Þrátt fyrir staðreyndir

Í pólitík er oft auðvelt að tapa umræðunni jafnvel þótt staðreyndir styðji málstaðinn. Þetta fengu stjórnarflokkarnir að reyna í desember, þegar stjórnarandstöðunni tókst að snúa öllu á hvolf í umræðum um bætur almannatrygginga.Bætur almannatrygginga

Þröstur verður að viðurkenna að stjórnarandstöðunni tókst vel upp og þá sérstaklega þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna í umræðum um bætur almannatrygginga. Þar komu þeir fram sem talsmenn sanngirnis og réttlætis, um leið og þeim tókst að útmála stjórnarliða sem kaldlynda stjórnmálamenn sem skeyta lítt um hag þeirra sem verst eru settir. Fjölmiðlar sungu undir og spilverk stjórnarandstöðunnar gekk fullkomlega upp. Auglýsingar birtust í blöðum með myndum af þingmönnum stjórnarflokkanna, þeir voru úthrópaðir á samfélagsmiðlum en hetjunum úr stjórnarandstöðunni hampað.

Og hvað hafa „skúrkarnir“ í stjórnarliðinu unnið sér til óhelgi?:

Frá 1. janúar 2013 til 1. janúar síðastliðins hafa bætur almannatrygginga hækkað að raunvirði um nær 13%.

Hetjur vinstri flokkanna – Samfylkingar og Vinstri grænna – fóru öðru vísi að og fengu litlar skammir og engar auglýsingar voru birtar í blöðum með myndum og nöfnum þingmanna:

Frá ársbyrjun 2009 til ársbyrjunar 2013 rýrnuðu bætur almannatrygginga um 3% að raunvirði og á árunum 2009 og 2010 um hvorki meira en minna en liðlega 5%.

Með þessar staðreyndi að vopni var Þröstur klár á því að liðsmenn ríkisstjórnarinnar gætu varist ágætlega þegar samfylkingar og vinstri grænir, lögðust í poppúlisma og vildu hækka bætur aftur í tímann. En allt kom fyrir ekki. Jafnvel sú staðreynd að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur aukið útgjöld til lífeyristrygginga – til öryrkja og eldri borgara – um nær 35 milljarða króna frá 2009 dugði ekki til að slá niður pólitískan leikaraskap.