Hallærislegt, magnlaust, stefnulaust og hugmyndalaust

Egill Helgason segir að margir á vinstri vængnum taki því með „feginleik“ að Katrín Jakobsdóttir skuli ekki ætla að sækjast eftir embætti forseta Íslands. Þeir vilji ekki missa Katrínu. „Það hefði þó verið ákveðinn sigur fyrir vinstri hreyfingu sem er í molum að koma einum helsta leiðtoga sínum í forsetaembættið,“ skrifar Egill á bloggsíðu sína og lýsir síðan pólitísku ástandi vinstri flokkanna:

„Flokkur hennar, VG, er fastur í fylgi smáflokks. Hinn eðlilegi samstarfsflokkur, Samfylkingin, er í enn verra ástandi. Endurnýjunin á vinstri vængnum er sáralítil, þetta er sama fólkið ár eftir ár. Steingrímur og Ögmundur sitja sem fastast í þingflokknum eins og þeir hafa gert síðan á síðustu öld.“

Egill dregur fram þá staðreynd að hvorki Vinstri grænir eða Samfylking laði að sér nýtt fólk:

„Ein rökin gegn því að Katrín færi í forsetaframboð voru þau að það væri enginn annar til að taka við flokknum. Það ber vott um mikið hallærisástand. Stundum eru viðraðar hugmyndir um að sameina VG og Samfylkingu, en í raun virðist ekki mikill hljómgrunnur fyrir því. Hvorugur flokkurinn veit almennilega hvert hann er að fara – og kannski nenna menn heldur ekki að fara í enn einn sameiningarleiðangurinn.“

Ekki er framtíðin fyrir Vinstri græna sérlega björt ef marka má Egil Helgason. Hann er á því að möguleikar flokksins felist fyrst og fremst í „því að Píratar vinni sigur í alþingiskosningunum á næsta ári og þurfi samstarfsflokk“:

„Þá gæti VG komist í ríkisstjórn þótt fylgið sé ekki mikið. Í þinginu eru vinstri flokkarnir algjörlega í skugganum af þriggja manna þingflokki Píratanna. Þar eru stjörnur stjórnarandstöðunnar en vinstrið virkar magnlaust, stefnulaust og hugmyndalaust.“

Í lok pistilsins fellir Egill stuttan en ákveðinn palladóm yfir Katrínu:

„Nú þegar Katrín aftekur forsetaframboð hefur hún ærið verk að vinna í sínum eigin flokki. Það er ekki nema ár í alþingiskosningar. Tekst henni að rífa flokkinn upp. Katrín er vinsæl og viðkunnanleg sem stjórnmálamaður, en kannski vantar eitthvað upp á kraftinn, virkar stundum værukær.“