyrnan frá síðustu efnahagslægð

Á síðasta ári hóf Hagstofan birtingu talna um framleiðni vinnuafls eftir atvinnugreinum. Talnaröðin nær þó aðeins til áranna 2008-2017, en fyrirhugað er að birta tölur um lengra tímabil á næstu misserum. Þó að erfitt sé að draga marktækar ályktanir af svo stuttu tímabili, auk þess sem það hefst í djúpri efnahagslægð, er margt sem vekur athygli. Áhugavert er að skoða hvar viðspyrnan hefur verið mest í formi aukinnar framleiðni, eins og sést á súluritinu hér fyrir neðan.

Fyrst er að nefna að framleiðniaukning í öllu hagkerfinu á þessu tímabili var 1,3% á ári að jafnaði, sem er í takti við áætlað langtímameðaltal hennar á Íslandi, sem er að framleiðni vinnuafls hafi aukist um 1,5% að meðaltali á ári undanfarna áratugi. Aukningin var langmest í atvinnugreininni upplýsingum og fjarskiptum, 5,1% á ári að jafnaði, en þar á eftir komu atvinnugreinar sem búa við mesta samkeppni, annaðhvort á alþjóðamarkaði eða keppa við innflutta vöru og þjónustu, en aukningin í þeim var 2,7-3,9% á ári að jafnaði. Engum vafa er undirorpið að mikil og ör framþróun í upplýsingatækni og fjarskiptum hefur stuðlað að mikilli framleiðniaukningu í öllum greinum atvinnulífsins.

Fiskveiðar, fiskeldi og landbúnaður eru flokkaðar saman, en þar vegur landbúnaður um fimmtung. Athygli vekur hversu lítil framleiðniaukning var í þessum flokki, eða einungis 0,6% á ári að jafnaði. Það er bagalegt að útgerð og fiskvinnsla flokkist ekki saman í sjávarútveg í framleiðnigögnum Hagstofunnar. Fiskvinnsla flokkast sem iðnaður, en talsverð fjárfesting var í greininni á þessu tímabili sem fækkaði störfum með aukinni sjálfvirkni og leiddi til aukinnar framleiðni vinnuafls. Þá kemur ekki á óvart ör framleiðniþróun í atvinnugreininni upplýsingar og fjarskipti á þessu tímabili vegna stöðugra og mikilla framfara í upplýsingatækni, né heldur framleiðniminnkun í fjármálakerfinu, því í upphafi tímabilsins var stærð bankanna í hámarki og þeir skruppu síðan saman í bankahruninu haustið 2008.

Þróunin síðustu tvo áratugi áætluð

Gagnlegt væri fyrir upplýsta umræðu um kjara- og velferðarmál að framleiðnitölur næðu yfir lengra tímabil. Þó má gera grófa áætlun um framleiðniþróun eftir atvinnugreinum á árabilinu 1997-2007 á grundvelli talna Hagstofunnar um vinnsluvirði skv. framleiðsluuppgjöri og áætluðum fjölda vinnustunda samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn stofunnar.

Niðurstaða þeirrar áætlunar sést á súluritinu hér að neðan, en þar kemur fram árleg framleiðniaukning fimm atvinnugreina og hagkerfisins í heild.

Framleiðniaukning vinnuafls í efnahagslífinu öllu, þ.m.t. hinu opinbera, var 2,8% á tímabilinu 1997-2017 samkvæmt þessum útreikningum og var þannig mun meiri á fyrri hluta tímabilsins en því síðara.

Framleiðniaukningin var mest í sjávarútvegi, 3,3% árlega að jafnaði, sem skýrist fyrst og fremst af mjög mikilli fækkun vinnustunda, bæði í fiskvinnslu og útgerð. Framleiðniaukningin var einnig mikil í iðnaði, 3,0% árlega að jafnaði, sem skýrist að hluta af álveri Fjarðaáls sem hóf rekstur árið 2007. Framleiðniaukningin var álíka mikil í öðrum samkeppnisgreinum atvinnulífsins og hagkerfisins í heild, eða á bilinu 2,0-2,6%.

Samspil kaupmáttar og framleiðni

Það er áhugavert að bera saman þróun framleiðni vinnuafls og kaupmáttar launa. Hagstofan hefur birt vísitölur launa í atvinnugreinunum sem hér er fjallað um, þ.e. framleiðslu, byggingarstarfsemi, verslun og flutningum, fyrir tímabilið 2005-2018.

Á súluritinu hér að ofan er sjávarútvegi bætt við og launaþróun þar áætluð út frá þróun meðallauna fiskvinnslufólks, en ekki liggja fyrir opinberar tölur um launaþróun sjómanna. Í meðfylgjandi samanburði hefur launaþróun á almennum vinnumarkaði í heild verið skeytt framan við talnaraðir atvinnugreinanna á tímabilinu 1997-2005 og hagkerfisins í heild.

Á þessum tveimur áratugum, 1997-2017, óx kaupmáttur launa og framleiðni vinnuafls álíka mikið í efnahagslífinu í heild, eða um 2,4-2,8% árlega að jafnaði. Það felur í sér að framleiðni vinnuafls og kaupmáttur launa var 60-70% hærri árið 2017 en tveimur áratugum fyrr. Framangreindur samanburður sýnir að kaupmáttur launa og framleiðni vinnuafls haldast í hendur til langs tíma, með tilteknum frávikum sem eiga sér yfirleitt einfaldar skýringar.

Hófsemd stuðlar að meiri velferð

Kaupmáttur launa jókst meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum á árunum 1997-2017. Kaupmáttur jókst um 2,4% árlega að jafnaði á Íslandi, 2,1% í Noregi, 1,7% í Svíþjóð og 1,1% í Danmörku. Miklu munar um hverja prósentu þegar litið er yfir langt tímabil. Þannig var kaupmáttaraukningin í heild 61% á Íslandi, 50% í Noregi, 39% í Svíþjóð og 23% í Danmörku á þessu tímabili. Þetta segir þó ekki alla söguna.

Skuggahlið batnandi lífskjara á Íslandi á þessu tímabili var meiri verðbólga, hærri vextir og meiri sveiflur í efnahagslífi en í samanburðarlöndunum. Samanburður við Norðurlandaríkin þrjú sýnir að launahækkanir á Íslandi voru að jafnaði tvöfalt til þrefalt meiri, verðbólga tvöfalt til fjórfalt meiri og stýrivextir einnig tvöfalt til fjórfalt hærri.

Mikil verðbólga leikur þá verst sem við lökust kjör búa og bera þunga framfærslubyrði. Háir vextir leggjast hlutfallslega þyngst á ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði og leigjendur, en gera má ráð fyrir að í báðum hópunum sé hátt hlutfall lágtekjufólks.

Enginn vafi leikur á því að velferð landsmanna hefði aukist enn meira ef kaupmáttaraukning launa hefði átt sér stað við lægri verðbólgu og vexti. Í Noregi var til að mynda næstum jafn mikil kaupmáttaraukning og á Íslandi á þessu tímabili en verðbólgan var rúmlega helmingi minni. Svíar náðu sínum ágæta árangri með tæplega 3% launahækkunum og 1% verðbólgu árlega að jafnaði.

Íslendingar mættu gjarnan læra af eigin reynslu og nágrannaþjóðanna. Haft er eftir Otto von Bismarck að kjánar segist læra af eigin reynslu en hann kjósi að læra af reynslu annarra. Lærdómurinn er einfaldlega sá að stilla launahækkunum í hóf svo þær séu í samræmi við verðmætasköpun á hverjum tíma og leggja áherslu á efnahagsstjórn sem jafnar efnahagssveiflur eins og kostur er.

Mest kaupmáttaraukning á Íslandi meðal OECD-ríkja 1997-2017

Kaupmáttur launatekna jókst meira á Íslandi en í öðrum aðildarríkjum OECD á tímabilinu 1997-2017. Mælikvarði OECD kallast Compensation per employee in the total economy, sem þýða má sem launatekjur á hvern starfsmann í hagkerfinu. Þessi hagfellda niðurstaða fyrir íslenskt launafólk átti sér stað þrátt fyrir bankahrunið á miðju tímabilinu. Jafnframt styttist vinnutími Íslendinga verulega á þessum tveimur áratugum þar sem meðalvinnuvikan styttist um 3,5 stundir, eða 8%. Á móti jókst hlutur launa í verðmætasköpuninni úr 57% í 63% og er orðinn einna hæstur meðal OECD-ríkjanna. Samandregið sýna þessar tölur magnaða frammistöðu íslensks efnahagslífs og mikinn viðnámsþrótt þegar á móti hefur blásið.

Lífskjarasamningurinn, framleiðniaukning og sveiflujöfnun

Í Lífskjarasamningnum 2019 eru launahækkanir tengdar við framleiðniaukningu og jafnframt er í honum viðleitni til jöfnunar kjarasveiflna. Samkvæmt ákvæði samningsins um hagvaxtarauka munu launaliðir samningsins hækka á samningstímanum ef framleiðni (skilgreind sem hagvöxtur á hvern íbúa) vex meira en 1%. Þá munu kauptaxtar hækka ef launaskrið á markaði verður umfram tiltekin mörk samkvæmt ákvæði um kauptaxtaauka. Þannig er ætlunin að koma í veg fyrir spennu við gerð næstu kjarasamninga ef kauptaxtar dragast aftur úr almennri launaþróun vegna launaskriðs. Þessi ákvæði ættu að öðru óbreyttu að stuðla að auknum stöðugleika, lægri vöxtum og betri lífskjörum. Það er til mikils að vinna að vel takist til.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.