„… að bera burt syndir heimsins”

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.”

Þannig svaraði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fyrirspurn um Icesave á Alþingi 3. júní 2009. Þá hafði Steingrímur setið á stóli fjármálaráðherra í liðlega fjóra mánuði.

Fyrirspyrjandinn var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Þrátt fyrir yfirlýsingu fjármálaráðherra um að ekkert væri að gerast og ekki væri verið að ganga frá samningum við Breta eða Hollendinga, undirritaði Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands samning tveimur dögum síðar.

Skipan Svavar sem formann samninganefndar í erfiðri milliríkjadeilu vakti mikla athygli enda hafði hann enga reynslu af slíkum samningum. Svavar sagði að um væri að ræða „alveg hrikalega stórt verkefni“ sem hann sinnti „eins og ég hef vit og getu til“.

Í viðtali við Morgunblaðið, þremur dögum eftir undirritun samningsins, sagðist Svavar hafa verið „svo forhertur“ að hafa tekið að sér „þetta svakalega verkefni ásamt samstarfsmönnum, eitt stærsta efnahagslega verkefni sem Ísland hefur nokkurn tímann glímt við“. Í huga Svavars var verkefnið svo stórt að ef ekki hefði verið gengið frá samningum hefði allt innistæðutryggingakerfið í Evrópu hrunið. Hvorki meira né minna. Með öðrum orðum allt bankakerfið Evrópu var undir í huga Svavars. Það var því ekki furða að hann lýsti eftirfarandi yfir í Morgunblaðsviðtalinu:

„Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist.“

Sjálfstraust Svavars var í samræmi við þá miklu trú sem Steingrímur J. hafði á sínum gamla pólitíska læriföður. Í umræðuþætti á mbl.is 19. mars 2009 sagði fjármálaráðherra:

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.

Steingrímur J. bætti síðar við:

„Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.“

Með Svavars-samningunum samþykkti ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í raun að þjóðnýta skuldir einkafyrirtæki – Landsbankans – og leggja hundruð milljarða á íslenska skattgreiðendur. Í fyrstu var samningunum haldið leyndum en strax hófst hörð barátta við að tryggja samþykkt þeirra.

Umpólun Steingríms J.steingrimur-j.-sigfusson-johannes jansson

Engir – hvorki pólitískir samherjar eða andstæðingar – gátu látið sér til hugar koma umpólun Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-deilunni, eftir að hann settist að völdum í fjármálaráðuneytinu í febrúar 2009. Þvert á móti var ekki hægt að reikna með öðru en að Steingrímur J. stæði fast á lagalegum rétti Íslendinga.
Í samtali við mbl.is 22. október 2008 eða skömmu eftir að íslenska bankakerfið féll – taldi Steingrímur J. að krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um uppgjör á Icesave-skuldum Landsbankans, væri fjárkúgun:

„Ég hef heyrt þann orðróm að þarna séu tengsl á milli og ef það er svo að þetta sé fyrirfram skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að koma hér að málum, að við gerum upp öll þessi ósköp í Bretlandi og Hollandi án þess að það liggi endilega fyrir að okkur sé lagalega og þjóðréttarlega skylt að gera það, þá er það auðvitað ekkert annað en fjárkúgun. Þá eru allar okkar verstu martraðir að rætast hvað varðar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þegar þessi orð voru sögð var Steingrímur J. í stjórnarandstöðu. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 2009, nokkrum dögum áður en hann tók við embætti fjármálaráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins, tók hann af öll tvímæli um að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum einkabanka:

„Eins og lögfræðingar hafa bent á var hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB/EES­svæðisins aldrei að takast á við allsherjar bankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn ESB. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave­reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingasjóði innistæðueigenda.“

Kúba og Norður Kórea

Islands statsminister Jóhanna Sigurðardóttir vid Nordiska rådets session i Reykjavik på Island. 2010-11-02. Foto: Magnus Fröderberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifaði grein í Morgunblaðið 9. júní:

„Eftir að hafa farið vandlega yfir málið með samninganefnd íslenska ríkisins sannfærðist ríkisstjórnin um að ekki væri hægt að ná betri samningum án þess að taka enn frekari áhættu með framhald endurreisnarstarfsins sem nú stendur yfir. Lengra yrði ekki komist án harkalegra árekstra við alþjóðasamfélagið eða mikilla tafa á endurreisnarstarfinu. Skiptir þar sköpum það 7 ára svigrúm sem gefið er til að nýta sem best eignir Landsbankans til að borga upp skuldina, áður en til ábyrgðar eða útgjalda íslenska ríkisins gæti komið.“

Gylfi Magnússon, sem hafði verið skipaður viðskiptaráðherra, gekk enn lengra en forsætisráðherra í baráttunni fyrir samþykkt samninganna við Breta og Hollendinga. Hann sparaði ekki stóru orðin í viðtali við Stöð 2:

„Þá væri einfaldlega allt í uppnámi, öll samskipti okkar við erlend ríki, áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lánasamningarnir frá Norðurlöndum og raunar líka hversdagslegir hlutir eins og alþjóðleg bankaviðskipti.“

Þetta var sagt 26. júní og viðskiptaráðherra setti fram dómsdagspá sína ef samningarnir yrðu ekki samþykktir:

„Við værum bara eiginlega búin að einangra okkur frá umheiminum og komin aftur á einhverskonar Kúbustig. Við verðum svona Kúba norðursins.“

Sýn Gylfa Magnússonar var í takt við aðra svartsýnisspá. Sama dag var gamall starfsfélagi Gylfa við hagfræðideild Háskóla Íslands, ekki að skafa utan af hlutunum í Fréttablaðinu:

„Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea. Þetta segir Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sem segist mjög hissa á óábyrgri afstöðu sumra stjórnmálamanna til málsins.“

Fréttablaðið hafði síðan orðrétt eftir Þórólfi um hvað gerðist ef Icesave-samningarnir næðu ekki fram að ganga:

„Þetta er alveg hrikalega ljót sviðsmynd sem þá kemur upp.“

Í pistli á heimasíðu sinni 29. júní skrifaði forsætisráðherra.

„Með samkomulaginu er háum þröskuldi rutt úr vegi endurreisnaráætlunar Íslands og með því opnast á ný, þær efnahagslegu og pólitísku dyr til alþjóðasamfélagsins sem framtíð Íslands byggir ekki hvað síst á.

Að mínum dómi hefur það markmið Alþingis náðst með Icesave samningunum að tekið yrði tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í“. Það er gert með því að ríkið þarf ekki að inna neinar greiðslur af hendi næstu sjö ár meðan Íslendingar eru að vinna sig út úr efnahagsvandanum. Höfuðstólinn greiðist þennan tíma niður eins og tök eru á með tekjum af eignum Landsbankans.“

Mogginn í liði vinstri stjórnar

Morgunblaðið gekk til liðs við ríkisstjórnina. Í leiðara 6. júní var tekið fram að niðurstaðan í Icesave-málinu væri ekki góð en „Íslendingar voru komnir út í horn og áttu ekki annan kost í þröngri stöðu en að semja – eins blóðugt og það er“. Leiðarahöfundur undir ritstjórn Ólafs Þ. Stephensens skrifaði síðan:

„Með því að niðurstaða er fengin gagnvart Bretum og Hollendingum er kannski von til þess að fyrirstöðum fækki í alþjóðasamfélaginu og fara megi að einbeita sér að því að koma íslensku efnahagslífi í gang.“

Í Reykjavíkurbréfi sem birtist sunnudaginn 14. júní hélt ritstjórn Morgunblaðsins áfram að verja Svavars-samningana:

„Samningamenn Íslands virðast því hafa náð talsverðum árangri. Lengi má deila um hvort hægt hefði verið að gera betur. Vextirnir virðast hins vegar hagstæðari en þeir, sem íslenzka ríkinu hefðu boðizt ef leitað hefði verið fjármögnunar annars staðar. Menn verða líka að átta sig á því að fjármagn liggur alls ekki á lausu þessa dagana og langtímavextir eru enn frekar háir.“

Nokkrum dögum eftir eftir undirritun Icesave-samninganna komu upp efasemdir um að ríkisstjórnin hefði þingmeirihluta fyrir samþykkt þeirra. Jóhanna var þess hins vegar fullviss og sagðist treysta því „að málið hafi fullan stuðning stjórnarflokkanna þegar þetta kemur til atkvæðagreiðslu“. Annað átti eftir að koma á daginn.

Lilja Mósesdóttir, sem þá tilheyrði þingflokki Vinstri grænna, sagði á þingi 20. ágúst 2009:

Lilja Mosesdottir, hagfrae?ingur. 2 saeti, VG Rvk Su?ur.

„Frá upphafi hef ég ásamt félögum mínum í þingflokki VG, hæstvirtum ráðherra Ögmundi Jónassyni og háttvirtum þingflokksformanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, verið á móti Icesave-samningnum. Þessi andstaða okkar kom skýrt fram á fundi þingflokks VG fyrir rúmum tveimur mánuðum þegar við höfnuðum beiðni hæstvirts fjármálaráðherra um umboð til að klára Icesave-lánasamningana.“

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk Vinstri grænna í mars 2011. Þau nefndu margar ástæður fyrir brotthvarfinu, en ein ástæðan var hvernig ríkisstjórnin hafði haldið á Icesave-málinu.

Í yfirlýsingu staðfestu þau enn frekar að Jóhanna og Steingrímur höfðu ekki tryggt meirihluta fyrir samningunum:

„Saga Icesave er samfelld sorgarsaga en þingflokkur VG beitti sér af mikilli hörku gegn því að semja um ábyrgð ríkisins á Icesave haustið 2008. Þegar komið var í ríkisstjórn var hins vegar ætlast til þess af þingmönnum stjórnarflokkanna að þeir veittu umboð sitt til undirskriftar við óséðan samning. Skrifað var undir þrátt fyrir að ekki væri þingmeirihluti að baki og þrátt fyrir afgerandi andstöðu tæplega helmings þingflokks VG og kröfu um að fá að sjá hvað um væri að ræða. Hlífa hefði mátt þjóðinni við þessu klúðri ef betur hefði verið staðið að málum strax í upphafi.“

Í samtali við Morgunblaðið 31. maí 2012 sagði Atli að Svavars-samningurinn hafi verið „skilgetið afkvæmi“ umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. „Samningurinn var skilyrði þess að umsóknin yrði móttekin en ekki endursend ríkisstjórninni,“ sagði Atli og hann bætti við:

„Það kom flatt upp á marga að samningurinn skyldi liggja fyrir strax í júní 2009.

Steingrímur J. Sigfússon sagði í apríl sama ár að það lægi ekkert á að semja. En skýringin lá í augum uppi. Samningurinn var lykill Steingríms J. að stjórnarsamstarfi og ráðherradómi og hluti af aðildarumsókninni sem aftur skýrði leyndina. Á síðari stigum málsins kom ESB með virkum hætti inn í dómsmálið fyrir EFTA-dómstólnum.“

Lítilsverður sparðatíningurIndriði H. ÞorlákssonSH

Sumarið 2009 fór í miklar deilur um Icesave-málið sem lauk með samþykkt frumvarps fjármálaráðherra um heimild „til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að
ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðutryggingar hjá Landsbanka Íslands hf“.

Andstaðan við samninganna kom forystu ríkisstjórnarinnar og talsmönnum hennar í opna skjöldu. Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og einn samninganefndarmanna með Svavari Gestssyni, var undrandi í viðtali við Morgunblaðið 25. júlí:

„Ég get ekki neitað því að ég er undrandi á því hvernig umræðan bæði í þinginu og í fjölmiðlum hefur að mestu farið frá aðalatriðum og leiðst út í lítilsverðan sparðatíning, upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar.“

Dr. Sigurður Hannesson stærðfræðingur telur að vaxtakostnaður Íslendinga vegna Svavars-samningsins svokallaða vegna Icesave-skulda Landsbankans, hefði numið 241 milljarði króna, óháð heimtum úr búi bankans. Þennan vaxtakostnað hefðu skattgreiðendur á Íslandi þurft að bera ef samningurinn hefði náð fram að ganga. Vaxtakostnaðurinn hefði numið um þremur milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi kostnaður var sparðatíningur í hugum stuðnings- og forráðamanna vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti staðfesti lögin 2. september en þá þegar höfðu honum borist áskoranir um að hafna staðfestingu þeirra. Um leið gaf hann út skriflega yfirlýsingu, þar sem bent var á að í lögunum væru margvíslegir fyrirvarar sem Alþingi setti inn í frumvarp fjármálaráðherra.

En heilladísirnar voru á bandi Íslendinga því bresk og hollensk stjórnvöld felldu sig ekki við þá fyrirvara sem Alþingi hafði sett. Vegna þessa hófust viðræður að nýju milli landanna þriggja. Ágreiningur var í vinstri ríkisstjórninni um málið og Ögmundur Jónasson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra. Í viðtali í Spegli Ríkisútvarpsins 18. september var Ögmundur harðorður:

„Við höfum verið með hnífinn á barkanum, Íslendingar, af hálfu Breta og Hollendinga, þessara gömlu nýlenduherra, sem kunna nú sitthvað fyrir sér þegar þeir eru að beygja undir sig fórnarlömb sín.“

Eftir nýjar viðræður við Breta og Hollendinga var sérstakur viðaukasamningur við fyrirliggjandi lánasamninga undirritaður 19. október. Steingrímur J. Sigfússon lagði fram frumvarp og til harðra átaka kom á þingi. Stjórnarandstaðan hélt því fram að þeir fyrirvarar sem þingið hafði samþykkt í ágúst væru að engu gerðir.

Frumvarp fjármálaráðherra (Icesave II) var samþykkt 30. desember, en nú neitaði forseti að staðfesta lögin. Í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010 höfnuðu 98% kjósenda að gangast í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Áður en ríkisábyrgðin var samþykkt af meirihluta þingsins var breytingatillaga sem Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram um að efnt skyldi til þjóðaratkvæðis, felld með 33 atkvæðum gegn 30. Breytingartillagan var einföld:

„Bera skal heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð skv. 1. mgr. undir þjóðaratkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra manna svo fljótt sem verða má og eigi síðar en sex vikum frá gildistöku laganna. Heimildin skal veitt sé meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi því.“

Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, auk nokkurra stjórnarþingmanna studdu tillögu Péturs en það dugði ekki. Þegar greidd voru atkvæði um tillöguna sagði Pétur:

„Hér er lagt til að borgarar þessa lands taki ákvörðun um það hvort þeir vilji taka á sig þessar gífurlegu skuldbindingar, sem ekki aðeins þeir, heldur líka börnin þeirra og barnabörn, munu greiða.“

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu:

„Hvers vegna er þjóðinni ekki treyst? Óttast ríkisstjórnin kannski þjóðina og vilja hennar? Þetta mál á að bera undir ákvörðunarvald íslensku þjóðarinnar.“

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, barðist hart fyrir framgangi Svavars-samninganna og síðar Icesave II. Hann skrifaði pistil á heimasíðu sína 11. janúar 2010:

„Því hefur verið haldið fram að með Icesave-samningunum sé verið að setja óheyrilegar byrðar á komandi kynslóðir Íslendinga, sumir segja um alla framtíð. Ekkert þessu líkt er að finna í öllum þeim gögnum sem Alþingi hefur borist frá fjölmörgum aðilum við umfjöllun málsins.“

Björn Valur bætti við:

„Það er því hjákátlegt að þurfa að hlusta á svokallaða sérfræðinga, innlendra og erlendra, haldi því fram að komandi kynslóðir Íslendinga komi til með að greiða þessar skuldir. Enn grátlegra er þó að hlusta á fjölmiðlafólk láta þessa vitleysu yfir sig ganga án þess að bregðast við sem bendir til þess að fjölmiðlar láti stjórnast af umræðunni gagnrýnislaust. Það er áhyggjuefni ef svo er, ekki síst í komandi kosningabaráttu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“

Indriði H. Þorláksson var sérstaklega ósáttur við niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja,“ var einkunnin sem Indriði gaf þeim sem ekki voru tilbúnir til að skrifa upp á Icesave-reikninginn. Í pistli á Smugunni, vefriti Vinstri grænna, fór Indriði hörðum orðum um andstæðinga Icesave-samkomulagsins:

„Í umræðunni fundu flestir mola við sitt hæfi sem nýttust þeim til að gera sjálfmynd sína að söluvöru á markaðstorgi lýðskrumsins. Þjóðernishroki, heimsfrelsun, minnimáttarkennd, kveinstafir og vesældarþráhyggja fundu sér samastað í henni. Unnt var að fræðast mikið um þátttakendur en lítið um málið.“

Ekki leið nema mánuður frá því að 98% kjósenda höfnuðu Icesave-lögunum, þangað til ríkisstjórnin var búin að undirrita viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum endurskoðun á efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og sjóðsins.

Í 20. lið yfirlýsingarinnar gekk ríkisstjórnin þvert á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Yfirlýsingin var ekki skilin öðruvísi en að ríkisstjórnin hafi viðurkennt með skýrari hætti en nokkru sinni, skyldu íslenska ríkisins að ábyrgjast Icesave-skuldir Landsbankans.

Ný samninganefnd var skipuð í febrúar 2010 samkvæmt sérstöku samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu. Formaður var bandaríski lögfræðingurinn Lee Buckheit.

Engin vandræða að greiða

En áfram var haldið að berjast fyrir þjóðnýtingu Icesave-skulda Landsbankans. Björn Valur Gíslason skrifaði á heimasíðu sína 7. september 2010:

„Ég fæ ekki með nokkru móti séð að íslenska þjóðin, íslenskur almenningur, heimili og fyrirtæki, hafi gott af því að málinu sé haldið í því horfi sem það er í dag. Fyrir því eru engin haldbær rök. Þeirra ábyrgð er mikil sem hafa lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir lausn málsins og haft erindi sem erfiði.
Nú er kominn tími til að loka þessu máli, kalla það aftur inn á þing og samþykkja þann samning sem í boði er áður en málið versnar enn frekar, öllum til tjóns.”

Nýr samningur – Icesave III – leit dagsins ljós og enn á ný kom stjórnarmeirihlutinn í veg fyrir að samningurinn yrði borinn undir þjóðina. Enn á ný var það forsetinn sem synjaði samþykkt laga og tryggði þar með þjóðaratkvæðagreiðslu í annað sinn. Kjósendur höfnuðu samningunum í atkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Um 60% sem sögðu nei.
Daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna átti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fund með erlendum blaðamönnum. Þar gaf hann út merkilega yfirlýsingu:

„Íslenska ríkið mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að greiða skuldir sínar. Gjaldeyrisforðinn nægir fullkomlega fyrir afborgunum á næstu árum.“