Guðlaugur Þór: Aðrar þjóðir horfa til Íslands sem fyrirmyndar

Guðlaugur Þór Þórðarson (Mynd: HAG)

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sem utanríkisráðherra lagt aukna áherslu á samskipti við Bretland og Bandaríkin og öflugri hagsmunagæslu í EESsamstarfinu, en auk þess gegnir Ísland nú formennsku í Norðurskautsráðinu fram til ársins 2021. Ísland tók í fyrra sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og hefur látið til sín taka á þeim vettvangi, mikil umræða hefur átt sér stað um tilvist EES-samningsins og ljóst að áfram verður hér deilt um stöðu Íslands í samstarfi Evrópuþjóða.

Öllum má vera ljóst að verkefnin eru næg hjá utanríkisráðherra, en alltaf má velta því upp hversu mikil áhrif Ísland hefur í alþjóðakerfinu, hvort sem litið er til norðurslóða eða annarra verkefna.

„Umræðan á Íslandi verður stundum öfgakennd. Það á líka við um utanríkismál, annaðhvort stýrum við og stjórnum öllu eða þá að við skiptum engu máli,“ segir Guðlaugur Þór aðspurður um þetta í viðtali í Þjóðmálum.

„Rödd okkar skiptir þó máli og staðsetning okkar gerir það að verkum að mikilvægi okkar hefur aukist. Það felur ekki bara í sér tækifæri heldur líka ógnir; því skiptir máli að við vinnum af yfirvegun og skynsemi. Þess vegna skiptir máli að hafa pólitíska samstöðu um utanríkismál þjóðarinnar.“

Sem fyrr segir gegnir Ísland nú formennsku í Norðurskautsráðinu, sem samanstendur af Norðurlandaríkjunum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi, auk þess sem sex samtök frumbyggja á norðurslóðum eiga sæti í ráðinu. Guðlaugur Þór segist finna fyrir miklum stuðningi við formennskuáætlun Íslands í ráðinu, þar sem lögð er áhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, íbúana á svæðinu og loks eflingu Norðurskautsráðsins.

„Það er á okkur hlustað, meðal annars vegna framgöngu okkar sjálfstæðismanna í gegnum tíðina sem gerir það að verkum að okkur hefur lánast að gera hluti sem tekið er eftir,“ segir Guðlaugur Þór.

„Ég er hér að vísa sérstaklega í tvær ákvarðanir sem gera það að verkum að við erum mun sjálfbærari en aðrar þjóðir, annars vegar nýtingu okkar á endurnýjanlegri orku og hins vegar nýtingu okkar á sjávarauðlindinni. Orkunotkun Íslendingar er 85% endurnýjanleg, ef það væri þannig í öðrum ríkjum horfði loftslagsvandinn öðru vísi við. Sjálfstæðismenn studdu dyggilega við hugmyndir um það á sínum tíma að leggja hér hitaveitu, sem sýndi mikið hugrekki fyrir fátæka þjóð sem var nýkomin með fullveldi. Þetta er nokkuð sem íslensk fyrirtæki og stjórnvöld hafa með stolti vakið athygli á erlendis. Það má til dæmis taka dæmi um stærstu hitaveitu heims í Kína, sem er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra aðila. Við sjáum annars staðar að það er verið að búa til rafmagn með jarðvarmavirkjunum í samstarfi og með ráðgjöf Íslendinga. Það er mikil eftirspurn eftir þessari þekkingu og það er mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í fremstu röð, enda horfa aðrar þjóðir til okkar í þessum málum.“

Guðlaugur Þór segir að aðrar þjóðir horfi jafnframt til Íslands sem fyrirmyndar þegar kemur að nýtingu sjávarauðlinda.

„Við erum með sjálfbært kerfi þegar kemur að auðlindinni og umhverfinu en auk þess erum við eina þjóðin innan OECD sem fær nettó skattgreiðslu af nýtingu auðlindarinnar,“ segir Guðlaugur Þór.

„Aðrar þjóðir niðurgreiða sjávarútveginn og njóta því ekki arðsemi af auðlindinni. Þetta er mál sem við sjálfstæðismenn beittum okkur fyrir og það var ekki átakalaust. Ég er búinn að eiga óteljandi samtöl við erlenda þjóðarleiðtoga sem spyrja hvernig okkur hafi tekist þetta og hvernig hægt sé að læra af okkur. Allt endurspeglast þetta í utanríkis- og þróunarstefnu okkar. Við starfrækjum fjóra háskóla á vegum Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi, sem er kjarninn í þróunaraðstoð okkar. Þar erum við að kenna það sem við erum góð í; fiskveiðar, nýtingu á jarðvarma, landgræðslu og jafnréttismál. Þetta eru allt málaflokkar sem við sjálfstæðismenn höfum verið afgerandi í og við getum verið stolt af því.“

 

Nánar er rætt við Guðlaug Þór í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar fer Guðlaugur Þór yfir helstu þætti í utanríkismálum landsins, samstarfið á norðurslóðum, samskiptin við Bandaríkin og Rússland, veru Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og loks Evrópusamstarfið, sem er iðulega í umræðunni hér á landi. Einnig er rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Viðtalið birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.