Dagur í sjálfbærum niðurskurði

Þröstur verður að viðurkenna að hann er hættur að botna upp eða niður í borgarstjórn Reykjavíkur. Fjármál borgarinnar eru í algjörum ólestri. Eftir nær fimm ára valdatíð Dags B. Eggertssonar, fyrst sem skugga-borgarstjóra og síðan borgarstjóra, blasir óstjórn og óreiða við; gatnakerfið er að hrynja, þrengt er að leik- og grunnskólum, þjónusta við eldri borgara er skert, gjaldskrár eru hækkaðar, ný gjöld lögð á (og er hugmyndaauðgin mikil), útsvarið í hæstu löglegum hæðum og stjórnkerfið þanið út.

Sem sagt:

Kjöraðstæður fyrir minnihluta í borgarstjórn til að láta til sín taka. En það er engu líkara en að stjórnarandstaðan hafi ákveðið að halda sig til hlés – taka sér frí. Að minnsta kosti á Þröstur erfitt með að finna fulltrúa minnihlutaflokkanna.

Þess vegna heldur vitleysan áfram og borgarstjóri heldur uppteknum hætti með farandskrifstofu sinni og gæluverkefnum. Og meirihluti borgarstjórnar kemst upp með að birta frétt á vef borgarinnar undir fyrirsögninni:

„Sjálfbær rekstur hjá Reykjavíkurborg“

Það er verið að hæðast að borgarbúum og gera grín að minnihlutanum, allt í trausti þess að engu verði mótmælt og að ekki verði gerð tilraun til að leiða hið sanna í ljós.
En nú þurfa Dagur B. og félagar að beita niðurskurðarhnífnum og þá er skal honum beitt á annað en gæluverkefnin. Í leiðara Morgunblaðsins segir meðal annars:

„Vegna þessa niðurskurðar er sérkennsla í hættu í leik- og grunnskólum. Það veikir stöðu þeirra sem verst eru settir.

Forgangsröðin í aðgerðum borgarinnar vekur furðu. Þó er hægt að hugga sig við að Grensásvegur verður þrengdur, hvað sem tautar. Vissulega yrði ekki stoppað upp í gatið með því að hætta við þá framkvæmd, en staðfesta meirihlutans í því máli ber því vitni að honum er fyrirmunað að greina á milli þess sem er þarft og óþarft í útgjöldum borgarinnar.“

Þröstur bíður og vonar, líkt og borgarbúar, að minnihluti borgarstjórnar komi úr fríinu og vakni til lífsins.