Laugavegurinn verður enskur

„Mér hrýs samt hugur við því er götur í Reykjavík verða einhvern tímann nefndar enskum nöfnum til að hjálpa útlendum ferðamönnum á ráfi sínu um borgina. Ljósi punkturinn er þó sá að þá mun enginn villast til Siglufjarðar sem ætlar á hótel á „Hot Spring Street no.22a“.“

Þannig skrifar Sigurður Sigurðarson á bloggsíðuna en tilefnið er frásögn mbl.is þar sem „fræga fólkið lét sig ekki vanta,“ þegar veitingastaðurinn „Lobster & Stuff“ var opnaður. Sigurður segir að humar sé vissulega góður sé „hann rétt matreiddur en þetta „stuff“ er algjört óæti:

„Hef oft bragðað á „stöffi“ og alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Auðvitað er ég ekki einn af fræga fólkinu, en með boðsmiða í höndunum hefði ég ábyggilega mætt enda finnst mér afar gott að drekka og borða á kostnað annarra.“

Sigurður skrifar síðan:

„Dettur einhverjum í hug að ensk nafn hugnist íslenskum neytendum? Dettur einhverjum í hug að útlendum ferðamönnum þyki enskt nafn svo menningarlega merkilegt að þeir flykkist á staðinn frekar en að fara á „Humarhúsið“. Hvað er annars átt við með „Stuff“?“

Sem betur fer eru ekki allir veitingamenn sem falla í ensku-gryfjuna og Sigurður nefnir t.d. Lækjarbrekku, Kopar, Salt, Sægreifann, Sjávargrillið, Pottinn, Torfuna. Svo virðist hins vegar að Laugavegurinn sé að breytast í enska götu og Sigurður nefnir dæmi:

  • Quest -Hair, Beer & Whisky Saloon
  • Igdlo Travel
  • Public House – Gastropub
  • Le bistro
  • Black Pepper Fashion
  • Room With a View apartment hotel
  • Trip
  • Freebird
  • Nostalgia
  • Kíkí queer bar

Sigurður bætir við:

„Gleymdi hér fyrir ofan einu sem hlýtur að teljast botninn í enskri nafngift á íslensku fyrirtæki í Reykjavík: „Chuck Norris Grill“. Ferðamennirnir flykkjast ábyggilega á stað með svona flottu nafni.“