Ana áfram í villu og svima

Guðrún Snót Jónsdóttir er ekki hrifinn af þeim félögum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Hjálmari Sveinssyni formanni skipulagsráðs. Hún á því að Dagur B. beri ekki minni ábyrgð á fylgishruni vinstri flokkana en þingmenn þeirra og formenn.

Í grein sem Guðrún Snót skrifar í Morgunblaðið bendir hún á að enn eigi að minnka þjónustuna við borgarbúa og hafi hún verið óviðunandi fyrir:

„Það á að fækka losunardögum ruslatunna, og bæta enn einni við, grænni tunnu, sem sagt er, að eigi að vera undir plast, en fæstir vita, hvers konar plast er átt við. Er kannski ætlast til þess, að við hellum úrganginum, sem við söfnum daglega í plastpoka, úr þeim í gráu tunnuna, en setjum þá síðan í þá grænu, – eða hver er meiningin með þessu? Kannski krakkarnir í borgarstjórninni vilji á endanum fara með okkur aftur til miðalda, þar sem öllum úrgangi var safnað í einn safnhaug fyrir utan bæjarhúsin og kveikt í honum með vissu millibili og öskunni mokað niður í jörð. Það væri svo sem eftir þeim.“

Um skipulagsmáli skrifar Guðrún Snót:

„Nei, gamanlaust, ástandið í skipulagsmálum borgarinnar er með þvílíkum hætti, að maður veit ekki, hvað maður á að hugsa eða halda lengur. Þessir angurgapar, sem stjórna borginni, ef stjórn skyldi kalla, láta sér það líka í léttu rúmi liggja, hvað við borgarbúar hugsum, segjum eða viljum, og því ekki ansað, svo að ekki er hægt að hafa önnur orð yfir það en: „Heyrandi heyrið þér ekki og sjáandi sjáið þér ekki.“ Krakkarnir í borgarstjórninni vilja heldur ekkert sjá, heyra eða skilja, og dramb þeirra falli næst. Það er alveg augljóst. Þau ana bara áfram í villu og svima sinn einstefnuveg með vinum sínum fjárfestunum, án þess að líta til hægri eða vinstri, sama hvað hver segir.“