Guðlaugur Þór: Áhyggjuefni að talað sé gegn frjálsum viðskiptum

Guðlaugur Þór Þórðarson (Mynd: HAG)

Á undanförnum árum hafa margir stjórnmálamenn í vestrænum lýðræðisríkjum talað gegn milliríkjaviðskiptum, kennt frjálsum viðskiptum á milli ríkja um bága stöðu tiltekinna hópa innan samfélaga og hótað auknum tollum.

Spurður um þessa þróun segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra það mikið áhyggjuefni að almennt sé talað gegn frjálsum viðskiptum.

„Ísland er skýrt dæmi um mikilvægi og kosti frjálsrar verslunar. Við vorum ein fátækasta þjóð Evrópu í upphafi síðustu aldar og værum það enn ef við hefðum ekki aðgang að stórum mörkuðum, hefðum ekki opnað markaði okkar og stundað milliríkjaviðskipti. Það sama á auðvitað við um margar aðrar þjóðir,“ segir Guðlaugur Þór í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.

„Það er aftur á móti ánægjulegt að sjá stefnu Breta í þessum málum, sem nú tala um Global Britain af því að þeir leggja áherslu á fríverslun út um allan heim. Stefna Bandaríkjastjórnar er mögulega ekki skýr eins og yfirlýsingarnar eru þessa dagana. Það hefur þó verið áhyggjuefni, ekki bara núna heldur í nokkurn tíma, að Bandaríkjamenn voru áður í fararbroddi fyrir alþjóðaviðskipti en eru það ekki lengur. Þeir leiddu stofnun WTO, GATT-samkomulagið og aðra þætti sem sneru að endurbótum á alþjóðaviðskiptum í heild sinni. En þegar þeir eru ekki að leiða þessa vinnu gerir það enginn. Við vitum að mestu framfarir mannkynsins hafa átt sér stað á síðastliðnum 200 árum og frjáls alþjóðaviðskipti hafa gegnt þar lykilhlutverki. Þrátt fyrir það koma menn fram með þessa ótrúlega vondu hugmynd að einhvers konar verndarstefna muni virka, sem hún gerir ekki, hefur aldrei gert og mun aldrei gera. Það eru þó margir stjórnmálamenn, víða í heiminum, sem ávarpa ákveðna hópa með þessi vondu skilaboð sem lausn á vandamálum þeirra.“

 

Nánar er rætt við Guðlaug Þór í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar fer Guðlaugur Þór yfir helstu þætti í utanríkismálum landsins, samstarfið á norðurslóðum, samskiptin við Bandaríkin og Rússland, veru Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og loks Evrópusamstarfið, sem er iðulega í umræðunni hér á landi. Einnig er rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Viðtalið birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.