Bestu hliðar samfélagsins

Sá sem hér skrifar hefur aldrei farið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en er reglulega minntur á það af heimamönnum af hverju hann er að missa. Fyrir utan óteljandi frásagnir heimamanna, sem ég hef verið svo heppinn að kynnast mörgum í gegnum tíðina, mætti segja að það næsta sem ég hafi komist Þjóðhátíð sé að horfa á heimildarmyndina Fólkið í Dalnum sem frumsýnd var í júlí.

Fólkið í Dalnum – heimildarmynd
um Þjóðhátíð í Vestamannaeyjum
Framleiðendur:
Sighvatur Jónsson og
Skapti Örn Ólafsson

Kvikmyndataka og samsetning:
Sighvatur Jónsson
Handrit og viðtöl:
Skapti Örn Ólafsson
Tónlist:
Halldór Gunnar Pálsson
Lengd: 76 mínútur
Frumsýnd í júlí 2019

Það verður að segjast eins og er að höfundum myndarinnar, þeim Sighvati Jónssyni og Skapta Erni Ólafssyni, tekst að fanga bestu hliðar samfélagsins með mynd sinni. Einn helsti styrkur okkar Íslendinga er hvað við erum fámenn. Það sýnir sig á svo margan hátt en líklega best utan höfuðborgarsvæðisins. Samfélagið í Vestmannaeyjum er á margan hátt stórbrotið og það er gaman að fá innsýn í líf heimamanna, bæði við undirbúning Þjóðhátíðar og eins á meðan á henni stendur.

Merkileg saga

Árið 1874 fögnuðu Íslendingar þúsund ára afmæli landnámsins með því að halda þjóðhátíð víða um land. Í Vestmannaeyjum var hátíðin haldin í Herjólfsdal, en ólíkt öðrum landshlutum og svæðum gerðu Eyjamenn sína hátíð að árlegum viðburði. Þjóðhátíð í Eyjum hefur nú verið haldin nær óslitið í 145 ár. Hún hefur vissulega þróast í gegnum tíðina en margir þættir hennar byggja þó á áratugagömlum hefðum.

Árið 2013 ákváðu þeir Sighvatur og Skapti Örn að gera heimildarmynd um Þjóðhátíð 2014, þ.e. á 140 ára afmæli Þjóðhátíðar. Til stóð að gera stutta heimildarmynd en þeim varð brátt ljóst að ekki væri hægt að fanga allt það sem gerist fyrir, á meðan á henni stendur og eftir hana, á einni hátíð. Úr varð að þeir tóku upp efni og viðtöl á fimm hátíðum, þ.e. frá 2013-18, og úr varð sú heimildarmynd sem hér er um fjallað.

Það var rétt mat hjá framleiðendum myndarinnar að bíða með gerð hennar í þennan tíma. Sjálfsagt hefur eitt ár til eða frá ekki skipt öllu máli, en líklega hefði verið ómögulegt að fanga alla anga á einni hátíð. Einn helsti kostur myndarinnar er einmitt sá hvað hún gefur víðtæka og fjölbreytta mynd af Þjóðhátíðinni. Það er fjallað sérstaklega um undirbúninginn og í myndinni eru kaflar um brennuna, blysin, gerð sviðsins, um gæsluna og öryggismál, setningarathöfnina, tónlistina og aðra þætti. Þá er fjallað um baráttu heimamanna um stæði undir hvítu hústjöldin, mannamótin í tjöldunum og aðrar skemmtilegar hefðir sem fylgja hátíðinni – og heimamönnum.

Það eina sem mögulega mætti segja að vanti í þessu samhengi er ferðin í Herjólfi. Það hefði eflaust verið hægt að fanga fjölbreytta stemningu í Herjólfi, þá væntanlega eftir því hvort verið er að fara til eða frá Eyjum.

Aldrei verður myndin langdregin. Tekin eru fjölmörg viðtöl við hina ýmsu aðila; tónlistarmenn sem koma fram á hátíðinni, gesti, heimamenn og fleiri. Fyrir fram mætti ætla að það væru helst heimamenn sem hefðu gaman af myndinni, enda er hún að mestu leyti um þá, en þetta er mynd fyrir alla þá sem hafa gagn og gaman af íslensku samfélagi.

Þjóðhátíð í Eyjum er eitt stærsta fjáröflunarverkefni ÍBV á ári hverju. Handboltadeild félagsins sér venjulega um hina árlegu brennu þar sem mikið er á sig lagt (skjáskot úr myndinni Fólkið í Dalnum).

Fólkið í Dalnum varpar líka upp sögulegri mynd af Þjóðhátíð. Í myndinni birtist töluvert af gömlu myndefni, sem er skemmtilegt og gefur myndinni aukið vægi, og mögulega hefði það mátt vera meira ef þess hefði gefist kostur. Þau myndbrot sem birtast eru áhugaverð og þá ekki síst vegna þeirra hefða sem myndast hafa í gegnum árin.

Skuggahliðarnar

Eflaust eru margir sem hafa þá mynd af Þjóðhátíð í Eyjum að hér sé aðeins um að ræða eitt heljarinnar fyllerí í misjöfnu veðri og við misjafnlega öruggar aðstæður. Framleiðendum myndarinnar tekst þó vel til við að sýna bestu hliðar hátíðarinnar, fjölskyldustundir og aðra góða samfélagslega viðburði sem henta öllum.

Því er þó ekki að neita að Þjóðhátíð á sér líka dökka hlið, kynferðisbrot. Um hverja verslunarmannahelgi má gera ráð fyrir þrenns konar fréttum af útihátíðum landsins; fréttum af fjölda á hverjum stað, fréttum af veðri og loks þeim vandamálum sem komið hafa upp. Þar hefur, því miður, ósjaldan verið fjallað um kynferðisbrot í Eyjum.

Það vakti athygli fyrir nokkrum árum þegar þá nýskipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum tilkynnti viðbragðsaðilum á svæðinu (þegar undirbúningur hátíðarinnar stóð sem hæst) að ekki yrðu gefnar upp tölur um fjölda kynferðisbrota til fjölmiðla. Fyrir því voru helst tvær ástæður; annars vegar tillitssemi við brotaþola og hins vegar rannsóknarhagsmunir á sömu brotum. Sem kunnugt er olli þetta verklag lögreglustjórans nokkru uppnámi, þá helst á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, en einnig meðal annarra viðbragðsaðila sem veitt hafa aðstoð og ráðgjöf vegna kynferðisbrota.

Framleiðendum tekst að meðhöndla þessa umræðu með málefnalegum og sanngjörnum hætti í myndinni. Það verður líka að segja þeim til hróss að það hefði verði ótrúverðugt að sleppa því að nálgast þessa umræðu, þannig að það gerir myndina enn betri að fjalla um málið og í framhaldinu fara yfir þær ráðstafanir sem hafa verið stórbættar á síðustu árum til að sporna við frekari brotum.

Að því sögðu, og þetta er útúrdúr frá myndinni sjálfri, er rétt að hrósa lögreglustjóranum fyrir að hafa staðið í lappirnar í málinu. Enginn skal efast um að þær ákvarðanir og verklagsreglur sem lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur og setur séu gerðar með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi.

Tónlistin mikilvæg

Framleiðendur myndarinnar, þeir Sighvatur Jónsson og Skapti Örn Ólafsson, eiga mikið hrós skilið fyrir myndina.

Fólkið í Dalnum er áhugaverð mynd sem allir ættu að sjá og framleiðendur hennar eiga hrós skilið fyrir eljusemina við gerð hennar. Að lokum er þó vert að nefna að tónlistin spilar mikilvægt hlutverk í myndinni og er Halldór Gunnar Pálsson (Fjallabróðir) þar framarlega í flokki.

Hér áður sagði að myndin kallaði fram bestu hliðar samfélagsins – en það gerir tónlistin líka. Lífið er svo sannarlega yndislegt þegar setið er í brekkunni þar sem hjartað slær.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.