Saga Jasídastúlkunnar

Nadia Murad fæddist og ólst upp í Kocho, litlu þorpi bænda og fjárhirða í Norður-Írak. (Mynd: Anadolu Agency)

Síðasta stúlkan – saga um mannrán og baráttu mína við Íslamska ríkið Höfundur: Nadia Murad Útgefandi: Almenna bókafélagið Reykjavík, 2019. 336 bls.

Átökin í Sýrlandi hafa nú staðið í á áttunda ár og enn er ekki séð fyrir enda stríðsins sem hefur kostað hálfa milljón Sýrlendinga lífið og hrakið stóran hluta þjóðarinnar á vergang. Sýrlandsstríðið hefur leyst úr læðingi ýmis öfl og hafa öfgamenn Íslamska ríkisins (ISIS) vakið mestan óhug. Þeir náðu furðumiklum styrk á tímabili og gátu myndað eigið ríki, kalífadæmi, sem átti að vera íslamskt í einu og öllu. Allir velmeinandi múslimar höfðu skömm á þessu enda virtist grimmd og skepnuskapur liðsmanna ríkisins engum takmörkunum háð. Uppbygging kalífadæmisins líktist afturhvarfi til miðalda þar sem mannréttindi og lýðræði voru óþekkt.

Bókstafstrú og öfgar stýrðu allri stjórnsýslu, réttindi almennra borgara virtust lítil sem engin og minnihlutahópar fóru verst út úr þessu. Þetta sást best í samskiptum við hina gleymdu þjóð Jasída, sem höfðu fengið að lifa í friði í norðurhluta Íraks enda stafaði engum ógn af þeim. Í bókinni er sögð saga Nadiu Murad, sem fæddist og ólst upp í Kocho, litlu þorpi bænda og fjárhirða í Norður-Írak. Hún og systkini hennar tilheyrðu samfélagi Jasída og lifðu til þess að gera rólegu og einföldu lífi. Því lauk hinn 15. ágúst 2014, þegar Nadia var aðeins 21 árs.

Þá birtust vígamenn Íslamska ríkisins og frömdu fjöldamorð á íbúum þorps hennar, tóku af lífi alla karlmenn sem neituðu að ganga af trúnni og allar konur sem voru of gamlar til að hægt væri að selja þær í þrældóm. Unglingspiltar voru munstraðir í samtökin, þeirra beið heilaþvottur og að verða barnahermenn. Nadia var flutt til Mosul og neydd til að gerast ambátt ISIS ásamt þúsundum annarra Jasídastúlkna. Eftir að hún hafði margoft orðið fyrir nauðgunum og barsmíðum tókst henni að strjúka þar sem hún var í haldi í Mosul-borg og finna skjól á heimili súnní-múslimskrar fjölskyldu þar sem elsti sonurinn á heimilinu, Nasser, hætti lífi sínu til að smygla henni á öruggan stað. Í slíku ríki óttans hafði það mikla hættu í för með sér enda guldu Nasser og fjölskylda hans aðstoðina dýru verði.

Írak og Sýrland og svæðin í kring eru án efa órólegustu og að mörgu leyti hættulegustu landsvæði heims í dag. Ástandið hefur verið skelfilegt og öryggi almennra borgara lítið sem ekkert á meðan hermenn stríðandi fylkinga berast á banaspjótum.

Að sumu leyti líkist ástandið Þýskalandi á tímum þrjátíu ára stríðsins (1618-1648). Átökin blossa upp með reglulegu millibili, að því er virðist jafn hatrömm og áður. Nú bregður hins vegar svo við að aðgerðir sem tyrkneski herinn hóf í byrjun október virðast ætla að gagnast þeim ISIS-liðum sem voru í haldi. Í stað þess að þeir séu látnir bera ábyrgð á verkum sínum, meðal annars þjóðarmorði á Jasídum, eru þeir margir hverjir frjálsir ferða sinna. Það er óásættanleg niðurstaða en þetta stríð skýrist af endalausri tækifærismennsku stríðandi aðila og hagsmunagæslu stórveldanna sem þarna véla um á bak við tjöldin. Það sést best á því að þegar þetta er skrifað hafa Assad, forseti Sýrlands, og Kúrdar snúið bökum saman gegn sameiginlegum óvini í Tyrklandi. Það er tæpast til langframa en Assad hefur lofað Kúrdum sjálfstjórn innan Sýrlands enda berst hann fyrir lífi sínu. Kúrdar vita sjálfsagt að loforð Assads eru ekki pappírsins virði. Í þessari ringulreið er erfitt að sjá nokkra varanlega lausn sem tryggir öryggi almennings.

Það vefst líklega fyrir flestum að skilja þær ættbálka- og trúarerjur sem ráða á þessu svæði. Það er mikill fengur að bókinni, því þó að hún sé vissulega saga Nadíu er í henni að finna skilmerkilega lýsingu á þeim valdablokkum og trúarátökum sem mótað hafa þennan hluta heimsins. Átakanlegt er að lesa um skelfingu Jasídanna sem biðu örlaga sinna og treystu á að einhverjir kæmu þeim til bjargar áður en ISIS-liðarnir hertækju land þeirra. Því miður hundsuðu allir ákall þeirra og er dapurlegt að lesa lýsingar Nadiu þegar ættingjar erlendis voru að reyna að vekja máls á stöðu Jasída þegar ósköpin dundu yfir. Oft með örvæntingarfulla ástvini í símanum.

Bandaríkjamenn brugðust en reiði Nadiu er mest í garð Kúrda, sem höfðu gefið sig út fyrir að vera stuðningsmenn Jasída og verndarar. Það verður hins vegar að hafa í huga að meðal Kúrda eru margar fylkingar og stundum kemur til vopnaðra átaka þeirra í milli. Þessu öllu lýsir bókin vel, sem er í aðra röndina eins og uppflettirit yfir þær trúarlegu og pólitísku átakalínur sem þarna er að finna.

Verndarsveit kúrdískrar alþýðu (YPG), sem tengist Verkamannaflokki Kúrda (PKK), stóð næst að koma Jasídum til varnar en hún brást. YPG-liðar hafa staðið fyrir morðum og sprengjutilræðum í borgum Tyrklands og eru skilgreindir hryðjuverkamenn af Tyrkjum.

Það er einkar forvitnilegt að lesa lýsingar Nadiu á því þegar henni tekst að flýja yfir á yfirráðasvæði Föðurlandsfylkingarinnar PUK í austurhluta Íraks. Liðsmönnum PUK er mikið í mun að sýna að það hafi verið aðrar fylkingar Kúrda sem brugðust Jasídunum og taka upp viðtal við Nadiu og og Nasser í áróðursskyni. Skipti litlu þótt það stefndi lífi þeirra í hættu og kostaði hugsanlega að endingu Nasser lífið. Þrátt fyrir þetta eru Kúrdar eina skjól Jasída í þessum hrjáða heimi og að endingu fá Nadia og eftirlifandi ættingjar hennar skjól í flóttamannabúðum Kúrdistan. Kúrdar eru taldir vera um 40 milljónir talsins og hafa hernaðarlegan styrk til að gera sig gildandi í þessum heimshluta þó að þeim sé neitað um sjálfstæði.

Saga Nadiu hefur nú knúið heiminn til að horfast í augu við þjóðarmorðin á Jasídum þó að enn skorti á að það hafi fengið næga athygli eða umfjöllun. Í sögu hennar felst ákall um viðbrögð alþjóðasamfélagsins enda augljóst að hræðilegir glæpir hafa verið framdir. Nadia fékk hæli í Þýskalandi og varð að lokum sendiherra Sameinuðu þjóðanna, sem hafa opinberlega viðurkennt framferði ISIS gagnvart Jasídum sem þjóðarmorð.

Saga Nadiu er átakanleg en þó vitnisburður um lífsvilja og ást hennar á fólki sínu og þeim lífsháttum sem það hafði fengið að ástunda, að því er virðist óáreitt fyrir öðrum. Samfélagið var hins vegar brothætt og er hörmulegt að lesa um örlög fjölskyldu hennar sem styrjöldin sundraði og drap. Í raun er erfitt að sjá að samfélag Jasída lifi þessar hörmungar af, enda gerð markviss tilraun til að útrýma þeim og siðum þeirra.

Jasídar voru taldir vera um hálf milljón talsins og lifðu flestir í litlum afskekktum þorpum eins og Nadia og fjölskylda hennar. Þeir kalla sig sjálfir Daasin og vilja lifa í friði og engar sögur eru af ágangi eða átökum við nágranna þeirra, sem flestir voru súnní-múslimar. Menn fæðast Jasídar og því er ekki hægt að ganga í söfnuðinn. Margt í siðum þeirra hefur orðið til að einangra þá frá grannþjóðum sínum, jafnvel Kúrdum. Þeir eru þó náskyldir Kúrdum og tungumálin lík en trú Jasída sameinar ýmsa þætti úr kristni og íslam. Lífshættir Jasída eru sérkennilegir og elstu rætur trúarbragðanna eru óljósar, lengi var talið að þær tengdust jafnvel Zaraþústratrú. Í trú Jasída er hvorki til himnaríki né helvíti, þeir trúa á endurholdgun, klæðast aldrei bláum fötum, þeir fasta og sumt er forboðinn matur. Þeim sem yfirgefa söfnuðinn, giftast út fyrir, er ekki fyrirgefið, ekki frekar en tíðkast meðal múslíma. Því varð að setja upp sérstaka „fyrirgefningarathöfn“ til að samþykkja Jasída-konurnar aftur inn í samfélagið eftir það sem yfir þær dundi í stríðinu. Jasídar trúa því að hálfguðinn Tawusi Melek hafi fyrst komið til jarðarinnar til að tengja mannfólkið við Guð í fögrum dal í Norður-Írak sem heitir Lalish. Jasídar fara þangað eins oft og þeir geta og svo virðist sem Nadia finni þar frið og fyrirgefningu í lok frásagnar sinnar.

ISIS kaus að skilgreina Jasída sem trúvillinga, sem gaf þeim að því er virðist einhvers konar trúarlega réttlætingu til að gera hvað sem þeim sýndist við Jasída. Auðvitað hljótum við að taka undir vonir Nadiu um að liðsmenn Íslamska ríkisins verði látnir standa ábyrgir gerða sinna í einhvers konar réttarhöldum.

Þá er undarlegt að hugsa til þess að margt fólk sem hafði alist upp við vestrænt atlæti skyldi kjósa að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við ISIS. Það er erfitt að hafa samúð með því fólki eftir að hafa lesið um framferði þess í stríðinu í Sýrlandi. En það voru ekki bara Kúrdar og Bandaríkjamenn sem brugðust Jasídum. Nágrannar þeirra, sem flestir voru súnní-múslimar, stóðu aðgerðarlausir hjá á meðan þjóðarmorðið átti sér stað og sumir gerðust viljugir meðreiðarsveinar. Þeirra skömm er mikil.

Nadia Murad hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2018 fyrir baráttu sína. Bókin er áhrifarík lýsing á því sem kom fyrir hana og Jasídaþjóðina og er saga sem ekki má gleymast. Nafnið á bók hennar vísar til þess að hún vonast til þess að vera síðasta stúlkan sem lendir í hremmingum sem þessum. Undir það verður vissulega tekið.

Höfundur er blaðamaður.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.