Nýjar átakalínur í íslenskum stjórnmálum

Átakalínur í íslenskum stjórnmálum, sem lengst af hafa verið skýrar, eru að breytast. Hinar nýju átakalínur standa um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Þær víglínur ganga þvert á flesta flokka. Þannig skrifar Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins í vetrarhefti Þjóðmála.

Tómas Ingi segir að annars vegar standi þeir sem trúa því að við getum skapað okkur eigin örlög og búið við fullveldi sjálfstæðrar þjóðar, í góðri samvinnu við aðrar þjóðir og á hins vergar sé þeir sem trúa því ekki. Þeir síðarnefndu telji að Íslendingar verði að gerast hluti af stærri heild, lúta reglum hennar og fyrirmælum:

„Þeir telja okkur ekki eiga annars úrkosti til að bjarga sjálfstæði okkar en að veita því í stærri farveg og öðlast hlutdeild, að vísu litla, í stóru fjölþjóðlegu samfélagi, sem lýtur stjórn mandarína.“

Í greininni færir Tómas Ingi rök fyrir því að nýju átakalínurnar hafi orðið til við tvenns konar gjaldþrot. Annars vegar var þar um að ræða hrun sameignarhugsjónarinnar innan svokallaðs „alræðis öreiganna”. Þar standi menn lamaðir eftir, með hugsjónina að vísu, en án verkfæra til að framkvæma hana. Hins vegar séu þeir sem trúa á einstaklingsfrelsi og markaðshagkerfi:

„Þeir trúðu því um tíma að þeirra hugsjón hefði sigrað heiminn. En það var verkfærið, kapítalisminn, sem bar sigur úr býtum. Nú er heimurinn í þjónustu hans. Eftir að hafa næstum kafnað í faðmi alræðisins, er heimurinn að drepast í dróma kapítalismans, sem er lénsskipulag nútímans.“

Tómas Ingi segir að staða Íslands í þessum heimi sé frekar góð en þó séu blikur á lofti:

„Þrátt fyrir stjórnmálalegt umkomuleysi, sem ríkir nú um stundir, hafa Íslendingar stöðu til að leggja rækt við lýðræðið, styrkja sjálfstæði sitt og efla fullveldi. Fyrir því eru þó nokkrar þungvægar forsendur.

Ein veit að okkur sjálfum og sjálfsvirðingu okkar. Önnur veit að efnahagslegum grundvallarhagsmunum og sú þriðja veit að sambandi okkar við umheiminn. Því er ekki að neita að á þessum þríþætta grundvelli hafa komið fram veikleikar. Þeim má líkja við bresti, sem ekki er gefið að séu traustabrestir.

Til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, þarf sjálfstraust. Við þurfum að trúa á menningu okkar og menntun. Við þurfum að trúa á mátt tungunnar og vísinda til að glíma við viðfangsefni nútímans. Við verðum að bera traust til verkmenningar og tækniþekkingar. Við þurfum að hafa sannfæringu fyrir því að á þessum sviðum getum við fylgst með, tekið þátt í framförum og stuðlað að nýjungum.

Við þurfum umfram allt annað að leggja rækt við grundvallarstofnanir okkar og treysta þeim. Ef þjóðin sýnir Alþingi tómlæti, verður sjálfstæði hennar sjónarspil eitt. Ef íslenskt réttarfar nýtur ekki virðingar, hrynja vörður og vegferð reynist óviss. Ef formlegt mat á efnahag þjóðarinnar, gjaldmiðilsmálin, losnar úr tengslum við raunveruleikann, verður skyggni takmarkað og hálla á ísnum en góðu hófi gegnir. Ef kristileg siðferðisvitund leysist upp í afstæðiskviksyndi, verður allt leyfilegt og löglegt, líka tómlæti og uppgjöf.“

Hér má lesa greinina í heild sinni:

 Tómas-Ingi-Fullveldi-smáríkja-á-öld-mandaríanna.pdf