Þórdís Kolbrún: Nýsköpun er ekki tískuorð

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Mynd: HAG).

„Í fullkomnum heimi dreymir börn og unglinga um að verða frumkvöðlar rétt eins og þau dreymir um að verða læknar, íþróttamenn eða söngvarar.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.

Þar er rætt nokkuð um nýsköpun en Þórdís Kolbrún hefur í ráðherratíð sinni lagt nokkra áherslu á mikilvægi nýsköpunar. Nýsköpunarstefna fyrir Ísland var nýlega kynnt og skýrt er kveðið á um áherslu á nýsköpunarmál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. En nýsköpun er að sögn Þórdís Kolbrúnar ekki bara tískuorð á vettvangi stjórnmála heldur lykilforsenda í frekari framförum og verðmætasköpun.

„Samfélaginu mun vegna vel ef Sjálfstæðisflokkurinn nær að koma áherslumálum sínum í framkvæmd, og frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun er það sem flokkurinn stendur fyrir. Sköpunarkraftur og hugvit einstaklinga er ein mikilvægasta uppspretta verðmætasköpunar í samfélaginu enda í reynd ótakmörkuð auðlind,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Ég held að við getum ekki lagt of mikla áherslu á nýsköpun, það mun skipta öllu máli að leggja ofuráherslu á nýsköpun næstu misseri. Við erum í dag að búa til meiri verðmæti innan rótgróinna atvinnugreina með öflugri nýsköpun og fjárfestingu í nýrri tækni. Þegar maður horfir á helstu áskoranir samfélagsins, þá er ég þeirrar skoðunar að nýsköpun geti leyst þær flestar. Hvort sem við horfum á breytingar á störfum, fjórðu iðnbyltinguna, öldrun þjóða, loftslagsmál eða fæðuöryggi, þá er nýsköpun svarið. Það er margt að breytast um þessar mundir og sú staða sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar mun flýta fyrir ákveðinni þróun sem í sumum tilvikum var þegar hafin. Kennsla mun breytast, starfshættir munu breytast hvort sem það er hjá einkageiranum eða hinu opinbera, heilbrigðiskerfið er að breytast og ég hef mikla ástríðu fyrir því að við stóraukum nýsköpun í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, hvort sem það er þjónusta við eldri borgara eða í öðrum þáttum. Þannig viðhöldum við því velferðarsamfélagi sem við viljum halda uppi. Við verðum að horfa til þess að í framtíðinni verða líklega hlutfallslega færri á vinnumarkaði, við lifum lengur, flóknari lyf geta orðið dýrari og ef við aukum ekki nýsköpun í þessu kerfi getum við ekki borið það uppi eins og við gerum núna. Það er samfélagsleg sátt um að þessi kerfi séu öllum aðgengileg. Mér finnst vera vilji og stuðningur til að auka fjölbreytni og nýsköpun innan heilbrigðiskerfisins en við erum ekki alveg búin að ná því hvernig við ætlum að innleiða þær lausnir.“

Þá segir Þórdís Kolbrún að stofnun Kríu, sem er hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum, muni einfalda fjármögnun nýsköpunar og hún býst við því að erlendir fjárfestar horfi í auknum mæli til Íslands.

„Stjórnmálin þurfa að taka þátt og ég lít á það sem hlutverk mitt sem nýsköpunarráðherra að auka umræðu um mikilvægi nýsköpunar og fara í aðgerðir sem efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Við þurfum að auka umræðu um þá góðu hluti sem rótgróin fyrirtæki eru að gera í þessum málum en líka frumkvöðlaumhverfið, það gleymist stundum að mikilvægur hluti nýsköpunar fer fram innan rótgróinna fyrirtækja,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Í fullkomnum heimi dreymir börn og unglinga um að verða frumkvöðlar rétt eins og þau dreymir um að verða læknar, íþróttamenn eða söngvarar. Þetta þarf því að byrja snemma og við þurfum að efla stuðning við frumkvöðlahugsun í grunn- og framhaldsskólum þannig að krakkar sjái framtíð sína í því að verða frumkvöðlar, stofna fyrirtæki og skapa verðmæti. Veruleiki þeirrar kynslóðar sem kemur á eftir okkur er allt annar en veruleiki okkar. Það þarf að ríkja ákveðinn skilningur á því. Einu sinni fjárfesti ríkið í stórum togurum af því að þess þurfti til að byggja upp hagkvæmari sjávarútveg. Við þurfum að gera öðruvísi en sambærilega hluti núna, því fjármögnun frumkvöðla er öðruvísi en hefðbundin fjármögnun. Þarna verða ný störf til, þarna verða lausnirnar til og þarna verða verðmætin til. Þetta mun efla samkeppnishæfni Íslands í heild sinni, þar með talið landsbyggðarinnar. Þetta er ekki spurning um sjávarútveg eða nýsköpun, heldur um það hvernig nýsköpun nýtist sjávarútvegi. Það sama má segja um stóriðju, ferðaþjónustu og margt fleira.“

Sem fyrr segir er Þórdís Kolbrún í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar ræðir hún um viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og hversu mikilvægt markaðshagkerfið reynist í þeim aðstæðum sem nú eru uppi. Rætt er um mögulega sameiningu og fækkun ríkisstofnana og undarlega hegðun Samkeppniseftirlitsins, umhverfið í stjórnmálum og loks stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins.

Viðtalið birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.