„… best að jarða flokkinn utan fundar“

Þröstur hugleiddi hvort hann ætti ekki að taka upp hanskann fyrir Árna Pál Árnason. Það er sótt að honum út öllu máttum, jafnt innan flokksins sem utan. En svo komast Þröstur að þeirri niðurstöðu að öðrum bæri ríkari skylda þess að grípa til varna fyrir laskaðan formann.

Þröstur er mjög hugsi yfir því af hverju Össur Skarphéðinsson kemur ekki fram opinberlega og lýsir yfir stuðningi við Árna Pál. Fáir ættu að skilja stöðuna betur en Össur sem var veginn í formannsstóli af svilkonu sinni. Þá var gengi Samfylkingarinnar með gott og fylgið yfir 30%. Frá þeim tíma hefur flest verið á niðurleið.

Össur sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í liðlega fjögur ár. Hrun flokksins hófst í valdatíð Jóhönnu í forsætisráðuneytinu og á formannsstóli Samfylkingarinnar. Árna Páli tókst að minnka blæðinguna á tímabili en innanmein gerðu honum erfitt fyrir. Síðan var atlaga gerð að honum á liðnu ári í „skjóli myrkurs“. Eftir blóðug innanflokksátök hefur Samfylkingin breyst í lítinn smáflokk. Össur er hins vegar of upptekinn af því að koma sér í mjúkinn hjá Pírötum, til að rétta Árna Páli hjálparhönd.

Í upplausnarástandinu sem einkennir allt flokksstarf Samfylkingarinnar virðist enginn þekkja lög flokksins, eins og Björn Bjarnason bendir á í dagbókarfærslu. Að minnsta kosti eru gefnar misvísandi yfirlýsingar „um hvort unnt sé að skipta um formann með hraði sýna ekki annað“:

„Kristján Guy Burgess tók við framkvæmdastjórn flokksins 1. nóvember 2015. Fylgið hefur minnkað jafnt og þétt síðan, ekkert hefur heyrst frá honum hvort og hvenær er unnt að halda landsfund. Kannski er bara best að jarða flokkinn utan fundar?“