Þörf fyrir festu á óvissutímum

EES-samningurinn veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu.

Miðflokknum varð til framdráttar í skoðanakönnunum að formaður hans og þingmenn völdu sér sess sem pólitískir uppnámsmenn. Þeim tókst að beina athygli frá hneykslinu sem þeir ollu á Klausturbarnum undir lok nóvember 2018 með því að markaðssetja sig á nýjan hátt í andstöðu við þriðja orkupakkann.

Á árinu 2019 stofnuðu þeir til umræðna um pakkann í um 160 klukkustundir í sal alþingis. Þeim tókst að fá atkvæðagreiðslu um málið frestað frá byrjun júní 2019 til 2. september 2019. Þá samþykktu þingmenn það með 46 atkvæðum gegn 13.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður hefur siglt á loftslagsmiðin eftir að hann tapaði orkupakkamálinu. Honum er líklega sama um efnislegu niðurstöðuna eftir að hafa nýtt sér pakkann til uppsláttar. Í loftslagsmálum eru ýmsar misvísandi skoðanir kynntar til sögunnar, allar sagðar studdar vísindalegum rökum. Sigmundur Davíð veðjar á málstað þeirra sem vilja frekar tala vandann niður en mála hann dökkum litum.

Þegar vakið var máls á framgöngu Miðflokksmanna og fylgi þeirra í skoðanakönnunum á þann hátt að stuðningsmönnum mislíkaði, birtist þetta m.a. sem athugasemd á netinu:

„Ég ætla að kjósa Miðflokkinn í næstu kosningum.
Miðflokkurinn áfram æðir
eins og flóðbylgja hann er.
Alla flokka aðra „hræðir“
allt í fína sama er mér.“

Þarna helgar tilgangurinn meðalið. Markmiðið er að valda uppnámi, með hræðsluáróðri, og hagnast á því meðal kjósenda. Besta svarið við slíku stjórnmálastarfi er að efla lýðræðislegar umræður og miðlun þekkingar.

Eftir að meirihluti alþingismanna áttaði sig á því 21. mars 2019 hvað fólst í þriðja orkupakkanum hefði verið rökrétt fyrir Miðflokksmenn og skoðanabræður þeirra að snúa sér að öðru. Þeir gerðu það ekki af því að þeim var sama um staðreyndir í málinu. Þeir ákváðu þess í stað að reisa rök sín á hártogunum um álit lögfræðinga.

Málið var þeim kjörið tækifæri til að koma illu af stað og ýta undir sundrung, ekki aðeins milli flokka heldur einnig innan þeirra. Þar var Sjálfstæðisflokkurinn meginskotmarkið. Nutu Miðflokksmenn stuðnings áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins.

Hvorki fyrirtæki né hagsmunafylkingar börðust fyrir samþykkt orkupakkans. Þess vegna mátti valda uppnámi á stjórnmálavettvangi án þess að ögra einhverjum sérgreindum hópi kjósenda. Undir lokin fjaraði undan málefninu en þunginn jókst í áróðri um hvernig færi fyrir Sjálfstæðisflokknum yrði orkupakkinn samþykktur á þingi.

Ríkisstjórnin stóð atlöguna af sér og einnig Sjálfstæðisflokkurinn. Þegar ákafast var að honum vegið minnkaði fylgi hans en tók síðan að vaxa að nýju.

Þeir sem helst sóttu gegn forystumönnum Sjálfstæðisflokksins telja að minnkandi fylgi flokksins eigi að rekja til stefnu flokksins en ekki til áhrifamáttar þeirra sjálfra, andstæðinga hans í málinu.

II.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lýsti stöðu Sjálfstæðisflokksins á þennan hátt á flokksstjórnarfundi laugardaginn 19. október 2019:

„Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi:

Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum, á 20. öldinni – gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni; hann er klofinn – þvers og kruss.

Frjálslyndi vængurinn brotnaði í Viðreisn og fjaðrir úr þeim íhaldssama reytast nú til Miðflokksins. Fálkanum er að fatast flugið og hann er ósköp ráðvilltur.

Þetta eru stór tíðindi og aðrir flokkar þurfa að bregðast við.“

Fyrir þá sem fylgjast með stjórnmálum felast ekki ný tíðindi í þessari skilgreiningu Loga Einarssonar. Vorið 2016 stofnuðu samherjar Samfylkingarinnar í ESB-málum Viðreisn og hafa þeir síðan barist gegn Sjálfstæðisflokknum. Þar eru í fremstu röð Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður flokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það munar um minni blóðtöku fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er.

Orð Loga um stuðning fyrrverandi sjálfstæðismanna við Miðflokkinn eru einnig rétt. Í þingflokki Miðflokksins eiga fyrrverandi sjálfstæðismenn ítök. Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason flutu inn á þing á fylgi Ingu Snæland í Fólki flokksins. Hún lítur nú á þá sem svikara við sig og málstaðinn sem þeir kynntu kjósendum. Þeir skelltu flokksdyrum Ingu á eftir sér og gengu í Miðflokkinn eftir fundinn á Klausturbarnum sem snerist einmitt um vistaskiptin.

Bergþór Ólason reyndi árangurslaust fyrir sér í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Sigmundur Davíð gerði honum tilboð sem hann vildi ekki hafna.

Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, snerist gegn þingflokki sjálfstæðismanna vegna þriðja orkupakkans.

Í ritstjórnargreinum blaðsins er einnig vikið óvildarorðum að þeim sem telja aðildina að EES-samningnum skipta miklu. Ritstjórnarstefna blaðsins er að aðild að samningnum brjóti í bága við stjórnarskrána þrátt fyrir 25 ára farsæla veru á evrópska efnahagssvæðinu og 18 lögfræðiálit sem segja stjórnarskrána rúma aðildina. Síðustu álitin voru gefin árið 2019.

Heilbrigð skynsemi segir að fullyrðingar um stjórnarskrárbrot vegna EES standist ekki. Þess er engin þörf að hrófla við stjórnarskránni vegna aðildarinnar. Frá upphafi má kenna það við pólitískan fyrirslátt að breyta aðildinni í stjórnarskrárdeilur.

Sagan sýnir að Íslendingar hafa fullt svigrúm til að nýta fullveldi sitt innan EES-samstarfsins. Þetta er samstarf til hagsbóta fyrir einstaklinga og mótast af tilliti til þeirra, borgara aðildarríkjanna; tryggir þeim ný réttindi. Að ætla að ganga á þessi réttindi eftir 25 ára mótun þeirra í nafni fullveldis þjóðarinnar er einfaldlega öfugmæli.

III.

Morgunblaðið fagnaði aðildinni að EES í leiðara 13. janúar 1993, daginn eftir að alþingi samþykkti lögin um EES-samninginn. Í leiðaranum er ekki minnst einu orði á vandamál vegna stjórnarskrárinnar. Honum lýkur á þennan veg:

„Alla þá þætti, sem hér hafa verið taldir upp, ber að sama brunni. Grundvallarhagsmunir Íslendinga á Evrópumarkaði eru tryggðir og efnahagslífi landsins gefinn aukinn kraftur. Með staðfestingu EES-samningsins ganga Íslendingar til samstarfs við aðrar þjóðir Vestur-Evrópu með fullri reisn. EES-samningurinn kemur í veg fyrir efnahagslega og pólitíska einangrun Íslands á evrópskum vettvangi og er varanleg lausn á samskiptum okkar við önnur Evrópuríki. Ef við kunnum að nýta okkur þau tækifæri, sem þessi mikilvægi milliríkjasamningur gefur okkur, opnar hann hlið að nýrri og farsælli framtíð.“

Réttmæti þessara orða er staðfest í nýbirtri 301 bls. skýrslu starfshóps sem utanríkisráðherra skipaði 30. ágúst 2018 til að gera úttekt á EES-samstarfinu. Skýrslan kom út 1. október 2019 og hefur síðar verið rædd víða, meðal annars á alþingi 15. október 2019.

Sama dag og þingumræðurnar fóru fram birtist leiðari í Morgunblaðinu vegna dóma Hæstaréttar Spánar yfir aðskilnaðarsinnum í Katalóníu. Inn í þann leiðara var skotið þessum orðum:

„Langhundshöfundar um EES-samninginn telja að það sé þegar búið með einhverjum dularfullum hætti að flytja lokaorðið í lagasetningu landsins til andlitslausra búrókrata í Brussel. Afgreiðsla Alþingis á orkupakkanum, sem verður því til eilífrar skammar, á að vera staðfesting á því. Hafi skýrsluhöfundar, það er utanríkisráðuneytið og þeir sem skrifa upp á skýrsluna, rétt fyrir sér fær samningurinn um EES ekki staðist gagnvart stjórnarskrá.“

Sem einn höfunda þessarar skýrslu og sá sem ber lokaábyrgð á efni hennar er mér skylt að bregðast við þessum orðum. Hvergi segir það í skýrslunni sem gert er að efnislegu gagnrýnisatriði í leiðaranum. Ályktun leiðarans er einfaldlega röng og einnig hitt að við sem sömdum skýrsluna höfum skrifað upp á eitthvað frá utanríkisráðuneytinu eða embættismönnum þess. Það á ekki við neitt að styðjast.

Eins og áður sagði: 25 ára framkvæmd EES-samningsins og 18 lögfræðiálit ættu að duga til að sýna að stjórnarskrá lýðveldisins og EES-aðildin falla saman. Ekki þarf að hrófla við neinu í stjórnarskránni til að nýta tækifærin sem EES-aðildin veitir.

Þetta er ein af meginniðurstöðum skýrslunnar. Hún ætti að auðvelda viðræður formanna stjórnmálaflokkanna um breytingar á stjórnarskránni. Lögfræðingar hafa velt öllum steinum vegna þessara mála í 25 ár, nú er komið að því að stjórnmálamenn taki af skarið. Ákvörðun um efni stjórnarskrárinnar er að lokum pólitísk en ekki lögfræðileg þótt lögfræðingar leggi sitt af mörkum til niðurstöðunnar og hefji síðan rökræður um hana.

IV.

Kúvending Morgunblaðsins í afstöðunni til aðildarinnar að EES er aðeins eitt dæmið úr samtímastjórnmálum um umrótið sem nú ríkir í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt fyrir öll ríki, ekki síst þau sem ekki ráða stefnu eða ferð alþjóðamála, að vera vel á vaktinni og fylgjast náið með öllum straumum.

Í EES-skýrslunni er brugðið upp mynd af þróun alþjóðasamstarfs í viðskiptamálum allt frá því að Ísland varð lýðveldi fyrir 75 árum. Þar sést að án aðildarinnar að EFTA árið 1970 hefði Íslendingum ekki gefist tækifæri til þátttöku í samningaviðræðunum um EES sem hófust 1989 og lauk vorið 1992.

Öll önnur EFTA-ríki en Ísland reyndu við aðild að Evrópusambandinu á þessum misserum. Austurríkismönnum, Finnum og Svíum tókst að komast í ESB. Norðmenn felldu aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu og sama gerðu Svisslendingar, sem höfnuðu bæði ESB og EES.

Hefði verið látið reyna á ESB-aðild Íslands á þessum tíma hefði aðildin verið felld og einnig aðild að EES. Tortryggni í garð EESaðildarinnar var mikil á alþingi 1992 og 1993, flokkar klofnuðu vegna hennar. Það var ekki fyrr en í skýrslu í mars árið 2007 sem lá fyrir svart á hvítu að allir þingflokkar lýstu ánægju með EES-aðildina. Þá gætti jafnframt áhuga á ESB-aðild innan Samfylkingar og Framsóknarflokksins.

Eftir kosningar vorið 2007 myndaði Samfylkingin stjórn með Sjálfstæðisflokknum og þrýstingur á ESB-aðild jókst. Sjálfstæðisflokkurinn stóðst þennan þrýsting en ekki VG eftir stjórnarmyndun með Samfylkingu vorið 2009 sem leiddi til ESB-aðildarumsóknar í júlí 2009.

Viðræður um aðild sigldu í strand vegna sjávarútvegsmála árið 2011 og formlega var þeim frestað í janúar 2013. Eftir kosningar þá um vorið mynduðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stjórn sem afturkallaði ESB-aðildarumsóknina árið 2015, sama ár og nýju skikki var komið á EES-samstarfið innan stjórnarráðsins.

Stöðugleiki í EES-samstarfinu er ekki gefin stærð. Þessi upptalning hér að framan sýnir það. Skýrslan sem nú hefur birst ætti að auðvelda mönnum að sjá kosti og galla samstarfsins. Hún ætti einnig að auðvelda mönnum að átta sig á því að það er álíka ábyrgðarlaust að tala niður EES-samstarfið og gildi þess og aðildina að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin.

V.

Vaxandi áhugi Bandaríkjastjórnar á norðurslóðamálum hefur birst á ýmsan hátt hér á landi á þessu ári. Mike Pompeo utanríkisráðherra sagði á blaðamannafundi í Hörpu 15. febrúar 2019 að Ísland yrði ekki lengur „vanrækt“.

Í  lok maí 2019 kom hingað hópur öldungadeildarþingmanna frá Bandaríkjunum. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, var hér 4. september 2019 og Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, sótti að eigin frumkvæði Hringborð norðursins í Hörpu snemma í október 2019.

Þessar tíðu heimsóknir háttsettra bandarískra stjórnmálamanna til Íslands eftir margra ára hlé marka ákveðin þáttaskil. Ísland ber hærra innan bandaríska stjórnkerfisins en gert hefur árum saman.

Það skýtur því skökku við að á sama tíma skuli Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir láta í ræðu og riti eins og Íslendingar þurfi að efast um að samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna standi á traustum grunni. Lætur hún sveiflur í Twitter-boðskap Donalds Trumps Bandaríkjaforseta ráða meiru um afstöðu sína en það sem unnt er að staðfesta með vísan til þess sem gerst hefur.

VI.

Eftir átökin um þriðja orkupakkann er brýnt að leiða hugann að raunverulegu gildi EESsamstarfsins fyrir okkur Íslendinga. Það var í raun einstakt tækifæri að gera þann samning fyrir tæpum 30 árum. Hann hefur stuðlað að festu í utanríkismálum þjóðarinnar sem verja verður gegn uppnámsmönnum sem bjóða engan annan raunhæfan kost.

Í ár eru 70 ár liðin frá því að Ísland varð eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Aðildin að því og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin hafa reynst þjóðinni farsæl Að þessum tveimur hornsteinum utanríkisstefnunnar ber að hlúa, ekki síst á óvissutímum, einmitt þá er mest þörf á festu.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.