Breyttur heimur er í raun óbreyttur

Jón Ormur Halldórsson: Breyttur heimur. Mál og menning, Reykjavík 2015, bls. 445.Jón Ormur Halldórsson

Heimsmyndin breytist svo að segja dag frá degi líti menn til þróunar stjórnmála, hermála og efnahagsmála. Stóru drættirnir sem urðu til eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar með tilkomu Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Atlantshafsbandalagsins (NATO), Evrópuráðsins, Evrópusambandsins (ESB), Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo að nokkur alþjóðasamtök séu nefnd móta þó enn meginumgjörð alþjóðamála. Innan hennar eru hins vegar sífelldar breytingar og jafnvel kollsteypur eins og með hruni Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi, upplausninni í arabaheiminum, viðskiptasókn Kína og tilkomu nýmarkaðsríkjanna svo að fátt sé nefnt.

Jón Ormur Halldórsson alþjóðastjórnmálafræðingur fjallar um þessa alþjóðlegu þróun í bók sinni Breyttur heimur sem kom út í sumarbyrjun. Á kápu hennar segir að bókin varpi „ljósi á ýmsar óraflóknar og hnattrænar átakalínur okkar tíma“ og sýni „þær sem samhangandi og skiljanlega heild“. Þetta er ekki lítið ætlunarverk.

Jón Ormur er stundum orðmargur í lýsingum sínum á hinum „óraflóknu“ málum þegar hann bregður upp mynd af álitaefnum hvort sem hann sest í dómarasæti eða ekki. Hann nefnir oft dæmi eða sviðsmyndir í nokkrum töluliðum til að skýra það sem ekki verður skilgreint á einfaldan hátt eða þegar hann getur sér til um það sem gerast kann. Honum verður tíðrætt um Kína án þess að geta svarað spurningunni um hvert ráðamenn þess stefni á alþjóðavettvangi.

Nokkur vandi er að skrifa bók sem þessa án þess að lesandanum finnist hún úrelt vegna breytinga sem hafa orðið frá því að textinn var festur á blað. Jón Ormur siglir fram hjá þessum vanda með efnistökum sínum. Stundum jaðrar afdráttarleysi hans við yfirlæti. Þá hefur margt af því sem hann leggur mat á svo nýlega gerst að lyktir mála eru enn óráðnar. Hefur hann haft auga með þróun þeirra þátta alþjóðastjórnmála sem hann lýsir eins lengi og honum var fært þar til bókin fór í prentun.

Bókin skiptist í tíu meginkafla: Tími byltinga; Horft á heiminn; Skipting heimsins; Heimurinn sem einn staður; Vald í heimi átaka; Heimur stórvelda; Vegið að skipan valdsins; Heimurinn og Kína; Risarnir í kringum Kína; Í heimi uppreisnar. Þá eru heimilda- og nafnaskrár. Heimskort er á opnu aftast í bókinni. Það hefði orðið lesandanum til glöggvunar að birta svæðisbundin landakort í meginmáli bókarinnar til að hann áttaði sig betur á landfræðilegum staðreyndum sem ráða miklu um afstöðu ríkja og samskipti þeirra. Bókin snýst að verulegu leyti um geópólitík – landafræði og stjórnmál.

Hverjum meginkafla bókarinnar er skipt í fjölda undirþátta sem hver ber eigin fyrirsögn. Auðveldar það almennt lesturinn. Við frágang bókarinnar hljóta að hafa vaknað spurningar um röðun þessara kafla. Til dæmis má velta fyrir sér hvort kafli sem felur í sér skýringu á hugtakinu heimsvæðing (alþjóðavæðing eða hnattvæðing) hefði ekki átt heima fyrr í bókinni en á bls. 163 það hefði auðveldað lesandanum að skilja það sem á eftir fer.

Jón Ormur setur Ísland stundum í samhengi við það sem hann ræðir. Hann segir í framhaldi á skýringu á heimsvæðingunni (bls. 165):

„Lítil hefð er hins vegar fyrir því í íslenskri umræðu að setja það staðbundna í almennt og alþjóðlegt samhengi. Í anda þeirrar hefðar hefur umræða um heimsvæðingu verið frekar lítil og sennilega minni en í flestum sambærilegum samfélögum. […]

Þegar vel er að gáð sést glöggt að jafnvel hin sérviskulegustu og staðbundnustu mál í íslenskri þjóðfélagsumræðu eiga sér ekki aðeins beinar hliðstæður í nálægum og fjarlægum löndum heldur eru þau greinilega birtingarmyndir alþjóðlegra fyrirbæra sem menn kenna við heimsvæðingu en má í reynd allt eins ræða sem hluta af þróun kapítalismans. Dæmi um þetta má finna allt frá deilum um hlutafjárvæðingu sparisjóða og einkavæðingu banka til ýmiss konar viðfangsefna í velferðarkerfum, atvinnulífi, peningamálum, menntamálum, dómsmálum og menningu. Pólitískar deilur á Íslandi snúast því oftar en ekki um staðbundnar og stundum mjög sérstakar birtingarmyndir þeirra fyrirbæra eða ferla sem menn hafa reynt að fanga með hugtakinu heimsvæðingu.“

Birtist ekki þverstæða í hinum tilvitnuðu orðum? Annars vegar er „frekar lítil“ umræða á Íslandi um heimsvæðingu hins vegar má fella helstu mál sem vekja umræður og jafnvel deilur í landinu undir hugtakið. Telur höfundur að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir að þeir takast á við sambærileg viðfangsefni og aðrar þróaðar þjóðir? Að viðfangsefni íslenskra stjórnmála séu ekki sérstæð og einstök? Þótt menn séu ekki með orðið heimsvæðingu á vörunum í almennum umræðum má ætla að þeir átti sig á að hún hefur veruleg áhrif á Íslands eins og í öðrum löndum. Þeim finnst það einfaldlega ekkert tiltökumál.

Frá örófi alda hafa Íslendingar látið alþjóðastrauma samtímans renna um samfélag sitt eins og sannast æ betur með meiri rannsóknum á viðhorfi þjóðarinnar og menningu allt frá landnámi. Íslendingar hafa ef til vill ekki sömu þörf og aðrir á að draga skil á milli hins staðbundna og alþjóðlega. Þeim er í blóð borið að virkja alþjóðlega strauma í þjóðlífi sínu þrátt fyrir hnattstöðu í fjarlægð frá öðrum. Íslendingar hafa til dæmis verið mun alþjóðlegri við að afla sér háskólamenntunar en nágrannar þeirra á Norðurlöndunum. Þá styrkti meira en hálfrar aldar sambýli við Bandaríkjaher í Keflavíkurstöðinni marga innviði á Íslandi gagnvart erlendu áreiti og búa þjóðina undir heimsvæðinguna. Hún birtist henni nú í nýrri og róttækri mynd með stöðugri fjölgun ferðamanna. Umræður um þann þátt á liðnum vikum bera merki um öryggisleysi af því að óvissa þykir ríkja um stjórnvaldsrammann og hvar jafnvægi næst milli tekjuöflunar og umhyggju fyrir náttúrunni.

Þegar fjallað er um alþjóðamál og samskipti ríkja er æskilegt að ákveðnar ritreglur séu í heiðri hafðar til að heildarblær verksins sé skýr. Eiga ekki íbúar landa samskipti, Þjóðverjar og Íslendingar, frekar en löndin, Þýskaland og Ísland? Stjórnvöld í höfuðborgum frekar en borgirnar? Er ekki málskemmd að segja Berlín og Reykjavík ákváðu að tala frekar saman? Í bókinni Breyttum heimi er nokkuð á reiki hvaða ritregla gildir að þessu leyti. Á bls. 259 segir til dæmis:

Frakkland taldi sig líka eiga ríkt erindi við heimsbyggðina með almennum og altækum pólitískum gildum frönsku byltingarinnar. Þeir vildu að auki deila fágaðri menningu…“ Hér eru feitletruð orð sem skýra hvað við er átt með ábendingu um nauðsyn samræmis. Höfundur hefur greinilega ætlað að nota orðið „Frakkar“ í fyrri setningunni enda ekki við hæfi að hefja síðari setninguna á orðinu „það“.

Setningar eru stundum klúðurslegar eins og þessi (bls. 27):

 „Í tilviki Suður-Kóreu býr líka önnur saga.“

Á liðnum vetri gaf Henry Kissinger út bókina World Order. Hann er nú á tíræðisaldri, bókin snýst um skipan heimsmála í samtímanum. Hún er reist á raunsæisstefnu (realisma) í alþjóðamálum sem einnig mætti nefna „kalt hagsmunamat“ svo að vitnað sé til orða sem notuð hafa verið í umræðum um íslensk utanríkismál. Kissinger leggur áherslu á yfirráðarétt þjóðríkisins yfir ákveðnu landsvæði og valdajafnvægi milli ríkja, þetta séu grunnþættir sem beri að virða vilji menn tryggja frið og farsæld. Hann telur grunninn að skynsamlegri skipan heimsmála hafa verið lagðan árið 1648 með samningum eftir 30 ára stríðið. Jón Ormur telur að þessi skipan mála sé á undanhaldi og segir (bls. 104):

„Þetta þrennt ríki, þjóðir og fullveldi, sem mynda grunninn að stjórnmálum í alþjóðakerfinu, eru ógreinileg og ónákvæm fyrirbæri á fleygiferð í samtímanum.“

Er þetta svo í raun? Hugmyndir um Stór-Rússland, endurreisn kalífaveldis múslíma ganga að vísu þvert á þessa reglu og valda ófriði. Innan Evrópusambandsins er þróunin í átt til aukins valds þjóðríkisins á kostnað hins yfirþjóðlega valds.

Fyrirsögn undirþáttarins þar sem ofangreind tilvitnun stendur er: Arfurinn frá blóðvöllum Evrópu. Þessi orð ein kalla fram neikvæðar hugrenningar lesandans um þá skipan heimsmála sem ríkt hefur í rúm 400 ár.

Jón Ormur ræðir fræðikenningar í alþjóðastjórnmálum og segir (bls. 64):

„Annar þessara skóla er kenndur við raunsæi en hinn við frjálslyndi, hugsjónir stofnanir eða margræði. Heitið raunsæi kom til með þeim hætti að brautryðjendur þeirrar stefnu gagnrýndu fylgismenn þess sem þeir kölluðu hugsjónastefnu fyrir hættulegt og barnalegt traust á að koma mætti í veg fyrir átök á milli ríkja með baráttu fyrir hugsjónum um alþjóðalög, alþjóðastofnanir og lýðræði.“

Jón Ormur hallast að „frjálslynda skólanum“ í alþjóðamálum og oftar en einu sinni notar hann siðferðilega mælistiku til að rökstyðja skoðun sína. Hann segir hina frjálslyndu ganga „út frá siðferðislögmáli sem hornsteini alþjóðlegra samskipta“ (bls. 80). Hann telur raunsæisstefnuna meðal annars hafa leitt til stuðnings Bandaríkjastjórnar við einræðisherra og ofbeldisverk, þetta sé blettur á heiðri Bandaríkjanna. Hann nefnir Bandaríkjaforsetana og repúblíkanana Richard Nixon og Ronald Reagan til sögunnar sem málsvara raunsæisstefnunnar og segir (bls. 70):

„Í anda raunsæisins studdu Bandaríkin á tímum Nixons og Reagans einræðisstjórnir víða um heim og léku jafnvel lykilhlutverk að koma þeim til valda.“

Sagnfræðingurinn Niall Ferguson vinnur nú að ritun ævisögu Henrys Kissingers. Í tilefni af nýgerðu samkomulagi um kjarnorkumál Írana og afléttingu viðskiptabanns á þá skrifar hann grein í The Wall Street Journal (24. júlí) og segir:

„Nota ber sögulegar samlíkingar með varúð. Í síðustu viku hikaði forsetinn [Barack Obama] ekki við að líkja samningi sínum við Írana við það þegar Richard Nixon opnaði samband við Kínverja og það þegar Ronald Reagan samdi við Sovétmenn um fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Þessar samlíkingar eru villandi. Mao Zedong og Mikhaíl Gorbatsjov áttu undir högg að sækja þegar þeir sömdu við Bandaríkjastjórn. Kínverskum kommúnistum stóð snemma á áttunda áratugnum ytri ógn frá Sovétmönnum og inn á við frá hinni tryllingslegu menningarbyltingu sinni. Á níunda áratugnum voru Sovétmenn að tapa kalda stríðinu, ekki aðeins efnahagslega heldur einnig hugmyndafræðilega. Hið gagnstæða á við um ríkisstjórn Írans. Þótt hún búi við ákafan efnahagslegan þrýsting vegna þvingana að hvatningu Bandaríkjastjórnar hefur ríkisstjórninni tekist að bæta hernaðarlega stöðu sína eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak árið 2003 og einnig stöðuna á heimavelli eftir að græna byltingin var brotin á bak aftur árið 2009.“

Ferguson segir að í baráttu við kommúnismann í kalda stríðinu hafi verið tekist á við lenínista annars vegar og maóista hins vegar. Lausn Kissingers hafi falist í að ná betri tengslum við hvort kommúnistaríkið fyrir sig en þau tvö höfðu sín á milli. Ráðamenn í Washington hafi jafnframt lagt ríka áherslu á mjög öflug bandalög við ríki í Evrópu og Asíu. Þá segir Ferguson:

„Hver er hins vegar stefnan nú á tímum? Frammi fyrir tvíþættri mynd af íslömskum öfgamönnum, sjítum og súnnítum, höllumst við að Írönum, helstu stuðningsmönnum hinna fyrrnefndu. Við fjarlægjumst bandamenn okkar, hófsama súnníta og einnig Ísraela. Ég óttast að með því kyndum við undir átökum sértrúarhópa á öllum stigum, á heimaslóðum, innan þjóðríkja og svæðisbundið. Þetta gerist allt á sama tíma og
Obama forseti endurtekur í sífellu innantómu möntruna: Íslam er trú friðar.“

Ferguson hafnar því með öðrum orðum að réttmætt sé fyrir Obama að líkja sér við raunsæismennina Nixon og Reagan sem hafi kunnað að semja af styrkleika. Bandaríkjastjórn hafi ekki þann styrk nú sem þurfi til að semja við Írani og halda stöðu sinni sem óskoruðu forysturíki. Þetta er einn af meginþáttum hinnar breyttu heimsmyndar sem Jón Ormur lýsir í bók sinni, um hann er deilt eins og allt annað.

Hann segir á bls. 56:

„Í flóttamannabúðum í Palestínu, Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi sem hýsa fjórar kynslóðir á þjóð á flótta undan þjóðernishreinsunum Ísraela virðist bandaríski fáninn ekki heldur það frelsistákn sem hann var
við Checkpoint Charlie í Berlín eða við herstöðvar Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu. Þetta eru ömurlegir staðir þar sem hervaldi og niðurlægingu er beitt af einbeittum vilja og með kerfisbundnum hætti til að slökkva alla von hjá einni kynslóðinni enn. Grimmd þessa hernáms og niðurlægingin sem henni fylgir er enn meiri í návígi en nokkur mynd getur sýnt. Allt þetta hefur einkar einbeittur stuðningur Bandaríkjanna gert mögulegt.“

Nokkru síðar á sömu síðu nefnir hann til sögunnar nokkur lönd í Suður-Ameríku og segir að þar sé að „finna grafir þúsunda saklausra ungmenna sem drepin voru af dauðasveitum á snærum einræðisstjórna þessara landa á tímum Richards Nixon og Ronalds Reagan í Bandaríkjunum. Sá hernaður gegn mannréttindum, verkalýðsfélögum og lýðræði var beinlínis gerður mögulegur með einbeittri aðstoð Bandaríkjanna. Menn deila enn um einstök atvik í einstökum löndum en tæpast lengur um þessa almennu niðurstöðu.“

Þarna er skugga varpað á Bandaríkjamenn og tvo forseta þeirra með aðferð sem varla er talin fræðilega vönduð. Hér um að ræða dóm án raka og kaflar í þessum dúr eru blettur á bókinni. Má auðveldlega flokka þetta undir óvild í garð Bandaríkjanna og Ísrael. Að lemja á Bandaríkjamönnum og Ísraelum er gamalkunnugt stef og minnir á tilraunir á tímum kalda stríðsins til að sanna að Bandaríkin væru heldur verra risaveldi en Sovétríkin.

Kjarna málsins í hinum breytta heimi lýsir Jón Ormur hins vegar á þennan veg (bls. 252):

„Bandaríkin eru sterkasta ríki heimsins á öllum þeim fimm sviðum sem núorðið skipta mestu í alþjóðamálum. Þau eru sterkasta herveldi heimsins og búa yfir meira mjúku valdi en nokkurt annað ríki. Þau eru sterkasta efnahagsveldi heimsins og búa yfir sterkari hugmyndafræðilegri sýn á heiminn en flestir eða allir keppinautar þeirra. Og það sem skiptir ekki minnstu máli í heimi samtímans, Bandaríkin eru í miðju þeirra fjölmörgu og óraflóknu alþjóðlegu neta þar sem gangur margra alþjóðamála ræðst.“

Af þessum orðum má ráða að Jón Ormur er raunsær í mati sínu á því sem mestu skiptir við skilgreiningu á stöðu alþjóðamála á líðandi stundu hvað sem líður hollustu hann við „frjálslynda skólann“. Fræðikenningar koma að gagni sem leiðarhnoð en þær ráða ekki ferðinni. Hið sama á við nú og á tíma kalda stríðsins að þjóðir óska eftir samstarfi við Bandaríkjamenn til að tryggja öryggi sitt. Átökin sem hófust í Úkraínu vorið 2014 hafa á skömmum tíma gjörbreytt öllu starfi NATO svo að dæmi sé tekið. Þar er öll áhersla nú á sameiginlegar varnir undir forystu Bandaríkjamanna.

Í alþjóðamálum er ekki fyrir hendi neinn algildur mælikvarði um
réttmæti kenninga og skoðana frekar en í stjórnmálum almennt. Með bókinni Breyttum heimi birtir Jón Ormur Halldórsson skoðun sína og afstöðu. Tíminn einn leiðir í ljós hver framvindan verður en með bók sinni auðveldar hann lesandanum skilning á hvert stefnir.