Með ömmu í tölvunni og Helga Björns í stofunni

Frá því að samkomubannið var sett á hefur tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson, í samstarfi við Sjónvarp Símans, haldið tónleika heima í stofu á hverjum laugardegi og fengið til sín marga góða gesti. Hann og þeir sem að þessum viðburðum standa eiga mikið hrós skilið. (Mynd: Aðsend).

Móðuramma mín, rétt rúmlega áttræð, býr á dvalarheimili utan Reykjavíkur. Ég hef alltaf verið náin ömmu og margar af mínum bestu æskuminningum eru frá heimili ömmu og afa. Samskiptin við hana hafa því verið dýrmæt og á síðari árum, þá sérstaklega eftir að amma fór á dvalarheimili, hef ég reynt að heimsækja hana reglulega. Hver heimsókn er þess virði og í raun eru þær aldrei nógu margar.

***

Í nokkrar vikur hefur ekki verið mögulegt að heimsækja dvalarheimilin og þegar þessi orð eru rituð er ekki vitað hvenær það verður hægt aftur. Allir þurfa að sýna því skilning. Það hefur eflaust reynst mörgum erfitt að geta ekki hitt sína nánustu um páskana en sem betur fer hafa flest okkar farið að ráðum þríeykisins Víðis, Ölmu og Þórólfs, sem standa vaktina á meðan kórónuveiran gengur yfir.

***

Dvalarheimilið sem hún dvelur á greip til þess ráðs að deila myndum á facebook af daglegu lífi íbúa á heimilinu (með þeirra samþykki). Þá fengu íbúarnir afnot af spjaldtölvu og geta þannig notað snjallforrit hennar til að hafa samand við sína nánustu. Amma er ekki mjög tæknilega sinnuð en henni tekst þó með aðstoð að hringja í gegnum Messenger. Byrjun fyrsta samtalsins fór í að benda henni á hún þyrfti að snúa myndavélinni rétt en það var mikils virði að fá þarna nokkrar mínútur í myndaformi, ekki bara í símtali.

***

Tæknin hjálpar okkur að brúa það bil sem veiran hefur sett á milli okkar. Vinnustaðir nýta samskiptaforrit til að eiga fjarfundi, bæði innan vinnustaða og við viðskiptavini, og fjölskyldur nýta tæknina til að eiga samskipti í mynd í gegnum Facetime, Skype, Messenger og fleiri forrit. Slík samskipti eru ómetanleg á tímum sem þessum. Þetta er svo sem ekki alveg nýtt. Fyrir þá sem búa eða hafa búið erlendis á undanförnum árum er það ekkert nýtt að þurfa að nýta tæknina til að eiga samskipti við sína nánustu. En nú, þegar allir neyðast til að nota þetta samskiptaform, eru sjálfsagt margir sem sjá það í nýju ljósi.

***

Ímyndum okkur eitt augnablik að veira sem þessi hefði riðið yfir heimsbyggðina fyrir 15 árum, árið 2005. Facebook kom til sögunnar 2004 og varð ekki hlut af almennri notkun almennings fyrr en nokkrum árum síðar. iPhone snjallsíminn leit dagsins ljós árið 2007 (þeir snjallsímar sem voru til fyrir það höfðu ekki sama notagildi), 3G kerfið var komið til sögunnar en flest heimili notuðu enn landlínur til að komast á netið. Enn voru nokkur ár í að 4G kerfið kæmi fram og þar með þráðlaus tenging á heimili og að sama skapi voru enn nokkur ár í að símar yrðu hvort í senn samskipta-, vinnu- og afþreyingartæki. Fyrir þá sem vildu verja kvöldstund yfir sjónvarpinu var í boði að horfa á línulega dagskrá sjónvarpsstöðva eða rölta út á vídeóleigu og leigja sér spólu. Þeir sem fæddust árið 2005 vita varla hvað vídeóleiga er í dag.

***

Þó flestum líði vel heima hjá sér, þá er hvorki skemmtilegt né auðvelt að vera tilneyddur til að vera heima í stað þess að fara í vinnu, hitta vini og ættingja eða sækja önnur mannamót. Það er þó auðveldara í dag en það hefði verið fyrir 15 árum.

***

Jafnvel þó við færum ekki nema tíu ár aftur í tímann, þá hefur byltingin í samskiptaleiðum okkar verið gífurleg síðan þá. Hvort sem við lítum til tækjanna sem við notum, s.s. tölva, spjaldtölva og síma, eða samskiptaforrita eins og þau sem hér hafa verði nefnd, þá eru möguleikarnir sem við höfum margfalt meiri og betri en þeir voru þá. Við eigum í daglegum samskiptum við vini og ættingja í gegnum Instragram, Snapchat og fleiri forrit og valmöguleikarnir á afþreyingu eru óendanlegir með þjónustum á borð við Netflix, iTunes, Sjónvarpi Símans, Stöð 2 Maraþon, Hulu, Amazon Prime o.s.frv.

***

Við getum því verið þakklát fyrir þær miklu tæknilegu framfarir sem hafa orðið á liðnum árum, þær gera stöðuna öllu betri. Aldrei fyrr hafa verið jafn margir möguleikar á að dvelja lengi heima hjá sér en vera á sama tíma tengd umheiminum, geta átt í nánum samskiptum við sína nánustu og um leið notið þeirra afþreyingarmöguleika sem hér voru nefndir.

***

Það verður ekki sagt nógu oft hversu mikilvægar framfarir verða í frjálsum samfélögum, hvort sem það eru tækniframfarir, þróun í heilbrigðismálum, samgöngum, menntun, á vinnumarkaði og þannig mætti áfram telja. Við erum sífellt að leita leiða til að gera lífið betra og einfaldara – og okkur gengur nokkuð vel á þeirri braut.

***

Nú höfum við tækifæri til að sinna framförum í samskiptum og nánd við okkar nánustu. Fyrir fjölskyldur með börn og unglinga getur þessi tími líka reynst dýrmætur. Væntanlega hafa margir dustað rykið af spilunum sem sitja upp í skáp, göngutúrarnir eru fleiri en áður, börnin telja bangsa í gluggum hverfisins og samveran er með öðrum hætti en hún er dags daglega.

***

Það hefur líka verið dýrmætt að fylgjast með samheldni þjóðarinnar í þessum aðstæðum. Langflestir fara að tilmælum og hlýða Víði, við njótum þess þegar tónlistarmenn streyma frá tónleikum heima úr stofunni hjá sér, skemmtikraftar deila efni á netinu, veitingastaðir sýna útsjónarsemi með því að bjóða upp á heimsendingu á mat og önnur fyrirtæki eru fljót að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir til að halda starfsemi sinni áfram.

***

Næstu vikur, og jafnvel mánuðir, kunna að reynast mörgum erfiðir. Við vitum ekki hvenær lífið verður eðlilegt á ný, en við vitum að hverju við göngum þegar það gerist. Það muna reyna á þolinmæði allra, það mun reyna á heimilisbókhaldið og það mun reyna á rekstur fyrirtækja. Þá er ágætt að búa í því hagsældarríki sem Ísland er.

***

Líklega eru allir sammála um mikilvægi þess að fara saman í gegnum þessar aðstæður með sem bestum hætti. Við viljum gæta að þeim sem eldri eru og sérstaklega útsettir fyrir kórónuveirunni, við viljum að börnin upplifi öryggi, við viljum eiga þess kost að sækja vinnu, hitta fjölskyldur, fara á íþróttaleiki og sinna öllu því sem við erum vön að sinna. Í stuttu máli, allir vilja eðlilegt líf á ný og til þess að svo megi verða leggjum við það á okkur að fara í gegnum þetta tímabil með því að vanda okkur.

***

Í þessum ritstjórnarpistli Þjóðmála er brugðið út af vananum og ekkert fjallað um stjórnmál. Sumir hlutir í lífinu eru líka mikilvægari en stjórnmál.

Gísli Freyr Valdórsson

Ritstjórnarbréfið birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.