Leki er skilyrði gagnsæis

Nú hefur það fengist staðfest. Píratar eru fylgjandi gagnsæi að undangengnum leka. Þetta staðfesti Helgi Hrafn Gunnarsson, sem mun með réttu bera titilinn kapteinn [sem Birgitta hefur lofað að nota ekki] á Alþingi síðastliðinn þriðjudag.

Þröstur er ánægður með að þetta skuli vera komið á hreint enda farinn að hafa áhyggjur af stefnu Pírata.

Í umræðum um störf þingsins ákvað Helgi Hrafn að vekja athygli þingheims á að þingflokkur Pírata hafi deginum áður gefið út yfirlýsingu um að hafa ráðið vinnusálfræðing til „að hjálpa okkur að starfa saman þrátt fyrir ýmsan þann ágreining sem viðgengst undir miklu álagi og í fordæmalausri stöðu“.

Ástæðan fyrir yfirlýsingunni er leki í fjölmiðlum eða eins og kapteininn sagði sjálfur:

„Þetta tiltæki okkar hafði spurst út í fjölmiðlum einhverju fyrr, en við höfðum neitað að svara fyrir það í fjölmiðlum…

Í gær ákváðum við að gefa út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að við höfum kosið að nýta okkur þessa þjónustu vinnustaðasálfræðings, enda hefur það þegar gert mikið gagn á mjög skömmum tíma. Nú skil ég mætavel að fólk geri grín að ágreiningi okkar og hneykslist á því að hann eigi sér stað í fjölmiðlum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að gegnsæið sé betra en feimnin til lengri tíma. En það sem mér blöskrar hins vegar, verð ég að segja, er að sjá að því að við höfum fengið til liðs við okkur vinnustaðasálfræðing sé tekið sem merki um það hversu mikið sé að hjá okkur, hversu hræðilega slæmt ástandið hljóti að vera.“